Ofbeldi valdsins er þjóðfélagsmein

Molar
Share

Undanfarið hefur mátt sjá og heyra athyglisverða auglýsingar í
fjölmiðlum landsins þar sem vakin er athygli á einelti sem börn
verða fyrir. Auglýsingarnar eru að mörgu leyti ágengar og knýja
áhorfandann til þess að íhuga ástæður eineltisins. Skilaboðin eru ákaflega
skýr – einelti er ofbeldi sem gerendur beita í skjóli félagslegrar stöðu
sinnar. Eineltið byggist á því að aðrir spili með gerendunum annað hvort
með með beinni þátttöku eða því að sitja hjá og horfa til hliðar í stað þess
að grípa inn í eineltið og koma þolandanum til varnar. Einelti er ofbeldi
í skjóli valds og er svo sannarlega þjóðfélagsmein sem þörf er á að berjast
gegn með oddi og egg.

Orð borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar eiga vel við og minna á að
hver og einn getur og reyndar á að láta málið til sín taka:

Á meðan til er böl sem bætt þú gast,
og barist var á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að
kenna.

Einelti getur enginn leitt hjá sér og hver sem það gerir má vita að ólán
einstaklingsins sem fyrir eineltinu verður er einnig þeim að kenna sem
hjá sat.

Ofbeldi fullorðinna

Eineltið sem viðgengst í heimi barnanna verður ekki til í tómarúmi. Það á
sér fyrirmynd í veruleika fullorðinna. Það læra börnin sem fyrir þeim er
haft. Í heimi fullorðinna viðgengst skefjalaust ofbeldi og börnin sjá það
hvernig hver maðurinn á fætur öðrum spilar með gerandanum og veitir
honum styrk til þess að misbeita valdi sínu. Meðvirknin er oft víðtæk og
spillandi. Þar sitja hjá þeir sem bætt gátu ef þeir hefðu þorað.
Nýjasta dæmið um alvarlegt ofbeldi í skjóli valdsins eru ófyrirleitnar
árásir forstjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja á Má Guðmundsson
Seðlabakastjóra. Forstjórinn hefur ítrekað veist að Seðlabankastjóranum
á opinberum vettvangi og sakað hann um persónulega óvild í garð fyrirtækisins.
Það er ekki í fyrsta sinn sem þessi forstjóri persónugerir mál og
fer í manninn en ekki málefnið.

Seðlabankastjórinn er aðeins að framfylgja lögum og gera það sem honum
ber. Í því felast engin persónuleg sjónarmið. Forstjórinn Þorsteinn Már
Baldvinsson hefur engann skilning á því og krefst þess Seðlabankastjórinn
hagi gjörðum sínum að sínum geðþótta. Þegar svo fer að vegna mistaka í
viðkomandi ráðuneyti að kæra Seðlabankans er látin niður falla er Seðlabankastjórinn
Már Guðmundsson sakaður um persónulegan illvilja , eins
og forstjórinn tók til orða.

Steininn tók úr í viðtali á sjónvarpsstöðinni N4 þar sem forstjórinn jós yfir
Seðlabankastjórann skömmum og meðvirkur þáttastjórnandinn gerði sitt
besta til þess að koma sér í mjúkinn hjá forstjóranum valdamikla í samfélagi
þeirra beggja. Forstjórinn klykkti út með því að segja að þeir sem
hétu Már væru allir flottir menn nema einn og hann væri undantekningin
sem sannaði regluna.

Það er ekkert hlutleysi til

Þegar svona gerist eiga menn ekki að sitja hjá heldur að leggja sitt af mörkum
til þess að bægja frá bölinu sem fylgir þessu ofbeldi sem iðkað er í skjóli
valdsins. Þáttastjórandinn brást og varð deigur liðmaður eineltisins.
Vestfirðingar þekkja líka sams konar ofbeldi sem beitt var gegn ungum
manni. Honum var refsað með því að fá ekki starf sem hann hafði fengið
loforð um. Sakirnar voru meint viðhorf einstaklings tengdum manninum
unga til þeirrar hegðunar framkvæmdastjóra Jakobs Valgeir ehf að leggja bíl
sínum ítrekað í stæði fatlaðra. Þessi hegðun framkvæmdastjórans er ekkert
annað er gróft ofbeldi sem byggt er á valdi og þjóðfélagslegri stöðu gegn
einstaklingi sem stendur höllum fæti í samanburði við framkvæmdastjórann.

Um bæði þessi mál gildir það sama og um eineltið að það er skylda hvers
manns að láta málið sig varða og standa uppréttur gegn ofbeldinu sem
sýnt. Því miður eru of margir sem velja þá leið að horfa til hliðar og sitja
hjá eða jafnvel ganga enn lengra og gerast hrópendur með gerandanum í
þeirri von að njóta góðs af.

En á meðan það viðgengst er það eins og skáldið segir – er ólán heimsins
einnig þér að kenna.

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir