Því hefur verið haldið fram síðustu ár, að greiðslur af lánum myndu lækka stórlega bara ef verðtryggingin yrði afnumin og eingöngu stuðst við óverðtryggða vexti. Eftir verðbólguna sem varð 2008 með tilheyrandi hækkun skulda hefur verðtryggingin verið stóra málið. Fjölmargir hafa lagt trúnað á þessar fullyrðingar og hafa staðið í þeirri trú að að afnám verðtryggingarinnar væri það sama og umtalsverð kjarabót.
Formaður Framsóknarflokksins og núverandi forsætisráðherra hélt því fram og skrifaði á heimasíðu sína þann 15. mars í fyrra að afnámið væri einfalt:
"Afnámið verður að framkvæma þannig að fólk með verðtryggð lán geti skipt yfir í óverðtryggð, lántakendum bjóðist stöðugir vextir, áhætta skiptist milli lánveitenda og lántaka þannig að áættunni sé skipt eðlilega".
Nú hefur sérstök nefnd ráðherrans skilað áliti og komist að því að afnámið er ekki einfalt og raunar ekki framkvæmanlegt. Það er ekki lagt til að fólk geti skipt verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð, heldur þvert á móti eru allir nefndarmenn sammála því að afnám verðtryggingar muni hækka greiðslubyrði lántakenda og takmarka aðgang þeirra að lánsfé. Meirihlutinn leggur því til að verðtryggingin verði áfram og vill að ríkið grípi til sérstakra mótvægisaðgerða til þess að vinna á móti skaðlegum áhrifum þeirra takmörkuðu breytinga sem lagðar eru til. Það var sem sé ekki rétt að verðtryggingin væri höfuðvandmálið.
En þetta eru ekki ný sannindi. Athugun á vaxtakjörum verðtryggðra og óverðtryggðra lána hefur leitt í ljós að litlu munar og að óverðtryggðu vextirnir eru þó ívíð hærri. Benda má á skýrslur Seðlabanka Íslands. Askar Capital telur í skýrslu frá 2010, sem unnin var fyrir Efnahagsráðuneytið, að ætla megi að vaxtastig yrði hærra ef verðtryggingar nytu ekki við. Agnar Jón Ágústsson, hag- og viðskiptafræðingur bar saman greiðslubyrði af verðtryggðu og óverðtryggðu láni frá 2006 til 2013 og birti niðurstöður sínar í Fréttablaðinu 8. mars 2013. Miðaði hann vexti óverðtryggða lánsins við lægstu vexti banka og sparisjóði ásamt 2% vaxtaálagi til bankans og verðtryggða lánið var miðað við raunvexti Íbúðalánsjóðs. Niðurstaða hans var sú að óverðtryggðu vextirnir hefðu orðið hærri. Í DV 15. apríl 2013 gerði Annas Sigmundsson, blaðamaður samanburð á þessum tveimur lánaformum og komst að þeirri niðurstöðu að greiðslubyrðin af óverðtryggðu láni væri nærri 30% hærri en af sams konar verðtryggðu láni. Staðreyndirnar tala sínu máli og öllum mátti vera ljóst að það væri blekkingarleikur að halda öðru fram.
Það er kaldhæðni örlaganna að blekkingin skuli vera afhjúpuð af sérstökum trúnaðarmönnum forsætisráðherra sem áttu að benda á skjótlegustu leiðina til þess að afnema verðtrygginguna. Það má segja að þeir sem lengst hafa gengið í því að afla sér pólitísks fylgis með þessu lúalagi séu nú fastir í eigin blekkingarvef.
Formaður Verkalýðsfélags Akraness þarf öðrum fremur að gefa skýringar á málflutningi sínum. Hann var einn nefndarmanna og staðfesti í sínu séráliti að afnám verðtryggingar muni hafa neikvæð áhrif á hag heimilanna og þess vegna verði ríkið að grípa til mótvægisaðgerða. Þetta er í algerri mótsögn við greinarskrif hans á Pressan.is á síðasta ári, fyrir Alþingiskosningar, þar sem hann bar saman verðtryggt og óverðtryggt lán í Landsbanka Íslands og hélt því fram að greiða þyrfti 88 mkr meira af verðtryggðu 22 mkr. láni til 40 ára en óverðtryggðu. Sagði hann að verðtryggðu kjörin væru slík rányrkja að jafnvel Mafían á Sikiley hefði ekki samvisku til þess að leggja þau á viðskiptavini sína. Nú segir Vilhjálmur Birgisson að það þurfi sérstakar aðgerðir til þess að bæta lántakendum upp afnám verðtryggingarinnar.
Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum, sem leið til þess að lækka skuldir heimilanna, er þegar upp er staðið aðeins tálsýn, fixídea sem óprúttnir stjórnmálamenn og taglhnýtingar þeirra héldu á lofti til þess að afla sér stuðnings í kosningum. Að þeim loknum kemur sannleikurinn svo í ljós. Jafnvel þótt verðtryggingin yrði bönnuð með lögum væru skuldirnar ógreiddar eftir sem áður, engu lægri, vaxtakostnaðurinn síst minni og það, sem skýrsla nefndarinnar dregur fram, flestir verr staddir.
Um vaxtakjör á lánum og þar með talið verðtrygginguna má hafa mörg orð og benda á kosti og galla. En greiðsludreifingin á verðbótum sem fylgt hefur verðtryggingunni og langur lánstími hefur þó haft þann kost að gera mörgum, einkum lágtekjufólki, kleift að kaupa sér íbúð sem annars hefðu ekki ráðið við það og hefði orðið að treysta á leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga. Er það eitthvert keppikefli að loka þeim möguleikum?
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir