Það þarf enga ríkisstjórn

Pistlar
Share

Það er komin upp pattstaða varðandi ríkisstjórnarmyndun. Þrír flokkar hafa fengið umboð til stjórnarmyndunar og öllum hefur mistekist. Það er ekki í augsýn nein ríkisstjórn sem hefur meirihluta þingmanna á bak við sig. Þessi staða er afleiðing af úrslitum kosninganna. Línur voru nokkuð skýrar hvað varðar megindrætti. Annars vegar voru flokkar sem bentu á landlæga spillingu og hins vegar flokkar sem vildu litlu breyta. Fyrrnefndi hópurinn vísaði í kerfislægan vanda þar sem hagsmunaaðilar fá að ráða miklu um sína hagsmuni. Síðarnefndi flokkahópurinn hafnar því að vandinn liggi í kerfinu og hagsmununum.

Kerfisflokkarnir voru í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili en misstu meirihlutann í kosningunum. Breytingaflokkarnir unnu ekki meirihluta en fengu mun fleiri atkvæði en kyrrstöðuflokkarnir. Stjórnarmyndunin verður enn flóknari þegar í ljós kemur að einn stjórnarandstöðuflokkurinn er varðstöðuflokkur óbreytts kerfis í atvinnumálum en vill breytingar til lífskjarajöfnunar og er þar breytingaflokkur.

Bara þingmenn

Um áratugaskeið hafa landsmenn vanist því að myndun ríkisstjórnar hafi verið aðalatriðið að afloknum hverjum alþingiskosningum. Forystumenn stjórnmálaflokkanna hafa komið þessu fyrirkomulagi á. Það nefnilega eykur völd þeirra og pólitískan þunga. Með því að gera ríkisstjórnina að þungamiðju stjórnmálanna verður þeirra eigin valdastaða miklu öflugri þar sem forystumennirnir fara þá bæði með forystu á Alþingi og í ríkisstjórn. Síðan færa þeir þungann frá Alþinginu til ríkisstjórnarinnar. Á þann hátt er mikið pólitísk vægi fært frá þingmönnum til ráðherra. Um langan aldur hefur staða þingmanna verið veikt á þennan hátt. Þingmenn hafa meira og minna verið eins og fótgönguliðar sem lúta stjórn liðsforingjanna í ríkisstjórn. Þeir hafa verið bara þingmenn.

Bara ráðherrar

Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir þessu fyrirkomulagi. Hvergi í stjórnarskránni er minnst einu orði á ríkisstjórn. Ríkisstjórn er fyrirbæri sem er ekki til í stjórnskipaninni. Ríkisstjórn hefur enga formlega stöðu. Ákvarðanir sem ráðherrar taka á ríkisstjórnarfundi hafa enga formlega eða lagalega þýðingu. Ríkisstjórnarfundir eru bara samráðsfundir ráðherra. Þar geta þeir náð pólitísku samkomulagi um mál, en lengra nær það ekki. Eigi að hrinda samkomulaginu í framkvæmd þarf að taka ákvarðanir á réttum stöðum. Það þarf að bera málið upp á Alþingi ef breyta þarf lögum eða ákvarða fjárútlát. Ríkisstjórn fer ekki með fjárveitingarvald, aðeins Alþingi.

Sé það á valdi ráðherra að fylgja ákvörðun á hans málasviði eftir gerir ráðherrann það með því að setja reglugerð eða einfaldlega taka formlega ákvörðun. Ráðherra þarf ekki samþykki annarra ráðherra fyrir ákvörðun sinni. Það segir skýrt og skorinort í stjórnarskránni að ráðherra beri ábyrgð á öllum stjórnarathöfnum og að ráðherra framkvæmi vald forseta. Hver ráðherra er yfirvald í sínum málaflokki og sínu ráðuneyti. Ríkisstjórn hefur ekkert yfir ráðherra að segja. Orðið ríkisstjórn er ekki til í stjórnarskránni heldur aðeins talað um ráðherrafundi og þá sem samráðsfundi.
Það þarf ráðherra til þess aðfara með framkvæmdavaldið og stjórna landinu en það þarf ekki ríkisstjórn.

Alþingi stjórnar

Niðurstaða hverra kosninga er skipan Alþingis. Alþingi er ætlað að stjórna með því að setja lögin sem framkvæmdavaldið verður að fara eftir. Ráðherrarnir þurfa á engan hátt að ráða því hvernig lögin eru. Hlutverk ráðherranna er að fylgja lögum en ekki að setja lögin. Þetta er hin mikla skekkja sem hefur ágerst í stjórnskipaninni. Frekir forystumenn stjórnmálaflokkanna láta sér ekki nægja að vera áhrifamenn á Alþingi heldur eru þeir orðnir hæstráðandi bæði um framkvæmdavald og löggjafarvald í gegnum ráðherrastöðuna. Afleiðingin er veikt Alþingi og gölluð löggjöf sem er lituð áhrifum hagsmunaaðila og perósnulegum vilja einstakra ráðherra sem jafnframt eru formenn flokka sem eru í ríkisstjórn. Verstu dæmin um þetta er löggjöf sem ákveður óljóst stefnuna en veitir viðkomandi raðherra heimild til til þess að útfæra óljósu stefnuna að eigin vild. Þetta má sjá í lögum um heilbrigðismál og sjávarútvegsmál. Með því að skilja á milli ráðherrastöðu og stjórnmálaflokka fæst betra jafnvægi í löggjöfina. Forystumenn flokkanna einbeita sér að því að hafa áhrif á lögin sem sett verða og hinir þingmennirnir losna undan ofurvaldi forystunnar og verða þar með virkari sem þingmenn.

Engan stjórnarsáttmála

Við núverandi ástand færi best á því að forseti Íslands skipaði utanþingsstjórn og létu svo Alþingi eftir að sinna því meginhlutverki sínu að setja lögin og þannig ákvarða megináherslurnar í þjóðfélaginu. Meirihluti þingmanna vill bæta heilbrigðiskerfið og gerir það. Öðruvísi skipaður meirihluti þingmanna vill gera breytingar í atvinnumálum eða á stjórnarskrá og hann gerir þá það o.s.frv. Það verður bara til bóta að enginn fastur meirihluti verði til sem geti svo í krafti flokksaga kúgað meirihlutavilja þingsins í ýmsum þjóðfélagsmálum og komið í veg fyrir breytingar.
Á þennan hátt er líklegt að vilji kjósenda komist til skila á Alþingi. Gleymum því ekki að þrátt fyrir stjórnarkreppuna varð krafan um breytingar meginniðurstaða Alþingiskosninganna.

Kristinn H. Gunnarsson

leiðari í blaðinu Vestfirðir 15. desember 2016

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir