Íþróttafréttamaðurinn verður að hætta.

Pistlar
Share

Ummæli íþróttafréttamanns Ríkisútvarpsins í dag voru það alvarleg að hann getur ekki komið frekar að umfjöllun um Evrópumeistaramótið í handknattleik. Þá ætti að setja hann ótímabundið í leyfi frá störfum sínum við Ríkisútvarpið.

Starfsmaðurinn sagði glaðhlakkanlega í hálfleik í landsleik Íslendinga við Austurríkismenn að Íslenska landsliðið væri eins og þýskir nasistar árið 1938, þeir væru að slátra Austurríkismönnum. Vissulega hefur viðkomandi beðist afsökunar á ummælum sínum og íþróttadeildin líka. En það er með svona siðferðilega brengluð ummæli eins og gróf leikbrot í boltanum, að hinn brotlegi fær rauða spjaldið og verður að taka út refsingu. Gildir þá engu hversu einlæglega leikmaðurinn iðrast gjörða sinna. Það sama á hér við. RÚV og íþróttadeildin hafa nýlega sýnt íþróttafréttamanni rauða spjaldið fyrir mistök í starfi. Fordæmið liggur fyrir og framhjá því verður ekki litið.

Ummælin eru yfirgengileg hvernig sem á þau er litið. Í fyrsta lagi þá er verið að setja þýska nasista í jákvætt ljós. Landsmenn glöddust yfir góðu gengi okkar manna og þýskum nasistum var jafnað við þessar jákvæðu fréttir. Í öðru lagi var íslenskum handknattleiksmönnunum líkt við þýska nasista sem myrtu fólk milljónum saman. Það er varla hægt að lítilsvirða handboltamennina íslensku meira en með slíkum samjöfnuði. Í þriðja lagi þá yfirfærist sú lítilsvirðing yfir á íslensku þjóðina sem styður drengina sína af heilum hug. Í fjórða lagi eru Austurríkismenn hæddir og smáðir með ummælunum. Þeir voru fórnarlömb nasista og þvingaðir til þess síðar að verða gerendur í hryllingsverkum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hvernig getur maður með heilbrigða hugsun hlakkað yfir slíkum óförum?

Í fimmta lagi er verið að gefa Þjóðverjum utanundir með blautri tusku. Þeir hafa í þrjár kynslóðir þjáðst vegna gerða nasista og þess að þýska þjóðin á þeim tíma lét þetta gerast. Þjóðverjar eru ákaflega meðvitaðir um þetta og hafa markvisst byggt um sitt þjóðskipulag og lýðræði á þann hátt að þessi þróun geti ekki endurtekið sig. Þeir eiga mikið lof skilið fyrir einlægt uppgjör við fortíðina og einbeittan vilja til þess að koma í veg fyrir að hún endurtaki sig.

Veikleikinn var einmitt umburðarlyndi úr hófi fram við öfgakenndar skoðanir og þjónkun um ofbeldið. Almenningur vonaði alltaf að sjúklega hugarfarið væri bara tímabundið það myndi ekki koma til alvörunnar og leiddist þannig áfram stig af stigi þar til það var of seint að bregðast við. Þá var ekki annar kostur en að spila með valdhöfunum til þess að bjarga eigin skinni.

Ungi fréttamaðurinn er ber að því að hafa þróað með sér hugsanir og viðhorf sem eru óafsakanleg og það verður að bregðast hart við. Ummæli hans urðu ekki til í einhverju tómarúmi. Opinberir aðilar, Ríkisútvarpið, stjórnmálamenn og almenningur verður að sýna landsliðsmönnunum , Austurríkismönnum, Þjóðverjum og umheiminum almennt að það sé ekkert umburðarlyndi í garð þeirra sem setja nasista og verk þeirra í jákvætt ljós. Við verðum að sýna ótvírætt að við ætlum ekki að láta þróast viðhorf sem hafa áður sýnt að leiði til þess að lýðræðinu var kollvarpað og frelsinu fórnað fyrir ánauð og ofbeldi. Þá, sem fyrr, var upphafið að óförunum í brengluðum hugsunum sem fengu að búa um sig í höfði fólks. Þær verða ekki afsakaðar með því að vera saklaust uppistand til skemmtunar á síðkvöldum.

Ef viðbrögðin verða þau ein að birta afsökunarbeiðni og síðan verður haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist er verið að gera sömu mistökin og á síðustu öld. Það yrði ófyrirgefanlegt.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir