Hvern er verið að blekkja?

Pistlar
Share

Eftir japl, jaml og fuður er búið að undirrita stöðugleikasáttmálann. Markmiðið er gott, að ná stöðugleika í efnahagsmálum með lágri verðbólgu og litlu atvinnuleysi. Eðlilega þurfa margir að koma að slíku samkomulagi svo það nái tilgangi sínum. En athygli vekur að Bændasamtökin eru hvergi sjáanleg, ólíkt því sem var í þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Kannski er þetta lýsandi fyrir þróunina síðustu tvo áratugina. Efnahagslíf landsmanna hverfist meira og minna um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðin hefur veikst verulega.

Annað sem sker í augu er að hápólitískar ákvarðanir eru leiddar til lykta á borðum aðila sem ekki eru kosnir af almenningi til þess. Þar má nefna ákvarðanir um hvernig jöfnuði í ríkisfjármálum verði náð. Það er nokkuð langt gengið þegar samtök launþega og atvinnulífsins setja ríkisstjórninni fyrir um hve mikið skuli skorið niður og hve miklu fé aflað með skattahækkunum.

Áhrif þeirra endurspegluðust hvað skýrast í ummælum forseta Alþýðusambandsins í sjónvarpsviðtali, þar sem hann úthlutaði forystumönnum ríkisstjórnarinnar einkunn fyrir frammistöðu sína. Hann leit á sig í hlutverki kennara og ráðherrarnir voru sem nemendur í hans augum. Hann var þess bær að gefa öðrum einkunnir.

Samtök atvinnulífsins settu ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar í endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar og gerðu henni ljóst að ef ríkisstjórnin fylgir boðaðri stefnu sinni verði samningurinn allur í uppnámi. Er það ekki örugglega í alþingiskosningum þar sem þjóðin velur menn til að setja lögin í landinu? Það væri ekki úr vegi að einhver tæki sér það fyrir hendur að fræða SA um grundvallaratriði lýðræðisins. En niðurstaðan er hverjum manni augljós. Ríkisstjórnin hefur fórnað endurskoðun fiskveiðistefnunnar fyrir frið við Vilhjálm Egilsson og kumpánana í LÍÚ.

Aðalatriðið er að ná jafnvægi milli tekna og útgjalda hins opinbera og að greiða niður skuldir. Það er stefnan sem mörkuð var strax af fyrri ríkisstjórn og kom mjög skýrt fram í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En nú bregður svo við að forsætisráðherra hefur orð á framkvæmdum fyrir risavaxnar fjárhæðir, 280 – 360 milljarðar króna á nokkrum árum. Nú á að reisa álver og gagnaver í nágrenni höfuðborgarinnar og hverjar þær vegaframkvæmdir sem mönnum eiginlega dettur í hug. Að vísu fær að fljóta með ein framkvæmd utan höfuðborgarsvæðisins, Vaðlaheiðargöng.

Nú er mér spurn, hvernig má það vera að skorið er niður fé á fjárlögum ríkisins til samgöngumála á þessu ári og því næsta fyrir 12 milljarða króna en boðaðar á sama tíma miklu meiri framkvæmdir? Ef niðurskurður er nauðsynlegur til þess að ná tökum á efnahagsmálunum hvers vegna er þá samt lagt í framkvæmdirnar?

Greinilega er ætlunin að fá lífeyrissjóðina til þess að fjármagna framkvæmdirnar og að einhverjir aðrir en ríkið ákvarði hverjar þær verða og eigi þær að nafninu til. En það breytir því ekki að það verður ríkið sem borgar að lokum. Þessi áform líta út eins og bókhaldsblekking. Ef það er efnahagslega í lagi að gera allt þetta þá á ríkið að gangast við því strax, en ef það er ekki í lagi þá á ekki að fara í allar þessar framkvæmdir.

Hvern er verið að blekkja?

Athugasemdir