Kosið um spillinguna á Íslandi

Pistlar
Share

Í komandi Alþingiskosningum um næstu helgi verður fyrst og fremst gert upp við landlæga spillingu í íslensku þjóðfélagi. Hrun viðskiptabankana haustið 2008 opnaði augu almennings fyrir því að ekki væri allt með felldu. Fram að því voru landsmenn þeirrar skoðunar að bæði stjórnsýsla og stjórnmálin væru nánast óspillt og bæru af flestum öðrum þjóðum. Hrunið á Íslandi var hluti af alþjóðlegri atburðarrás og átti því sér að mörgu leyti orsakir sem voru fyrir hendi víða um heim. En annað blasti við augum sjáenda eftir hrunið þegar áfallið neyddi almenning til þess að opna augun.

Stjórnmál + Seðlabanki = Spilling

Það sem skar í augu hér á landi var hversu umfangsmikið og afdrífaríkt fyrir kjör almennings það var. Eftirlitið með fjármálastofnunum var lakara en í öðrum löndum og forystumenn stóru viðskiptabankana fóru sín fram meira og minna að eigin geðþótta. Áhrif fjármálafurstanna á lagasetningu og framkvæmdavaldið voru óvenjumikil í samanburði við aðrar þjóðir. Nú síðast hefur verið upplýst að Seðlabankastjórinn fleygði 500 milljónum evra gjaldeyrisvarasjóði bankans í lánveitingu til Kaupþings með samþykki forsætisráðherrans þrátt fyrir að báðir væru meðvitaðir um að lánið fengist aldrei endurgreitt. Báðir hafa þeir lagt sig fram um að leyna fyrir þjóðinni frægu símtali sínu í byrjun október 2008. Fáir dagar eru síðan að fram komu trúverðugar upplýsingar um innihald símtalsins sem hafði svo afdrífaríkar afleiðingar í för með sér.

Seðlabankastjórinn var áður formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og fékk starfið í krafti pólitískrar stöðu sinnar. Forsætisráðherrann þáverandi var eftirmaður Seðlabankastjórans bæði sem forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Forystumenn viðskiptabankanna voru meira og minna tengdir Sjálfstæðisflokknum. Það þarf ekki að rekja fyrir lesendum nánar hvernig þessir fjárglæframenn fengu að hafa áhrif á löggjöf, reglur og ákvarðanir ríkisstjórnar á árunum fyrir hrun.

Það voru þessi nánu tengsl viðskipta við stjórnmál og stjórnsýslu sem leiddu til þess hrunið varð stórfelldari en annars staðar í veröldinni. Spillingin var orsökin. Verkefni íslenskra kjósenda er að úthýsa spillingunni. Til þess þarf að breyta viðhorfi almennings og síðan að sýna stjórnmálaflokkunum að gera verður breytingar með góðu eða illu. Þessar kosningar snúast meira um spillinguna en áður hefur verið. Það er meðal almennings meiri skilningur á því en áður að spillingin er til staðar og að hún er skaðleg. Spillingin hefur skert lífskjör almennings og heldur áfram að gera það meðan valdamiklir hagsmunaaðilar fá að valsa um og skipa stjórnmálaflokkum að setja leikreglur sér í hag og almenningi í óhag. Það á við ekki bara um fjármálamenn heldur líka harðsvíraða sérhagsmunahópa eins og Landsamband íslenskra útvegsmanna.

Spilltir ráðherrar

Þrátt fyrir að almennt árferði í efnahagsmálum sé með afbrigðum gott og lífskjör almennings batni stórum þessi árin mun núverandi ríkisstjórn ekki ríða feitu hrossi frá dómi kjósenda. Spillingin er skýringin á óförunum. Tveir ráðherrar hafa neyðst til þess að segja af sér þar sem þeir gengu fram af almennu velsæmi þjóðarinnar. Fyrr á þessu ári urðu fjölmennustu mótmæli í sögu Íslandsbyggðar vegna blekkingar þáverandi forsætisráðherra. Ráðherrann varð að segja af sér þar sem kjósendur létu ekki bjóða sér ósannsögli og tvöfeldni hans í málum sem þeim kom við. Þegar landsmenn tóku á sig harða lífskjaraskerðingu vegna tjóns ríkissjóðs af völdum hrunsins fól fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra fé sitt í leynireikningum erlendis og til þess að bíta höfuðið af skömminni var hann svo leynilega meðal kröfuhafa í þrotabú föllnu bankanna.

Innanríkisráðherrann Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins varð að lokum að segja af sér ráðherradómi. Hún barðist þó um á hæl og hnakka og þegar upp var staðið var syndalisti hennar orðinn svo langur að allt Morgunblaðið dygði ekki til þess að birta hann. Hanna Birna lét leka minnisblaði um hælisleitendur til fjölmiðla, hún sagði Alþingi ítrekað ósatt, hún beitti valdi sínu og vildi láta reka blaðamenn DV sem flutti fréttir henni ekki þóknanlegar. Hún flæmdi lögreglustjóra Höfuðborgarsvæðisins úr starfi og lagði til Umboðsmanns Alþingis. Allan þennan tíma naut hún fulls stuðnings forystumanna ríkisstjórnarinnar sem felldu saknaðartár þegar hún flæmdist úr valdastólnum.

Vestfirsk spilling

Spillingin á sér líka ból á Vestfjörðum og það þarf ekki að koma á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn er þar í brennidepli sem gerandi. Ríkisendurskoðun hefur gert ítarlega úttekt á spillingunni sem flaut á bæði borð við ráðningu nýs orkubússtjóra. Faglegum vinnubrögðum við ráðningu í starfið var vikið til hliðar og hæfnin metin út frá flokksskírteini. Forysta í því máli var á hendi sérstaks trúnaðarmanns formanns Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn á Vestfjörðum lítur enn svo á að æðstu embætti séu góss sem eigi að úthluta til pólitísks valinna pótindáta. Sjálfstæðisflokkurinn birtist sem hinn eiginlegi spillti sjóræningjaflokkur landsins og lætur greipar sópa.
Báðir stjórnarflokkarnir ganga sundraðir til kosninga einmitt vegna spillingarinnar. Kjósendum þeirra er mörgum hverjum misboðið og þeir vilja moka spillingarflórinn. Hreinsunarstarfið í íslenskum stjórnmálum er hafið.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir