Atvinnan heim – með skaplegra gengi krónunnar

Pistlar
Share

Undanfarin ár hafa verið sérstaklega erfið í innlendum atvinnugreinum sem reiða sig á þjónustu við útflutningsgreinarnar, sérstaklega við sjávarútveginn. Gengi íslensku krónunnar hefur verið mjög hátt og reyndar mun hærra en efnahagslegar forsendur voru fyrir hendi. Það leiddi til þess að tekjur útflutningsgreinanna urðu minni og þau urðu að haga rekstri sínum samkvæmt því.

Morgunblaðið segir frá því í frétt á laugardaginn að skipaviðgerðir séu að færast heim. Verkefni sem fóru úr landi á góðæristímanum séu núna, eftir gengisfallið, unnin hér heima. Viðmælandi blaðsins, Hilmar Kristinsson, verkstjóri hjá Stálsmiðjunni, segir að fyrirtækið hafi bætt við sig fólki að undanförnu og að það vanti fleira fólk. Hann minnir á að á sínum tíma hafi Íslendingar verið fremstir í hönnun og smíði fiskiskipa. En svo breyttust tímarnir og allt í einu voru skip bara smíðuð erlendis og einnig voru þau send utan til viðgerða.

Þessi öfugþróun var afleiðing hágengisstefnunnar , sem gerði innnlent dýrt og erlent ódýrt. Hágengisstefnan var leið kjarklausa stjórnmálamannsins til vinsælda. Stöðug þensla, vaxandi ríkisútgjöld, lækkun skatta og falskur kaupmáttur var til skamms tíma betri en nauðsynlegt aðhald að ríkisrekstri og heimilsrekstri. Af því sýpur þjóðin nú hið ramma seyði efnahagskreppunnar.

Það var svo sem fleira en skipasmíðaiðnaðurinn sem hvarf úr landi í góðærinu. Hið sama má segja um ýmsan smíðaiðnað. Í stað þess að flytja timbur til landsins og vinna úr því voru verksmiðjurnar fluttar úr landi, til dæmis til Eystrarsaltslandanna, og unnar vörur fluttar hingað heim. Þessi iðnaður hlýtur líka að færast heim í einhverjum mæli eftir að gengi krónunnar fór að endurspegla raunveruleg verðmætin að baki gjaldmiðlinum.

En aftur að þjónustuiðnaðinum við sjávarútveginn. Þar varð hreinlega hrun á undanförnum árum eins og líklega má sjá skýrast í öflugum útgerðarbæjum víða um landið. Jóhann Jónsson, stjórnarformaður 3Xtechnology á Ísafirði sendi mér á dögunum lauslega samantekt sína yfir breytinguna á Ísafirði á 2 – 3 áratugum. Hann rifjar upp að Skipasmíðastöð Marsellíusar hafi verið stórfyrirtæki með um 70 manns í vinnu. Vélsmiðjan Þór var með um 60 manns. Póls og Póllinn voru með um 25 manns hvort fyrirtæki. Samtals telur hann upp fyrirtæki með um 250 störf sem eru horfin og margt af fólkinu sem vann störfin er flutt burt. Þarna eru ekki meðtalin töpuð störf við fiskveiðar eða fiskvinnslu.

Hilmar Kristinsson, verkstjóri hjá Stálsmiðjunni segir að mikil tækifæri séu í skipasmíðum og skipaviðgerðum hér á landi en hins vegar vanti fjármagn. Það eru almennt mikil tækifæri í innlendum iðnaði og iðnaðarframleiðslu eftir að verðbréfafárið rann af mönnum. Þau tækifæri eiga menn ekki að láta renna sér úr greipum og það á að nota þau til þess að skapa atvinnu og verðmæti og styrkja landsbyggðina.

Athugasemdir