Skynsemin ræður á Ísafirði

Pistlar
Share

Misjöfn eru úrræði lögreglunnar þegar mikill mannfjöldi er saman kominn af einhverju tilefni og bílafjöldinn er mun meiri en stæði eru fyrir. Í Reykjavík beitir lögreglan fjársektum sem renna til borgarinnar. Eina helgina í júní voru liðlega 200 manns sektaðir við Laugardagshöllina þar sem fram fór útskrift kandídata við Háskóla Íslands. Önnur sektarhrina var um síðustu helgi en þá voru tugir þúsunda samankomnir í miðbæ höfuðborgarinnar.

Á Ísafirði var leikinn fjölsóttur knattspyrnuleikur um síðustu mánaðamót. Gestir hafa líklega verið um 1000 og bílarnir langtum fleiri en bílastæðin. Bílum var lagt hvar sem hægt var án þess að það veldi truflun á umferð eða spjöllum á umhverfi, í vegarkanti eða á grasflötum. Það hefði verið hægur vandi fyrir lögregluna á Ísafirði að sekta bílaeigendur tugum saman ef hún nálgaðist löggæsluna eins og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

En það var ekki gert enda engin ástæða til. Það var aldrei enginn vandi sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af. Borgararnir leystu vandann sem var vegna skorts á bílastæðum á þann hátt að engin ástæða var fyrir afskipti lögreglunnar. Skynsemin ræður á Ísafirði

Um síðustu helgi voru tvær fjölsóttar hátíðir í Eyjafirði. Á Dalvík voru um 30 þúsund manns og á Hrafnagili hafa aldrei verið fleiri á árlegri handverkshátíð. Sama var þar upp á teningnum á báðum stöðum og á Ísafirði. Gestir lögðu bílum sínum hvar sem pláss var að finna á götum, í vegarkanti eða utanvegar þar með talið á grasflötum. Á Dalvík var gestum leiðbeint og þeim bent á líklegustu stæðin. En ekki hefur frést af því að lögreglan í Eyjafirði hafi farið að fordæmi félaga þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Enginn var sektaður, öll vandkvæði voru leyst og engin spjöll voru unnin. Skynsemin réði í Eyjafirði.

Svipaða sömu má segja af fjölmörgum bæjarhátíðum um land allt sem haldnar eru á hverju sumri. Þær eru yfirleitt vel sóttar og bílar langtum fleiri en stæðin.
Löggæsla snýst einmitt um þetta að láta skynsemina ráða. Sömu lög gilda á Ísafirði, í Eyjafirði og í Reykjavík en framkvæmdin er ólík. Fyrir gesti í Reykjavík er það dýrt spaug. Framundan er menningarnótt og Reykjavíkurlögreglan gerði betur í því að viðhafa starfsaðferðir lögreglunnar í Eyjafirði og vinna með gestunum.

Þau rök voru sett fram í útvarpsviðtali af hálfu talsmanns lögreglunnar í Reykjavík fyrir sektunum að lögin væru skýr og undanþágulaus og lögreglunni væri því nauðugur sá einn kostur að beita sektum. Það þarf frekari skýringa við í ljósi framkvæmdarinnar á sömu lögum annars staðar á landinu.

En lögreglan sjálf grefur undan þessum rökum sínum með aðgerðarleysi gagnvart öðru lagabanni. Þannig er að skýrt bann er í lögum við því að tala í síma undir stýri án þess að vera með handfrjálsan búnað. Það blasa við fjölmörg dæmi þess að umrædd lög eru brotin. Líklega skipta þau lögbrot hundruðum á hverjum degi. Þau eru sýnu alvarlegri en stöðubrot þar sem um öryggi, líf og heilsu fólks, er að ræða. En lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er aðgerðarlaus og setur kíkirinn fyrir blinda augað.

Hvað veldur? Getur lögreglan valið sér lög til þess að framfylgja?

Athugasemdir