Ámælisverð löggæsla í Reykjavík

Pistlar
Share

Lögreglan í Reykjavík stendur fyrir sérkennilegri löggæslu um þessar mundir. Hún hefur tekið upp á því að fylgjast með úr fjarska vandræðum ökumanna sem finna ekki bílastæði og leggja svo til atlögu og dreifa sektum á fjölda bifreiða fyrir löglega stöðu þeirra. Þetta háttalag lögreglunnar minnir eiginlega meira á áreiti við borgana en löggæslu.

Í stað þess að aðstoða ökumenn við að greiða úr vandræðum sem skapast þegar nærliggjandi bílastæði duga engan veginn fyrir þann fjölda sem sækir tiltekinn viðburð birtast löggæslumenn eins og þjófar að nóttu til þegar ökumenn eru fjarri og sekta þá og eru svo á bak og burt þegar ökumaður kemur að bíl sínum. Þeir leiðbeina ekki borgurunum heldur íþyngja þeim.

Laugardaginn 11. júní síðastliðinn var mikil hátíðarstund í Laugardagshöllinni. Háskóli Íslands útskrifaði 1800 kandídata í tveimur athöfnum, þar af um 1100 eftir hádegið. Hátíðargestir voru fjölmargir og skiptu þúsundum. Eðlilega voru bílastæði allt of fá, þar sem yfirvöld hafa ákveðið að spara sér kostnaðinn við að gera þann fjölda þarf aðeins í nokkur skipti á ári hverju.

Ég var einn þeirra fjölmörgu sem lögreglan sektaði þann dag og er ósáttur við framgöngu hennar. Enn ósáttari er ég við yfirlýsingar hennar á opinberum vettvangi þar sem lögreglan hælist um yfir afrekum sínum og heldur því fram að nóg hafi verið að auðum bílastæðum. Því er ég ósammála, öll bílastæði við Laugardalshöllina og nálægt henni voru yfirfull þegar ég kom þar að um 13:30. Mér er ómögulegt að sjá árangurinn í því að innheimta af hátíðargestum ríflega eina milljón króna og refsa þeim fyrir skort sem yfirvöld bera ábyrgð á.

Það er ekkert athugavert við þá stefnu yfirvalda að hafa færri bílastæði en þarf við stærstu athafnir, en þá ættu sömu yfirvöld ríkis og borgar að leitast við að leysa bílastæðaskortinn í góðri samvinnu við hátíðargesti. Lögreglan og borgaryfirvöld eiga að leyfa gestum að leggja bílum sínum í vegarkanti og utanvegar þar sem slíkt veldur engum spjöllum eða hindrunum fyrir umferð.

Lögreglan ætti að vera á vettvangi á þessum stundum og aðstoða ökumenn og leiðbeina við að finna bílastæði. Nóg er af auðum svæðum sem auðvelt er að hagnýta við þessi tækifæri og lögreglan á að stýra og skipuleggja notkunina þannig að vel fari á. Lögreglan ætti að einbeita sér að því að vinna með borgurunum og leysa eftir mætti hvern vanda í sátt við þá og láta það vera að umgangast borgarana sem ótínda brotamenn. Þetta viðhorf lögreglunnar finnst mér ámælisvert.

Athugasemdir