Sértækar aðgerðir

Pistlar
Share

Efnahagskreppan leikur ríkissjóð grátt. Stjórnvöld verða því að skera niður næstu árin í rekstri og framkvæmdum. Vegaframkvæmdum , einkum á landsbyggðinni, fyrir 12 milljarða hefur þegar verið fleygt út af borðinu. Við þetta verður að búa meðan verið er að borga niður skuldir.

En þó ekki alls staðar. Ríkisstjórnin, aðilar vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðirnir hafa ákveðið að búa til sértækar aðgerðir fyrir höfuðborgarsvæðið framhjá ríkisfjármálunum. Í eina tíð voru sértækar aðgerðir skammaryrði, en það var þegar þær voru á Vestfjörðum.

Þar á að reisa álver í Helguvík, stækka í Straumsvík og á Grundartanga, ljúka við tónlistar- og ráðstefnuhús, reisa nokkur orkuver og hátæknisjúkrahús. Svo auðvitað Sundabraut, Vesturlandsveg innan Reykjavíkur og Suðurlandsveg. Að vísu einnig Vaðlaheiðargöng og Samgöngumiðstöð í Reykjavík, hvort tveggja fyrir landsbyggðina, það verður að viðurkennast.

Það láta fjölmiðlarnir ekki bjóða sér. Egill Helgason ríður á vaðið í gær og segir samgöngumiðstöð og Vaðlaheiðargöng vera þrönga hagsmuni Samgönguráðherra, síðan komu báðar sjónvarpsstöðvarnar í kjölfarið með svipaðan málflutning um Vaðlaheiðargöng undir yfirskyni fréttaflutnings. Allt vegna þess að umferðarteppa varð einn dag á Hellisheiðinni.

Það gleymdist í fréttunum að verið er að leggja nýjan og fullkominn veg, Suðurstandarveg fyrir háar fjárhæðir sem gagnast umferð milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurlands. Það gleymdist líka að minna á andúð borgarfulltrúa í Reykjavík á nýrri samgöngumiðstöð fyrir innanlandsflugið og margra ára töf á úrbótum. Það gleymdist að álver við Bakka er ekki í spilunum.

Það eru kannski tvær þjóðir í landinu? Sértækar aðgerðir fyrir aðra og sérhagsmunir fyrir hina.

Greinin birtist í Mbl. 1. júlí.

Athugasemdir