Dætur Pílatusar

Molar
Share

Svo ber til um þessar mundir á Íslandi að veikum börnum fátæks fólks er vísað úr landi. En þess ber að geta að börnin eru útlendingar. Útlendingastofnun hafnaði beiðni um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Í lögum um útlendinga segir í grein 12f að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess. Heilbrigðisástæður falla undir það skv. lagagreininni og sérstaklega ef börn eiga í hlut. Segir þá að hafa skuli það að leiðarljósi sem barni er fyrir bestu.

Til viðbótar er barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna orðinn að sérstökum lögum á Íslandi. Í 22. grein samningsins er mælt fyrir um að stjórnvöld tryggi barni sem leitað hefur eftir aðstoð sem flóttamaður viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð og í 24. grein viðurkenna stjórnvöld skyldu sína til þess að tryggja barni bestu aðstöðu til læknisþjónustu. Aðstæður þarf að meta og Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, gerði það og sagði svo nei, ég get ekki annað. Líklega ná þessi lög ekki til Albana. Undanfarin tvö ár hafa fjölmargir Albanar sótt um hæli en enginn fengið.

Ráðherra Ólöf Nordal fer með yfirstjórn mála samkvæmt útlendingalögum. Hún getur sett nánari reglur um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér á landi, þar á meðal um frekari skilyrði fyrir dvalar- og búsetuleyfi. Eftir þessum reglum vinnur kærunefnd úrskurðarmála. Þangað geta hælisleitendur skotið máli sínu ef Útlendingastofnun synjar erindi þeirra. Ráðherra ræður því hverjir sitja í úrskurðarnefndinni. Ráðherra ræður líka miklu um þær forsendur og reglur sem nefndin hefur í sínu starfi.

Innanríkisráðherra Ólöf Nordal sagði, með sting í hjarta, um mál albönsku barnanna og fjölskyldna þeirra: Ég hef ekkert vald í málinu.

Pílatus þvoði hendur sínar líka.
„Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: „Sýkn er ég af blóði þessa manns!“

greinin birtist 17.12. í Fréttablaðinu.

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir