Vald, peningar, spilling

Pistlar
Share

Óvenjulegir tímar eru í þjóðfélaginu. Rúmum sjö árum eftir gjaldþrot íslenska fjármálakerfisins er fjarri því komið á jafnvægi og sæmileg sátt um stóru málin. Það sést best á mælingum á fylgi stjórnmálaflokkanna. Gamlir og grónir flokkar eða arftaka þeirra eiga allir í miklum vandræðum og njóta lítils fylgis en nýr flokkur eykur stöðugt fylgi sitt og nálgast nú 40% fylgi. Vissulega eru þetta enn sem komið er aðeins kannanir, en það fer ekki á milli mála að kjósendur eru afar óánægðir með núverandi og síðustu stjórnarflokka og eru að setja fram ákveðnari kröfu en áður um breytingar.

Í rúmt ár hefur þessi þróun verið og með hverjum mánuðinum sem líður verður krafan um breytingar skýrari að því leyti að hefðbundnu stjórnmálahreyfingarnar fá samanlagt æ minna fylgi og óhefðbundni flokkurinn fær meira fylgi. Nú er svo komið að Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að fá minna en 20% og Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir eru hver um sig um það bil 10% flokkur. Þessi staða á sér engin fordæmi í 100 ára sögu íslenska flokkakerfisins. Fylgið við nýja flokkinn, Pírata , er að einhverju leyti byggt á frammistöðu þingmanna hans og því að flokkurinn svarar að einhverju leyti kröfum um breyttar málefnaáherslur og starfshætti. En líklega er samt stærsta skýringin á fylgi þeirra , enn sem komið er, megn óánægja með „gömlu“ flokkana. Meðan þeir skynja ekki kröfur kjósenda og gera ekki trúverðugar breytingar á stefnu sinni og forystusveit munu allar líkur benda til stórfelldrar fylgissveiflu í næstu Alþingiskosningum í takt við skoðanakannanirnar.

Heilbrigð opin stjórnmál

Listin er að lesa rétt í kröfur kjósenda og bregðast við þeim. Lykilhugtakið í þjóðfélagsmálum er vald. Mikil óánægja almennings með flokkana sem hafa haft valdið í sínum höndum eftir bankahrunið bendir til þess að gagnrýnin beinist að verulegu leyti að meðferð valdsins, hvernig valdhafarnir hafa beitt því og í þágu hverra. Peningar eru ætíð nálægir þar sem vald. Af þeim sökum hafa verið settar reglur sem eiga að takmarka möguleika á því að misnota valdið og hygla útvöldum , stundum á kostnað almennings. Í lögum eru ítarleg ákvæði um hæfi og vanhæfi þeirra sem hafa með opinbert vald og eins eru nokkur lagaákvæði sem varða viðskiptalífið. Meginlínan er að stjórnvaldsákvarðanir séu teknar fyrir opnum tjöldum , málefnalegar og hlutlausar. Þá á ráðstöfun verðmætra réttinda og verkefna að vera samkvæmt reglum um jafnræði og jafna möguleika.

Þegar út af er brugðið og ákvarðanir teknar bak við luktar dyr og handvöldum aðilum færðir gróðamöguleikar á silfurfati , jafnvel af þeim sem beinna hagsmuna eiga að gæta verður útkomin spilling. Spilling er oftast afleiðing af misbeitingu valds. Spilling er líka á kostnað almennings. Flokkarnir sem eiga í erfiðleikum gagnvart kjósendum um þessar mundir gjalda því fyrir aðild að eða ábyrgð á misbeitingu valdsins. Þar liggur hundurinn grafinn. Einstakir hagsmunir virðast eiga svo sterk ítök í þessum stjórnmálaflokkum að þegar þeir eru við völd ráða hagsmunaaðilarnir mikilvægum ákvörðunum, jafnvel þótt þær gangi þvert gegn grundvallaratriðum í stefnu flokkanna. Fyrir vikið missa stjórmálaflokkarnir trúverðugleika sinn, þeim er ekki lengur treystandi fyrir valdinu.

Misnotkun valds

Það er enginn skortur á málum undanfarin ár sem hafa varpað spillingarskugga á stjórnmálaflokkana. Síðustu dæmin eru ein og sér nóg að nefna til þess að skilja gremju almennings.

Á síðasta ári seldi Arionbanki hlut í Símanum. Áður en almennt útboð hófst var völdum hópi valinna einstaklinga færður hlutur á lágu verði. Gróðinn er talinn vera um 400 milljónir króna af þeim hlutabréfum sem nú er heimilt að selja. Ávinningurinn verður enn meiri ef gengi bréfanna lækkar ekki þegar kaupendurnir geta innleyst önnur hlutabréf síðar. Það var engin ástæða til þess að viðhafa þessa aðferð. Það voru ekki hagsmunir Arionbanka að selja hluta af hlutabréfunum á lægra verði en fæst á almennum hlutabréfamarkaði. Þessi ráðstöfun var einfaldlega klíkuskapur. Nokkrir gróðapungar fengu gefins peninga með þessum hætti. Þetta er ekkert annað en spilling í skjóli leyndar.

Það er hlutverk stjórnmálamanna að setja reglur á þessu sviði sem öðru og sjá til þess að viðskipti verði opin og gegnsæ og að allir eigi sömu tækifæri. Stjórnmálamennirnir brugðust hlutverki sínu. Þeir brugðust almenningi en þjónuðu sérhagsmunum.

Annað dæmi af sama toga er sala Landsbankans á hlut bankans í Borgun. Bankinn seldi á sama tíma hlut í öðru greiðslukortafyrirtæki Valitor og gætti þess þá að áskilja sér verðaukningu sem kynna að verða eftir söluna. En þessi áskilnaður var ekki gerður þegar Borgun var seld. Fyrir vikið tapar Landsbankinn og þar með ríkið af háum fjárhæðum. Talið er að verðmætisaukningin á hlutnum geti numið á annan tug milljarða króna. Svo kemur óvænt í ljós á einn af þeim sem fær þessa peninga gefins á silfurfati er föðurbróðir fjármálaráðherra, manns sem fer með þessi málefni og á öðrum fremur að gæta hagsmuna almennings. Þessi sami fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll hefur allt síðasta ár sagt að ekki séu til meiri peningar í heilbrigðiskerfið. Þarna reynir á öll atriðin, vald, peninga og spillingu með skýrri niðurstöðu.

gerinin birtist fyrst í blaðinu Bæjarins besta
Kristinn H. Gunnarsson
MA í stjórnmálaheimspeki

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir