Dýrafjarðargöngin næst og strax

Pistlar
Share

Í tilefni af því að í dag eru rétt 15 ár síðan Vestfjarðagöngin voru tekin í notkun var ágæt umfjöllun í Kastljósi Ríkissjónvarpsins um áhrif og gagnsemi ganganna. Þetta var gott framtal hjá Sjónvarpinu sem rétt er að þakka fyrir. Það kom skýrt fram hjá öllum sem við var rætt að jarðgöngin voru bylting, þau tengdu saman byggðarlög og efldu þau. Samtengingin hefur síðan gert byggðarlögunum á norðanverðum Vestfjörðum kleift að standast ótrúlega erfiðleika og mikinn samdrátt, bæði í atvinnulífinu og opinberri þjónustu. Ef jarðgöngin hefðu ekki komið væri staðan þannig að mörgum þætti Snorrabúð vera stekkur frá því sem þó nú er.

Það er lærdómurinn af Vestfjarðagöngunum að samtenging byggðarlaganna er lykilatriðið hvort sem litið er til sóknar eða varnar. Vörnin verður árangursríkari og sóknin hefst fyrr þegar betur árar. Nú stöndum við í svipuðum sporum og fyrir 20 árum þegar ákveðið var að ráðast í Vestfjarðagöngin. Byggðin á Vestfjörðum stendur höllum fæti. Á stuttum tíma, á 12 árum frá 1997 – 2009, fækkaði íbúum í Vesturbyggð um 25% og um 11% í Ísafjarðarbær. Þessi tvö svæði, norðanverðir og sunnarverðir Vestfirðir eru veikasta svæði landsins. Að fáum árum liðnum kann að vera of seint að koma í veg fyrir stóráföll. Tíminn er naumur og það gengur hratt á hann.

Það stendur engum nær en Vestfirðingum að átta sig á því hvað þarf að gera. Það er það sama og var fyrir 20 árum þegar unnið var að samtengingu byggðanna innan þessara tveggja svæða, annars vegar norðanverðra Vestfjarða og hins vegar sunnanverðra Vestfjarða. Það er samtenging svæðanna tveggja með Dýrafjarðargöngum og nýjum vegi yfir Dynjandisheiði. Þetta er líka álit tveggja sérfróðra og óvilhallra manna, sem hafa kynnt sér stöðu mála í fjórðungnum, þeirra Þórodds Bjarnasonar, prófessors við Háskólann á Akureyri og dr Vífils Karlssonar, sem m.a. rannsakaði áhrif Hvalfjarðarganga á þróun byggðar beggja megin við göngin. Samtengingin er lykillinn að öllu öðru sem menn vilja gera. Lykilatriðið í samtengingunni á Vestfjörðum eru Dýrafjarðargöng.

Svæðin tvö eru þau fjölmennustu á Vestfjörðum , annað með um 5000 íbúa og það syðra með um 1200 manns. Öll önnur þéttbýlissvæði á landinu eru mun lengra frá þeim. Frá Patreksfirði verða 150 km til Ísafjarðar eftir Dýrafjarðargöng en um 300 km til Borgarness sem kemur næst og getur þó ekki staðið Ísafirði á sporði sem þjónustukjarni. Það verður alltaf styst til Ísafjarðar til þess að komast í lágvöruverslun, byggingarvöruverslun, sérverslanir, heilbrigðisþjónustu og annað sem bætir lífskjör fólks. Samtengingin mun stækka fasteignamarkaðinn, auðvelda sölu og líklega hækka verðið. Áhrifin ganga í báðar áttir þótt rannsóknir bendi til þess að fámennara svæðið hagnist meira á samtengingunni en það fjölmennara. Næsta svæðið frá Ísafirði að Patreksfirði frátöldum er líklega líka Borgarnes og þangað eru um 380 km eða um 230 km lengra en til Patreksfjarðar.

Frestur á samgöngum milli svæðanna þýðir að verið er að svipta fólk betri lífskjörum um árabil. Þess vegna fylgir því mikil ábyrgð að vinna gegn almennum hagsmunum borgaranna og slá á frest Dýrafjarðargöngum eins og Alþingi gerði í fyrra, illu heilli.
Vestfjarðavegur frá Flókalundi að Bjarkalundi er hluti af samtengingu svæðanna á Vestfjörðum og þolir heldur enga bið. Deilur hafa staðið í 9 ár um veglínu um Gufudalssveit án árangurs. Árið 2002 var það tillaga Vegagerðar ríkisins og þáverandi Samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar að endurbyggja veginn yfir hálsana tvo, Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Nú er málið statt á sama stað eftir miklar deilur og málaferli. Það er alveg rétt hjá Innanríkisráðherranum Ögmundi Jónassyni að tíminn skiptir mestu máli. Framfarirnar verða að koma strax. Nýr vegur er alltaf framför hvar sem hann liggur. Frekari tafir halda áfram að skaða Vestfirðinga mest og þeir eiga mest undir því ná niðurstöðu sem færir framfarir.

Ögmundur Jónasson hefur notað hvert tækifæri í fjölmiðlum undanfarna mánuði til þess að koma á framfæri þeirri skoðun sinni að Vestfirðir eigi að vera í forgangi þegar kemur að fjárveitingum til vegaframkvæmda. Hann á engra pólitískra hagsmuna að gæta og gæti sem best látið hagsmuni Vestfirðinga sér í léttu rúmi liggja. En það gerir hann ekki, heldur leggur það á sig að reyna að finna lausn á deilum um veglínu í Gufudalssveit. Það ber að virða við ráðherrann.

Harðar deilur leysast trauðla með því að annar aðilinn fái allt sitt fram og hinn ekkert. Engin stjórnmálaflokkur hefur lýst yfir stuðningi við sjónarmið Vestfirðinga og eftir kjördæmabreytinguna 1999, þar sem Vestfjarðakjördæmið var lagt niður, eru pólitísk áhrif Vestfirðinga ekki svipur hjá sjón, því miður.

Það stakk það mig að Dýrafjarðargöng voru ekki nefnd sem neitt af næstu verkefnum í jarðgangagerð þegar Kastljósið kynnti umfjöllunina, heldur voru talin upp Vaðlaheiðargöng og Norðfjarðargöng. Það var eiginlega enn meiri meinloka í ljósi þess að umfjöllunin sjálf æpti á þörfina fyrir samtengingu Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum. Líklega hafa Vestfirðingar ekki verið nægilega duglegir að undanförnu að halda fram kröfunni um göngin og tefla fram augljósu rökunum fyrir því að þau eiga að vera fyrst í röðinni. Þau eiga að koma strax og vera næst.

Það er mikil og þung krafa Vestfirðinga fyrir jarðgöngunum, það bera vitna ályktanir þriggja borgarafunda á Ísafirði og Patreksfirði á undanförnum misserum. Samtenging svæðanna bætir lífskjör fleiri og fyrr en nokkur önnur aðgerð, það má heita staðreynd sem liggur fyrir. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Athugasemdir