Píratar á rétti leið

Molar
Share

Píratar hafa nýlega samþykkt megindrætti í sjávarútvegsstefnu sinni. Útfærslan verður svo væntanlega byggð ofan á undirstöðunni. Að mörgu leyti er það skynsamlegt að ákvarða almennu meginatriðin fyrst og fá umræðu um forsendur þeirra og síðan fara í útfærsluna.

Oft er mögulegt að ná tilteknum markmiðum eftir mismunandi brautum og því geta útfærslur orðið ólíkar innbyrðis. Um einstök atriði í mismunandi leiðum hafa oftast orðið hvað harðastar deilur sem svo aftur hafa stöðvað framgang grundvallarbreytinga. Hins vegar þurfa Píratar líkt og önnur stjórnmálaöfl að svara því hvernig þeirra stefnu hefur áhrif á einstök byggðarlög, einstaka útgerðarhópa, o.s.frv. Þess vegna verður útfærslan að liggja nánar fyrir en nú er, fyrir næstu Alþingiskosningar, þótt ekki sé endilega nauðsynlegt að ákvarða allt út í hörgul.

Almennu grundvallaratriðin í stefnu Pírata eru nokkuð skýr: Sjávarútvegur er skilgreindur sem atvinnugrein sem stunduð er í markaðsþjóðfélagi og byggð á verðmætum aðföngum og réttindum sem eru markaðsvara. Sjávarútvegurinn er felldur undir samkeppnislöggjöf og eftirlit Samkeppnisstofnunar. Það er grundvallarbreyting frá því sem nú er. Af þessu leiðir að lagt er til að jafnræði ríki milli þeirra sem starfa og keppa í sjávarútvegi. Til þess að koma því á taka Píratar upp reglur sem notaðar eru í öðrum samkeppnisatvinnugreinum um jafnræði milli samkeppniaðila. Aðgangur að veiðiheimildum og sjálfum fiskinum eru aðalatriðin og því er eðlilegt að leggja til uppboð bæði á veiðiheimildum og aflanum sjálfum. Með því næst skýr og eðlileg verðmyndum og jafnræði innan greinarinnar.

Tillagan í stjórnarskrárfrumvarpi Stjórnlagaráðs um fullt gjald fyrir afnot og hóflegan afnotatíma er tekin upp til þess að afmarka meginforsendur stefnunnar um samkeppni sem útfærslan þarf að taka mið af.

Vandséð er hvernig hægt er að komast að annarri niðurstöðu um svo markaðsdrifna og arðbæra atvinnugrein sem sjávarútvegurinn er. Tiltölulega fáir einstaklingra ráða um 3/4 af umsvifum í sjávarútvegi í dag en þrátt fyrir það reka þeir umsvifamikil viðskipti með veiðiheimildir. Á síðasta fiskveiðiári voru seld um 14% af aflahlutdeildunum (svokölluðum varanlegum veiðiheimildum). Það jafngildir því að allar veiðiheimildir skipti um hendur á hverjum 7 ára tímabili. Um 80.000 tonn af þorski voru flutt á milli skipa og þar af um 38.000 tonn leigð milli óskyldra aðila. Þetta eru gríðarleg viðskipti fyrir tugi milljarða króna á hverju ári sé litið á allar aflaheimildir.

Um þessi markaðsviðskipti þurfa að gilda skýrar reglur sem tryggja jafnræði þeirra sem vilja kaupa eða leigja; tryggja að verðmyndunin sé eðlileg miðað við tekjur af starfseminni; tryggja að hæfustu aðilarnir hverju sinni séu í greininni og færa ríkinu sem mestar tekjur af auðindinni. Samkeppnin hefur þann tilgang er talin almennt gefa þjóðfélaginu í heild mestan ávinning af atvinnustarfseminni.

Á yfirstandandi fiskveiðiári eru handhafar kvótans að greiða 13,30 kr fyrir hvert kg af þorski. Meðalverð af 1 kg af þorskkvóta er síðustu 12 mánuði 233 kr. Þetta þýðir að ríkið fær aðeins 6% af markaðsverði veiðiheimilda í þorski til sín en 94% er einkavætt.

Um verðmyndun á fiski gilda sömu rök og um aflaheimildirnar og þess vegna verður uppboðsmarkaður eðlileg tillaga til þess tryggja réttmætan hlut sjómanna. Benda má á að núverandi fyrirkomulag gefur útgerðarmanni ( sem er líka fiskverkandi) alla möguleika til þess að lækka laun sjómanna og taka hagnaðinn til sín í gegnum fiskverðið. Skýrasta dæmið um þetta má finna í Bolungavík þar sem fiskverð hefur verið lækkað og hefur lækkað laun sjómanna um 30%.

Önnur atriði í tillögum Pírata eru líka til bóta eins og að draga rannsóknarstofnunina Hafrannsóknarstofnun undan beinu áhrifavaldi útgerðamanna og að stefna að handfærakerfi utan við aflamarkaðskerfið.

Almennt má segja um stefnuna að hún er til verulegra bóta frá því einokunarfyrirkomulagi sem nú ríkir og vonandi ber Pírötum gæfa til þess að koma sér saman um útfærslu sem víkur ekki frá þeim grunni sem lagður hefur verið. Hingað til hefur Pírötum tekist vel til við stefnumótunina.

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir