Ótraust undirstaða skekur Vestfirði

Pistlar
Share

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands dregur fram helstu veikleikana í byggð á Vestfjörðum. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir orðrétt: „Helst virðist vera ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum.“ Það er síst ofmælt og seint verða skýrsluhöfundar sakaðir um að viðhafa stóryrði. Staðan á Vestfjörðum er grafalvarleg og einsdæmi á Íslandi. Það sem gerir stöðuna enn alvarlegri er skeytingarleysi ráðamanna þjóðarinnar og svefngengilsháttur pólitískra leiðtoga Vestfirðinga hvort sem er á alþingi eða í sveitarstjórnum.

Hagfræðistofnun greinir framleiðslu þjóðarbúsins eftir landshlutum. Fram kemur að eftir hrun hefur hlutur höfuðborgarsvæðinsins aukist og er í árslok 2013 orðinn 71% af landsframleiðslu. Það er það mesta sem mælst hefur frá því farið var taka saman tölur um hagvöxt eftir landshlutum. Hlutur höfuðborgarsvæðisins í fjármála- og tryggingarþjónustu er 83% og í helstu vaxtagreinunum verslun, hótel, veitingar og samgöngur er 80% af allri framleiðslunni á þar. Starfsemi byggingastarfsemi, iðnaður og opinber þjónusta er þar 68-70%. Meira að segja 50% allrar stóriðju er þar.

Þegar skoðuð er þróunin frá aldamótum verður myndin enn skýrari. Hagvöxturinn á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið um 50% en aðeins 30% á landsbyggðinni , þegar hún er tekin saman.

Stóriðjan er í héraði

Tveir landshlutar standa upp úr á landsbyggðinni. Það eru Vesturland og Austurland. Hagvöxturinn hefur aukist um 60-70% á þessum svæðum. Ástæðan er einföld, uppbygging stóriðju er meginskýringin. Þar er verið að vísa til Virkjanaframkvæmda og álvers á Austurlandi og uppbyggingu stóriðju í Hvalfirði. Athyglisvert er að hagvöxtur hefur líka aukist um 35% á Suðurlandi og víst er að virkjanaframkvæmdir eiga þar drjúgan hlut að máli.

Styrkur höfuðborgarsvæðisins kemur vel fram þegar skoðaðar eru kennitölur um efnahagsstarfsemi frá 2009. Hagvöxtur jókst um 5%, íbúum fjölgaði um 3% og launasumman hækkaði meira þar en annars staðar. Starfandi fólki á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 18% frá árinu 2000 til 2013. Framleiðsla á mann er meiri á höfuðborgarasvæðinu en annars staðar. Þar er hún 3,5 milljónir króna á mann og er 40% hærri en utan höfuðborgarsvæðisins árið 2013. Einn besti mælikvarði á efnahag einstaklinga og kaupgetu er verð á fasteignum. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu var árið 2013 50% – 200% hærra en í öðrum landshlutum.

Veikleiki landsbyggðarinnar sést vel í sömu kennitölum. Hagvöxtur á landsbyggðinn frá 2009-2013 var enginn, íbúum fækkaði um 1%. Frá 2000 fjölgaði starfandi á landsbyggðinni aðeins um 2%. Framleiðsla á mann er 2,5 milljónir króna eða 1 milljón króna lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignaverð á landsbyggðinni er 64% af verði á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er best en 31% þar sem það er lægst.

Vestfjörðum blæðir út

Fyrir Vestfirði eru kennitölurnar enn verri. Hagvöxtur minnkaði um 11% frá 2009 til 2013. Íbúum fækkaði um 6%. Launasumman á Vestfjörðum lækkaði um 10% frá 2009 miðað við breytingar launa á landinu öllu. Framleiðslan á mann var aðeins 2,2 milljónir króna á Vestfjörðum árið 2013 og er hvergi lægra á landinu. Framleiðslan á mann á Vestfjörðum er aðeins 70% af landsmeðaltali. Fasteignaverðið er það lægsta á landinu.

Aðrar upplýsingar í skýrslunni bæta ekki myndina fyrir þróunina á Vestfjörðum. Bent er á að laun í sjávarútvegi séu um 50% allrar launasummu á Vestfjörðum. Frá 2009 hefur hlutur Vestfirðinga í sjávarútvegsframleiðslu landsmanna minnkað úr 8% í 6%. Það er fjórðungssamdráttur á aðeins fjórum árum. Afkoman í sjávarútvegi virðist skýrsluhöfundum hafa verið lakari árin 2012 og 2013 en í öðrum landshlutum. Sagt er fullum fetum í skýrslunni að samdráttur í sjávarútvegi virðist vera megniskýringin á falli framleiðslu á Vestfjörðum undanfarin ár, en að auki hefur fjármálaþjónusta og skyldar greinar dregist mikið saman. Skýringin sem gefin er á samdrættinum í sjávarútvegi er fjarlægð Vestfjarða frá útflutningshöfnum, Keflavíkurflugvelli og mörkuðum. Sjávarútvegur er stóriðja okkar Vestfirðinga.

Af 7000 íbúum Vestfjarða búa 5000 á norðanverðum Vestfjörðum. Það fækkar jafnt á þessu svæði sem öðrum. Samgöngur og aðrir innviðir, svo sem fjarskipti og orkuöryggi eru einfaldlega ekki fullnægjandi og Vestfirðir líða fyrir forneskjuna. Þarna liggja úrræðin ljós fyrir stjórnvöld, breytingar á sjávarútvegskerfinu og bættir innviðir í fjórðungnum.

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 10.des 2015

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir