Hnattvæðingin er umdeild. Alþjóðavæðing kapítalismans hefur á sér ýmsar myndir, sumar hverjar óásættanlegar. Taumlaus græðgi, vaxandi ójöfnuður í dreifingu eigna og tekna, á köflum yfirgengileg ósvífni og alger firring á samfélagslegri ábyrgð og skyldum hafa valdið óróa og vaxandi vantrú á kapitalismanum sem efnahagskerfi. Fjölþjóðafyrirtækin hafa mörg hver vafið stjórnvöldum einstakra ríkja um fingur sér og komast upp með að greiða ekki eðlilega skatta af starfsemi þeirra og hagnaði.
Íslendingar þekkja þetta hjá sumum alþjóðafyrirtækjum sem starfa á Íslandi, en fyrst og fremst eru það íslenskir auðmenn sem hafa nýtt sér Panama og Tortóla skattaskjólin í slíkum mæli að líklega er um heimsmet að ræða, hvort sem mælt er í fjárhæðum eða samkvæmt höfðatölu. Tækniframfarir í formi rafrænna viðskipta og internetsins ásamt frjálsum fjármagnsflutningum milli landa og ólíkra gjaldmiðla hafa bætt nýrri vídd við hnattvæðinguna.
Ýmsar aðrar slæmar verkanir fylgja hnattvæðingunni svo sem að störf við framleiðslu hafa flust frá einu landi til annars á skammri stundu og valdið a.m.k. svæðisbundnum vanda. Bílaverksmiðjur flytja starfsemi sína til landa þar sem vinnulaun eru lág miðað við heimaríkið. Þetta á við ýmsa aðra framleiðslu. Þegar ný störf koma ekki fljótlega í stað þeirra sem fluttust getur orðið alvarlegt atvinnuleysi. Eins eru mörg dæmi þess að innflytjendur hafa verið tilbúnir til þess að vinna fyrir lægri laun en þeir sem fyrir voru.
Af þessu verður hljómgrunnur fyrir málflutningi sem gengur út að færa aðstæður aftur til fyrra horfs. Hinn nýi Bandaríkjaforseti boðar tolla og innflutningshöft á vörum til Bandaríkjanna og hyggst þannig fá störfin aftur heim. Trump daðrar líka fullum fetum við andúð á útlendingum og hefur upp heitstrengingar um að reka milljónir manna úr landi. Svipaðan tón hefur mátt heyra í Bretlandi og hvað skýrast í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Sameiginlegt er þessum málflutningi er fráhvarf frá áratugalangri þróun í átt til aukins viðskiptafrelsins í heiminum.
Kínverjar styðja hnattvæðinguna
Það er út fyrir sig ærinn umsnúningur að höfuðríki frelsins í verslun og viðskiptum, Bandaríkin, skuli nú vera undir stjórn forseta sem snýst gegn hugmyndafræðilegum grundvelli þess. Það eru mikil tíðindi vegna þess að sívaxandi viðskiptafrelsi og alþjóðlegir samningar hafa sannanlega bætt lífskjörin. Allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar hefur þessi alþjóðlega stefna verið borin fram af Bandaríkjunum og fylgt dyggilega af Bretum og verið leiðarstefið í heimsviðskiptunum. Lífskjör í þessum löndum og mun fleirum hafa batnað meir á þessu tímabili en dæmi eru um. Íslendingar hafa notið góðs af þessari alþjóðlegu stefnu. Fríverslun með fisk fleytti lífskjörum fram meir en nokkuð annað.
En við umsnúning Bandaríkjamanna bætist svo afstaða Kínverja, eina miðstýrða kommúnistaríkisins sem eitthvað kveður að. Þeir hafa líka snúið við blaðinu. Á nýafstaðinni ráðstefnu í Davos í Sviss sagði forseti Kína að það væri rangt að skella allri skuld á hnattvæðinguna. Hnattvæðingin væri góð og bætti lífskjörin í mörgum ríkjum. Skýrasta dæmið er Kína með sína 1300 milljónir manna. Hagvöxtur hefur þar í aldarfjórðung samfleytt verið langt yfir öllum meðaltölum og lífskjör hundruða milljóna Kínverja hafa tekið stórstígum framförum. Það hefur líklega komið í veg fyrir óróa og uppreisn í landinu. Þessi breyting byggist á útflutningi, á viðskiptum Kínverja við aðrar þjóðir. Viðskiptin hafa fært Kínverjum ábata en ekki síður íbúum þeirra ríkja sem hafa keypt vörur og þjónustu af Kínverjum. Fyrir þá hafa viðskiptin lækkað verðlagið og þannig bætt lífskjörin. Íslendingar hafa nýtt sér lág vinnulaun í Kína til þess að framleiða vörur í Kína og flytja þær svo heim til sölu.
Nú er svo komið að talið er að þeir Kínverjar sem búa við mikla kaupgetu séu álíka margir og allir íbúar Evrópu til samans. Bandaríkjamenn hafa líka hagnast á hnattvæðingunni. Kína er orðinn einn stærsti markaður fyrir útflutningsvörur þeirra.
Viðskiptafrelsið bætir lífskjörin
Í þessu ljósi er eðlilegt að Kínverjar styðju hnattvæðinguna og þeir hafa rétt fyrir sér í því að hún bætir almenn lífskjör. Á síðustu 25 árum hefur margt áunnist. Sár fátækt sem er mikil í heiminum hefur minnkað mjög. Miðað er við þá sem hafa minna en 1,90 bandaríska dollara í tekjur á dag. Árið 1990 er talið að 35% jarðarbúa hafi búið við þennan þrönga kost. Nú er talið að hlutfallið hafi lækkað niður í 10%. Fátækum í þessum skilningi hefur fækkað úr 1850 milljónum í 767 milljónir. Það er mikill árangur og stór liður í því er að opna markaði fyrir vörur og þjónustu frá þessum fátæku löndum. Fyrir þær þjóðir er viðskiptafrelsið leiðin úr fátækt. Á þetta benda bæði Alþjóðabankinn og hjálparsamtökin Oxfam í nýlegum skýrslum sínum.
En það er líka á það bent að á síðustu árum hefur ójöfnuður vaxið. Fáir aðilar auðgast mikið en lífskjör stórs hóps fólks í hinu kapitalíska hagkerfi batnar lítið sem ekkert. Sívaxandi ójöfnuður er orðið eitt stærsta vandamálið sem taka þarf á. Í stað þess að hverfa frá meginreglunni um frelsi í viðskiptum væri nær að afmarka gallana og ná samkomulagi um bráðnauðsynlegar úrbætur. Afturhvarf til einangrunar og hafta þýðir aðeins verri lífskjör fyrir alla, sérstaklega fyrir fátækustu þjóðirnar. Fyrir þær er aukið viðskiptafrelsi lífsnauðsyn.
Kristinn H. Gunnarsson
leiðari í blaðinu Vestfirðir
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir