Uppskorið eins og sáð var til

Pistlar
Share

Flóttamannavandinn á síðasta ári varð Evrópubúum þyngri í skauti en áður. Styrjaldarátökin í Miðausturlöndum eru meginástæðan fyrir því að milljónir manna, kvenna og barna hafa hrakist frá heimilum sínum og frá ættjörð sinni. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna höfðu fleiri neyðst til þess að flýja heimili sín á síðasta ár en nokkru sinni frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Stærstur hluti þeirra dvelja áfram innan landamæra sinna heimalands. En um 20 milljónir manna hefur flúið land eru skilgreindir sem flóttamenn og 2 milljónir að auki eru hælisleitendur.

Síðustu þrjátíu ár hafa flestir flóttamenn komið frá Afganistan en á síðasta ári urðu straumhvörf í Sýrlandi og er talið að um 4 milljónir Sýrlendinga hafi hrakist úr landi. Helmingur þeirra dvelst í flóttamannabúðum í Líbanon og Jórdaníu og nærri jafnmargir eru taldir vera í Tyrklandi. Aðstæður flóttafólksins eru ömurlegar og urðu þess valdandi að flóttamenn tóku að streyma til Evrópu. Á síðasta ári er talið að um 1 milljón flóttamanna hafi komið þangað.

Vanhugsuð hernaðarafskipti

Tæpur helmingur flóttamannanna sem komu til Evrópu eru Sýrlendingar eða um ½ milljón manna. Um 21% þeirra eru frá Afganistan og 8% frá Írak. Í öllum þessum löndum hafa verið viðvarandi stríðsátök þar sem einstök Vesturlönd hafa átt beinan þátt í. Það vekur athygli að fjölmennir hópar koma frá Albaníu og Kósóvó. Fyrir tveimur áratugum hóf NATÓ hernaðaraðgerðir gegn Serbíu m.a. vegna átaka í Kósóvó og þótt stríðsátökum sé þar að formi til löngu lokið virðist sem ástandið á þessu svæði sé þannig að enn flýi fólk unnvörpum ömurlegar aðstæður. Evrópuríkin og Bandaríkin hafa vanrækt að huga að því að bæta efnahagslegar aðstæður íbúanna í Albaníu og Kósóvó að afloknum stríðsátökum.

Það voru fyrst Sovétríkin um 1980 og síðar Bandaríkin árið 2001 sem réðust á Afganistan og bera mikla ábyrgð á upplausninni í landinu síðustu 30 árin. Það var bandalag hinna viljugu þjóða með Bandaríkin og ýmis Evrópuríki í fararbroddi, með stuðningi Íslands, sem réðust á Írak árið 2003. Það voru sömu aðilar sem steyptu Gaddafi af stóli í Lýbíu. Ýmis vestræn ríki hafa staðið fyrir loftárásum í Sýrlandi. Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi er skilgetið afkvæmi afskipa þessara aðila og hryðjuverk þeirra beinast að Evrópuríkjum. Vanhugsuð hernaðarafskipti hafa vakið upp ástand sem Evrópuríkin súpa nú seiðið af. Þau uppskera eins og sáð var til. Evrópuríkin geta ekki neitað að liðsinna fólkinu sem þjáist vegna gerða þeirra.

200 moskur

Það væri vert að fá skýringar á því hvers vegna allur þunginn af flóttamannastraumnum frá ríkjunum í Miðausturlöndum sniðgengur hina auðugu nágranna við Persaflóann og á Arabíuskaganum. Það stingur í augu að Saudi Arabar hafa boðist til þess að fjármagna byggingu 200 moska í Þýskalandi fyrir múslimska flóttamenn sem þangað leituðu á síðasta ári en engar fréttir eru um að þeir hafi boðist til þess að taka þátt í kostnaði Evrópuríkja við móttöku flóttamannanna. Samt eru þessi ríki helstu bandalagslönd Vesturlanda.

Leysanlegt verkefni

Þrátt fyrir hinn mikla flóttamannastraum til Evrópu er vandinn leysanlegur með góðum vilja. Árangursríkast er að bæta kjör flóttamanna sem næst heimkynnum þeirra og gera þeim kleift að dvelja þar meðan unnið er að friði í Miðausturlöndum. Það mun reynast vandaverk og taka mörg ár. Evrópuríkin munu verða að taka við miklum fjölda flóttafólks til langdvalar. Í ríkjum Evrópusambandsins búa 33 milljónir manna sem eru fæddir utan ríkjanna. Það er aðeins um 7% af íbúafjölda landanna. Hlutfallið verður enn lægra ef litið er til allrar Evrópu eða um 4%. Í Bandaríkjunum eru 13% íbúanna fæddir utan Bandaríkjanna. Í Kanada er hlutfallið 20% og 27% í Ástralíu. Það verður engin vá fyrir dyrum þótt tugir milljóna flytjist til Evrópu á næstu áratugum.

Það má taka undir orð sr. Davíðs Þórs Jónssonar sem segir í nýárspredikun að við höfum brugðist flóttafólkinu. Því skulum við breyta.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir