400 milljarða kr. skuld afstýrt

Pistlar
Share

Ef Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hefðu fengið að ráða fyrir tæpum 10 árum væri skuld Íslendinga vegna Icesave líklega um 400 milljörðum krónum hærri en hún þó er samkvæmt samkomulaginu við Breta og Hollendinga. Þau eru örugglega fengin því núna að tillaga þeirra var felld á Alþingi.

Lögin um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta voru samþykkt á Alþingi í desember 1999. Með þeim voru lögleidd hér á landi ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins. Í lögunum er kveðið skýrt á um ábyrgð innstæðutryggingasjóðsins, en að ábyrgðin takmarkist við 20.887 evrur.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á Icesave, sem dreift var á Alþingi í gær, er vitnað til lagasetningarinnar árið 1999. Lögð er sérstök áhersla á að Finnur ingólfsson hafi þá verið viðskiptaráðherra og að hann hafi sérstaklega hnykkt á því í framsöguræðu fyrir málinu að sjóðnum bæri að bæta tjón sparifjáreigenda að þessu lágmarki hvort sem eignir hans dygðu til þess eða ekki.

Fjármálaráðherra og forsætisráðherra vilja með þessu gera Finn Ingólfsson ábyrgan fyrir því að Icesave skuldin falli á þjóðina. Hann svarar fyrir sig, ef honum þykir ástæða til. En það er þörf ábending að rifja upp málflutning og tillöguflutning fleiri þingmanna við þessa afdrífaríku lagasetningu.

Stjórnarandstöðunni þáverandi undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar þótti frumvarpið ekki ganga nógu langt. Þau flutti breytingartillögu og lögðu þar til að einstaklingur skyldu fá allar innstæður sínar bættar úr tryggingarsjóðunum en ekki bara lágmarkið.

Jóhanna rökstuddi tillöguna m.a. svona:

„Hér er sem sagt lagt til að full tryggingavernd sé hjá þeim sem eiga innstæður sínar í innlánsstofnunum og bönkum, þannig að þeir geti verið rólegir hvað sem á dynur, hvaða skakkaföll sem verða í bankakerfinu, þá munu þeir að fullu og öllu fá sínar innstæður greiddar.“

Tillagan var felld með 34 atkvæðum gegn 16. En hefði hún fengist samþykkt sé ég ekki betur en að Íslendingar hefðu orðið að bæta innstæður einstaklinga í Icesave-reikningum að fullu í stað lágmarksupphæðarinnar. Samþykktin hefði engu breytt hér á landi þar sem stjórnvöld ábyrgðust innstæður umfram lögboðið lágmark hvort sem er.

En í útibúum Landsbankans erlendis hefði tillagan skipt miklu máli. Engin von er til þess að stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi, hvað þá innstæðueigendur þar, hefði fallist á að Íslendingar ábyrgðust ekki innstæður einstaklinga að fullu eins og lög hefði kveðið á um, ef tillaga ráðherranna þriggja hefði verið samþykkt í desembermánuði 1999 og aðeins lágmarksfjárhæðin látin duga.

Icesave skuldin er um 705 milljarðar króna. Ekki er alveg ljóst af greinargerð frumvarpsins um ríkisábyrgðina hvað hún hefði orðið há ef tillaga Jóhönnu og fleiri hefði verið samþykkt en ráða má að skuldin hefði hækkað um liðlega 400 milljarða króna og þá ríkisábyrgðin að sama skapi. Ef það er nálægt lagi má segja að hvert atkvæði gegn tillögunni hafi sparað þjóðarbúið um 12 milljarða króna. Það er örugglega verðmætasta atkvæðið mitt fyrr og síðar.

Rétt er að enda þenna pistil með atkvæðaskýringu Jóhönnu Sigurðardóttur í atkvæðagreiðslunni afdrífaríku þann 17. desember 1999:

„Herra forseti. Þessi grein frv., 10. gr., fjallar um tryggingarvernd innstæðueigenda. Brtt. sem hér eru greidd atkvæði um kveður á um að einstaklingar skuli fá kröfur sínar vegna tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum greiddar að fullu, en það er eins og gerist í Finnlandi og Noregi, en ekki bara að hluta til eins og lagt er til í þessu stjfrv.

Svo segja þau oddvitar ríkisstjórnarinnar nú að þeim hafi verið nauðugur einn kostur að semja um Icesave!

Athugasemdir