Klækjastjórnmál og bragðarefir

Pistlar
Share

Hinar eilífu deilur um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni einkennast af klækjastjórnmálum sem landsmenn eru orðnir svo þreyttir á. Hver bragðarefurinn á fætur öðrum mælir flátt og fram streyma stríðum straumum merkingarlausir orðalepparnir um sátt, hagkvæmni og samráð. Undan fögru yfirskininu kemur alltaf sama flærðin þegar að er gáð. Niðurstaðan er gefin fyrirfram en umbúðirnar eru breytilegar frá einni nefndinni til annarrar.

Nýjasta klækjabragðið var skipan Rögnunefndarinnar svokölluðu. Flugvallarandstæðingarnir Jón Gnarr, Dagur B. Eggertsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir gerðu fyrir hönd ríkisins og borgarinnar samkomulag um að láta nefnd gera sérstaka staðarvalsúttekt fyrir flugvöll. Þar mátti ekki gera ráð fyrir áframhaldandi veru í Vatnsmýrinni. Mistökin frá 2007 skyldu ekki endurtekin. Þá skilaði af sér nefnd undir forystu Hellga Hallgrímsson, fyrrv. vegamálastjóra yfirliti yfir mögulega kosti fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu og bar þá saman við Vatnsmýrina. Auðvitað varð niðurstaðan sú að núverandi staðsetning er sú besta og ódýrasta.

Til þess að ekkert færi úrskeiðis sat borgarstjórinn sjálfur í nefndinni. Nefndin vann sitt verk og fann upp nýtt flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu, Hvassahraun. Allar fréttir af tillögum nefndarinnar hljóma svo á þann hátt að Hvassahraun sé besti kosturinn. En af því að nefndin mátti ekki bera saman kostina við Vatnsmýrina vantar það augljósa, að Vatnsmýrinn er áfram besti kosturinn og sá ódýrasti.

81% vilja Vatnsmýrina

Staðsetning flugvallarins hefur lengi borið hátt í þjóðfélagsumræðunni. Allt frá sérstakri atkvæðagreiðslu meðal Reykvíkinga árið 2001 hefur málið fengið mikla umfjöllun, margra nefndir starfað og dregið saman yfirgripsmikið efni. Landsmenn hafa fengið góða kynningu á valkostum og kostnaði við hinar ýmsu hugmyndir. Niðurstaðan er öll á eina lund. Engin áform um flutning vallarins hafa fengið byr, hvorki meðal Reykvíkinga né annarra landsmanna.

Kosningin árið 2001 varð ómarktæk samkvæmt því sem fyrirfram var ákveðið. Borgarstjórn setti sér þá samþykkt að niðurstaðan yrði bindandi, ef annars vegar a.m.k. 75% atkvæðisbærra manna tæki þátt og þá myndi gilda vilji þeirra sem fleiri væru eða hins vegar ef þátttakan yrði minni en 75% gæti niðurstaðan engu að síður orðið bindandi ef meira en 50% af atkvæðisbærum myndi greiða öðrum hvorum kostinum atkvæði sitt. Það jafngildir a.m.k. 2/3 af þeim sem mættu og kusu myndi styðja annan hvorn kostinn. Þessi skilyrði voru að mörgu leyti eðlileg og til þess að fallin að tryggja að bindandi niðurstaða myndi byggjast á almennum stuðningi.

Þátttakan í þessari sögulegu atkvæðisgreiðslu varð aðeins 37%. Það er fjarri því að vera bindandi niðurstaða. Það sem einnig er athyglisvert að fylkingarnar voru nánast jafnstórar 14.913 vildu völlinn burt en 14.529 ekki. Svo vilji þáverandi borgaryfirvalda var langt frá því að fá nægilegan stuðning.

Síðan hafa allar skoðanakannanir sýnt stöðugan yfirgnæfandi vilja bæði borgarbúa og landsmanna allra fyrir því að hafa völlinn áfram í Vatnsmýrinni. Sú síðasta er frá 2014 og samkvæmt henni vilja 81% landsmanna hafa völlinn í Vatnsmýrinni og 71% Reykvíkinga eru sama sinnis.
Sjötíu þúsund skrifuðu árið 2013 undir mótmæli við áformum um að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni. Þar af voru 20.000 undirskriftir Reykvíkinga. Þetta er fjölmennasta undirskriftasöfnunin til þessa.

Rökin eru ekki nógu góð

Skýringin á afstöðu almennings er einföld. Rök þeirra sem vilja flytja flugvöllinn eru ekki nógu góð. Það er of augljóst að einn aðili, Reykjavíkurborg, ætlar að hagnast um háar fjárhæðir með því að selja byggingarrétt í Vatnsmýrinni, að annar aðili, ríkið, á að borga kostnaðinn og byggja nýjan flugvöll með viðeigandi byggingum og loks að þriðji aðilinn, notendur flugsins – einkum landsbyggðarfólk á að taka á sig skerta þjónustu og minna öryggi.

Svona vinna bragðarefir og sýna færni sína í klækjastjórnmálum. Jón Gnarr, Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og fleiri af sama sauðahúsi gera ekkert með almennan vilja landsmanna og sérstaklega gefa þeir almennum vilja kjósenda í Reykjavík langt nef. Það væri hægt að bera málið undir kjósendur, en það vilja klækjarefirnir ekki. Meira og minna endilöng borgarstjórn Reykjavíkur er gegnsýrð af klækjastjórnmálum og lætur sem hún heyri ekki þungan nið almannavilja sem vill fá að ákvarða með almennri atkvæðagreiðslu niðurstöðu í mikilsverðum málum. Skollaeyrun er enn stærstu eyru stjórnmálamannanna.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir