Hættulegur málflutningur forsætisráðherra

Pistlar
Share

Það er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur eftir viðtal dagins á Ríkisúrvarpinu við forsætisráðherra. Í viðtalinu kom berlega í ljós að hann þolir illa að sett séu fram sjónarmið sem hann er ósammála og bregst við með því að lýsa þau andstæð almannahag og því verði þeir að þegja og hlýða sem þannig tala. Forsætisráðherra virðist trúa því að þar sem hann hafi skilgreint tiltekinn málflutning skaðlegan séu skoðanakúgunartilburðir hans séu eðlilegir. Þetta er afar hættuleg þróun enda byggist hún á einhliða mati forsætisráðherra og þeirri staðreynd að hann hefur mest völd stjórnmálamanna um þessar mundir.

Þrjú mál er rétt að rekja þessu mati mínu til stuðnings. Fyrst viðtalið á Ríkisútvarpinu í dag, þá ræðu forsætisráðherra við setningu Alþingis sl. haust og viðbrögð hans árið 2010 sem formanns Framsóknarflokksins við skoðunum Ann Siebert á Icesave málinu, en hún átti þá sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans.

Í dag veittist forsætisráðherra að gagnrýnendum landbúnaðarkerfisins. Hann hafði á nýlegu Viðskiptaþingi talað um pólitíska krossfara úr háskólasamfélaginu og var spurður nánar út í þau ummæli. Kom í ljós að hann átti m.a. við skrif prófessors að undanförnu og sagði almennt um gagnrýnina að hún væri tóm vitleysa,áróður, röng, heifúðug og án rökstuðnings.

Um landbúnaðarkerfið hafa lengi verið skiptar skoðanir, svo deilur um það eru ekkert nýtt. Það óvenjulega er að oddviti ríkisstjórnarinnar ráðist svona harkalegar að þeim sem vilja breytingar. Skrif Þórólfs Matthíassonar, prófessors komu sérstaklega til tals og um þau má segja að Þórólfur hefur sökkt sér niður í viðfangsefnin hverju sinni, skoðað opinber gögn, vísað til þeirra í gagnrýni sinni og gert grein fyrir rökstuðningi sínum. Hann verður ekki vændur um vitleysu,heift né að setja fram sitt mál án rökstuðings. Það var forsætisráðherrann sjálfur sem færði engin rök fyrir stóryrðum sínum. Það er ekkert að því að forsætisráðherra deili við menn um landbúnaðarmál, en það verður að vera rökræða byggð á virðingu fyrir skoðunum annarra. Því var ekki til að dreifa í viðtalinu í dag. Það versta var hin augljósa andúð á gagnrýninni og skortur á umburðarlyndi gagnvart henni. Þetta er eiginlega alvarlegur brestur á skilningi á mikilvægri undirstöðu lýðræðisins.

Atlaga forsætisráðherra að sjálfstæði Seðlabankans var ekki síður alvarleg og lítt dulin krafa hans um hlýðni bankans við vilja ráðherrans. Ráðherrann sagði beinlínis að bankanum væri kunnugt um að hann væri ósammála bankanum í ákveðnum málum , en samt sæti bankinn við sinn keip og klykkti út með því að segja að æskilegt væri að Seðlabankinn myndi gera meira af því að endurmeta stefnu sína. Skýrar getur forsætisráðherra ekki talað. Krafa hans er að bankinn sveigi sig að vilja forsætisráðherrans. Sjálfstæði bankans væri hins vegar mikilvægt ,sagði ráðherrann, enda gæti til dæmis verið öðruvísi ríkisstjórn en nú situr.

Þarna kemur aftur sama einkennið og áður. Forsætisráðherra lítur greinilega svo á að hann hafi ávallt rétt fyrir sér og óskeikull vilji hans sé það sem allt á að miðast við. Þegar hins vegar aðrir halda um stjórnartaumana er annað upp á teningnum. Þá eiga ráðamenn Seðlabankans að vera öryggisventill, sagði forsætisráðherrann, og standa fastir á sínu til að afstýra þjóðarvoða vegna misviturra ráðherra.

Árið 2010 sat Ann Siebert í peningastefnunefnd Seðlabankans. Hún setti fram í blaðagrein skoðanir sínar á Icesave málinu. Það mislíkaði formanni Framsóknarflokksins svo að hann fór fram á það á Alþingi við þáverandi forsætisráðherra að henni yrði vikið úr nefndinni. Í málflutningi sínum sagði formaðurinn að vissulega hefði Siebert málfrelsi og mætti tjá sig, en í þessu máli væri skoðanir hennar skaðlegar þjóðarhag og því yrði hún að víkja. Við því varð ekki orðið.
Þetta eru sömu rök og forsætisráðherra beitir nú gegn gagnrýnendum í háskólasamfélaginu eða Seðlabankanum. Sjálfstæðið og skoðanafrelsið sé vissulega mikilvægt, en svo skilgreinir hann skoðanir þeirra sem hann andmælir sem hættulegar og skaðlegar hagsmunum þjóðarinnar og að því búnu eru viðkomandi sviptir réttindum sínum eða lögboðnu hlutverki. Grundvallarréttindi í lýðræðisþjóðfélagi virðast þannig vera háð mati eins manns sem úrskurðar hverju sinni eftir eigin geðþótta.

Að lokum skal minnt á ræðu forsætisráðherra við setningu Alþingis í byrjun október síðasta haust. Þar dró hann upp mynd að Íslandi sem fyrirmyndarlandi, sem þjóðin gæti búið sér, einni þjóð með sameiginlegt gildismat, sem að sjálfsögðu var hans gildismat. Það sem gæti spillt þessari björtu framtíðarsýn voru þeir sem ekki hafa trú á framtíð landsins, ala á sundrungu og aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði. Þarna var augljós krafan um hið sameiginlega gildismat og að ganga í takt við það og það glittir í sama stefið og áður hefur verið bent á, að útmála andstæðinga sem hættulega almannahag og þess vegna sé réttlætanlegt að svipta þá réttindum og beita þá kúgun.

Forsætisráðherra er á hættulegri braut og mál að þessari vegferð linni. Þeir sem bera ábyrgð á valdastöðu hans geta ekki lengur látið eins og að þróunin sé þeim óviðkomandi.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir