Aðild að ESB – til hvers ?

Pistlar
Share

Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur blossað upp eftir gengisfellingu krónunnar um síðustu páska. Þeir sem vilja aðild tala gjarnan á þann veg að hún sé leiðin út úr erfiðleikunum í efnahagslífinu og að með aðild að ESB og evrunni muni efnahagslegur óstöðugleiki verða úr sögunni.

Þetta er hvort tveggja mjög orðum aukið. Inngöngu í ESB fá Íslendingar ekki nema þeir hafi komið á stöðugleika í sínum efnahag og evran fæst ekki nema að hafa sýnt fram á að stöðugleikinn sé tiltölulega varanlegt ástand. Með öðrum orðum við þurfum sjálfir að vinna okkur út úr erfiðleikunum á eigin forsendum með krónunni. Mig minnir að aðeins 15 þjóðir af 27 sem eru í Evrópusambandinu hafi evruna. Sumar vilja ekki taka upp evru, svo sem Bretar, Danir og Svíar. Aðrar þjóðir, einkum nýjar aðildarþjóðir í austur Evrópu fá ekki að taka upp evruna. Evruþjóðirnar eru ekki tilbúnar að borga fyrir það iðgjald sem í boði er.

Evruþjóðirnar vilja ekki samþykkja nýjar þjóðir inn í myntbandalagið sem eru líklegar til þess að verða byrði á þeim sem fyrir eru. Þetta snýst alltaf um hagsmuni þegar til kastanna kemur. Ef Íslendingar fá fjárhagslega ábyrgð Seðlabanka Evrópu þá þarf að borga fyrir þá ábyrgð. Veigamikil stjórntæki í efnahagsmálum færast úr landi til Seðlabankans og þeim verður beitt í þágu heildarinnar en ekki afmarkaðra íslenskra hagsmuna og í samningum um aðild að ESB verða Íslendingar að borga.

Það fæst ekkert ókeypis í þessum heimi. Það er mikill barnaskapur að halda að evran fáist án fórna. Við fáum til dæmis ekki að halda áfram að halda upp lífskjörum með skuldasöfnun og senda svo reikninginn til ESB. Reikninginn þurfa íslenskir skattgreiðendur að borga að lokum og skiptir engu hvort hann er í krónum eða evrum.

Í aðildarsamningum mun ESB tryggja að samningurinn gæfi þeim að minnsta kosti jafnmikið og hann kostaði. Litið er á Íslendinga sem eina af ríkustu þjóðum veraldar og því verður gerð sú krafa af hálfu ESB að þeir greiddu af ríkidæmi sínu háar fjárhæðir til þess leggja sitt af mörkum til að bæta lífskjörin í fátækari þjóðum sambandsins. Aðgangur að auðlindum landsins bæði til lands og sjávar verður aðalkrafa ESB og ólíklegt að frá henni verði hvikað. ESB hefur hingað til ekki fallist á annað en að hafa fullt forræði yfir fiskistofnum og nýtingu þeirra utan 12 mílna svo dæmi sé nefnt.

Nú er gjarnan sagt að sækja verði um aðild að ESB til þess að fá að vita hvað er í boði. Síðan sé svo hægt að taka afstöðu til aðildar. Þerna er mikil villa á ferðinni. Evrópusambandið hefur ekki viðræður um aðild við nokkra þjóð fyrr en fyrri liggur alveg skýrt hvort þeir sem eru að sækja um vilji aðild. Fyrst þarf að ákveða hvort menn vilji aðild. Þegar það liggur fyrir þarf að skýra á hvaða forsendum sá vilji er. Hvað þarf að nást fram í samningunum til þess að aðild sé æskileg og hvaða atriði eru það sem eru frágangssök.

Næsta skref er einmitt að skýra þetta og átta sig á því hvað þjóðin vill í þessum efnum. Þeir sem vilja nú sækja um eiga eftir að gera grein fyrir skilyrðum sínum og samningsmarkmiðum. Það fer engin þjóð að sækja um aðild að ESB án þess að setja samningamönnum sínum skýran og afmarkaðan ramma. Mér finnst það nánst óheiðarlegt að tala fyrir umsókn um ESB án fyrirvara eða skýringa og segja jafnframt að viðkomandi hafi ekki gert upp hug sinn um hvort hann styðji aðild eða ekki.

Þeir sem vilja sækja um um verða að segja hvort þeir vilji aðild eða ekki og þá á hvaða forsendum. Hvað það er sem þeir vilja fá fram og hvað þeir vilja ekki gefa eftir. Á sama hátt þurfa hinir sem ekki vilja aðild að skýra sjónarmið sitt. Það liggur hins vegar mun betur fyrir. Næsta skref er að ræða um samningsmarkmiðin.

Athugasemdir