Í gær var haldin ráðstefna um áhrif háskóla og menntunar á byggðaþróun. Það voru Byggðastofnun, Iðnaðarráðuneytið og Nordregio sem stóðu að ráðstefnunni, en Nordregio er norræn fræðastofnun í skipulags- og byggðamálum og hafi þessir aðilar þökk fyrir gott framtak.
Mörg erindi voru flutt og almennt var niðurstaða ræðumanna sú að háskólarnir hefði þýðingarmiklu hlutverki að gegna fyrir byggðaþróun og var nánar farið yfir þær forsendur sem þyrftu að vera til staðar svo skólarnir yrðu drifkraftur efnahagslegra og félagslegra framfara fyrir land og þjóð, en sérstaklega fyrir viðkomandi landssvæði.
Lögð var fram áhugaverð skýrsla sem unnin var á vegum Nordregio um viðfangsefnið og ritstjóri skýrslunnar, Sigrid Hedin fór yfir efni hennar. Eins var fróðleg skýrsla frá háskólanum í Oulu í Finnlandi, þar sem skýrt var gildi rannsókna og menntunar fyrir þróun byggðar.
Allt ber þetta að sama brunni eins og Íslendingar hafa reynt með stofnun og starfsemi Háskólans á Akureyri. Skólastarfsemin styrkir atvinnulífið, bætir menntun og eflir svæðið almennt í stöðugri og vaxandi samkeppni innanlands og erlendis um fólk, fyrirtæki og fjármagn. Þess vegna hefur til dæmis verið rík krafa um háskóla á Vestfjörðum og ég leyfi mér að minna á að þrisvar hef ég flutt á Alþingi þingmál stofnun sjálfstæðs háskóla þar.
Frá Háskóla Íslands barst annar rómur. Fulltrúi hans talaði gegn því að fleiri háskólar myndu bjóða upp á almennt nám á háskólastigi með þeim rökum að ekki væru nægilega margir íbúar á svæðunum. Hins vegar taldi hann að ýmsar sérhæfðar rannsóknir mætti stunda í dreifbýlinu og Háskóli Íslands beitti sér þess vegna fyrir stofun háskólasetra eða fræðasetra hér og hvar um landið.
Þetta vakti athygli á ráðstefnunni svo ekki sé meira sagt. Röksemdin er mótsagnakennd. Fullyrt er að of fáir íbúar séu á einstökum svæðum fyrir almennt grunnnám á háskólastigi en hins vegar sé hægt að starfrækja framhaldsnám með rannsóknum. Það er skrýtið í ljósi þess að færri leggja fyrir sig framhaldsnám en grunnnám. Ef því er svarað til að unnt sé að sækja nemendur í framhaldsnám út fyrir viðkomandi landsssvæði þá gilda þau rök líka um grunnnámið. Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða benti einmitt á þetta.
Að loknum erindum var panell til þess að ræða það sem fram kom í framsöguerindunum. Daninn Ole Daumsgaard, sem stjórnaði umræðunum tók fyrir viðhorfið frá Háskóla Íslands og velti því fyrir hvernig bæri að skilja það. Finnski fulltrúinn sagði kurteislega að peningarnir skiptu mestu máli en sá norski, Peter Arbo, talaði skýrar. Hann minnti á að þegar Oslóarháskóli var stofnaður, fyrsti norski háskólinn, hafði ráðamenn Kaupmannaháskóla verið andvígir því. Og þegar næsta háskóla í Noregi var komið á fót í Björgvin, hafi það mætt andstöðu frá Oslóarskólanum.
Ætli háskólamenn í Kaupmannahöfn hafi ekki fussað og sveiað þegar Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 og bent á að á Íslandi byggju sárafáar hræður miðað við Kaupmannahöfn eða jafnvel Danaveldi. Hitt liggur fyrir skjalfest að þegar Háskólinn á Akureyri var samþykktur á Alþingi fyrir liðlega 20 árum lagðist Háskóli Íslands gegn því.
Þetta er bara hagsmunagæsla þegar allt er á botninn hvolft og snýst um peninga og nemendur. Það er forneskjan sem hrjáir Háskóla Íslands. Það er fyrir löngu viðurkennd staðreynd að þekking og menntun eru ekki staðbundin fyrirbæri. Þeirra getur hver maður aflað sér hvar sem er og flutt með sér hvert sem er.
Athugasemdir