Ógnartaktur niðurrifsaflanna

Pistlar
Share

Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 26. nóvember sl., gerði þingflokksformaður Frjálslynda flokksins athugasemd við þá afstöðu mína að greiða atkvæði gegn tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Sagði hann það “ mjög alvarlegt mál þegar lítill flokkur eins og Frjálslyndi flokkurinn getur ekki gengið í takt“ og reiknaði með að málið yrði tekið fyrir hjá flokknum. Ég get ekki neitað því að þessi orð vöktu blendnar minningar frá síðasta kjörtímabili. Þá varð í þingflokki Framsóknarmanna krafan um að ganga í takt því háværari sem málstaðurinn var verri. Enda fór sem fór, það er óþarft að rifja upp ófarir míns gamla flokks. Ég sé sömu ógæfuteikn á lofti yfir Frjálslynda flokknum um þessar mundir.

Ágreiningur

Á síðasta þingvetri lagði Jón Magnússon mikla áherslu á svigrúm sitt og stjórnarskrárvarinn rétt til þess að taka afstöðu í málum samkvæmt sannfæringu sinni. Hann greiddi atkvæði gegn ályktun þingflokksins þar sem stefna flokksins varðandi aðild að Evrópusambandinu var áréttuð.

Um síðustu helgi gerði þingflokksformaðurinn enn einu sinni opinberlega ágreining við formann flokksins um ESB aðild. Guðjón Arnar Kristjánsson lýsti því í Morgunblaðinu að aðild kæmi ekki til greina við núverandi aðstæður en Jón Magnússon fagnaði því á heimasíðu sinni „að loksins skuli vera farið að rofa til í heilabúi nokkurra forustumanna Sjálfstæðisflokksins varðandi Ísland og Evrópusambandið“. Það liggur þá fyrir hvað hann telur um heilabú félaga sinna, sem eru honum ekki sammála.

Jón Magnússon hefur ítrekað farið gegn stefnu flokksins í landbúnaðarmálum á opinberum vettvangi. Hann hefur gert ágreining um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og farið langt útfyrir samþykkt síðasta landsfundar í málefnum innflytjenda. Jón Magnússon var einn þingmanna á móti löggjöf um ráðningu aðstoðarmanna þingmanna og hann gerði ágreining við formann flokksins og mig eftirlaunalöggjöf alþingismanna.

Í öllum þessum sex málum gekk Jón Magnússon ekki í takt við flokkinn eða félaga sína. Athyglisvert er að skoðanir Jóns í flestum þessara mála eru samkvæmt stefnu Nýs afls, flokks sem Jón var áður formaður í.

Fyrir þingflokk Frjálslyndra starfa þrír starfsmenn.Jón Magnússon greiddi atkvæði gegn ráðningu þeirra allra. Í fréttaviðtölum í september síðastliðnum sagðist hann ekki treysta þeim, hæfasta fólkið hefði ekki verið ráðið til starfa og sakaði formann flokksins og mig um einkavinavæðingu. Hann hefur krafist þess að þeir verði allir reknir. Jón Magnússon lagði sig fram um að vinna gegn áformum formanns flokksins um að fá Ólaf F. Magnússon aftur til liðs við flokkinn. Stofnað var sérstakt bæjarmálafélag í Reykjavík að formanni flokksins forspurðum þegar hann var erlendis.

Óheilindi

Í apríl síðastliðnum sendi miðstjórnarmaður erindi til formanns flokksins og annarra þingmanna með gagnrýnum spurningum um mannaráðningarnar og þar var sérstaklega vegið að framkvæmdastjóra flokksins. Að sjálfsögðu var þessu vandlega komið á framfæri við fjölmiðla. En þau mistök urðu að með spurningunum fylgdu tölvusamskipti sendandans við Jón Magnússon. Kom þar í ljós að Jón stóð að baki sendingunni og samdi sumar spurningarnar og herti á öðrum, allt til þess að gera félögunum sínum í þingflokknum eins mikinn óleik og unnt var. Hann gat ekki komið hreint fram og spurt félaga sína beint þótt hann hefði næg tækifæri til þess heldur vildi frekar leynast. Óheilindi og undirferli eru lýsandi orð um þessa framkomu.

Árásir

Síðsumar gerði formaður flokksins þingmönnum það ljóst að hann hygðist ekki gera tillögu um breytingar. Þá hófust árásir á nýjan leik og af meiri hörku en áður. Færi sem gafst á miðstjórnarfundi í september var nýtt til þess að bera formanninn ofurliði og þess krafist að Jón Magnússon yrði gerður að þingflokksformanni. Þegar sýnt var að það ætlaði ekki að skila árangri fór Jón í hvert viðtalið á fætur öðru í fjölmiðlum og gagnrýndi formann flokksins harðlega og hótaði að segja sig úr þingflokknum ef ekki yrði orðið við kröfum hans.

Þegar hér var komið sögu var mörgum nóg boðið og fjórir flokksmenn sendu frá sér opið bréf undir yfirskriftinni: Aðför að grundvelli Frjálslynda flokksins. Í bréfinu segir „að ákveðnir aðilar hafi sýnt að þeir komu inn í flokkinn með því hugarfari að yfirtaka hann og laga að sinni stefnu“ og er þar vikið að Nýju afli. Þar kemur fram „að í gangi undirróðursherferð á formann flokksins“ frá niðurrifsöflum í flokknum til þess að þjóna valdabrölti þessara aðila þar sem rógi er beitt.

Formaður flokksins valdi þann kost að kaupa sér stundarfrið með því að gera Jón Magnússon að þingflokksformanni. Sá ógnarfriður mun ekki standa lengi. Stöðugt er þess krafist að starfsmenn flokksins verði reknir og ráðnir aðrir þóknanlegir Jóni Magnússyni. Þegar eru komnar fram kröfur um að formaðurinn víki.

Innan flokksins er of mikil óvild og of mikil óheilindi til þess að Frjálslyndi flokkurinn standi af sér þetta óveður niðurrifsaflanna. Ef ekki verður tekið í taumana strax liðast flokkurinn í sundur og verður ónýtt afl.

pistillinn birtist í Mbl 4. des. 2008.

Athugasemdir