Seðlabankinn ákvað í dag að hafa stýrivexti óbreytta. Þeir verða enn um sinn himinháir 13,75%. Þegar skoðaður er rökstuðningur bankans er erfitt að sjá að bankinn hafi átt annan kost. Bent er á að verðbólgan er mjög mikil 5,8% og langt yfir viðmiðunarmörkunum 2,5%. Nokkrir efnahagsþættir standa þannig að líkur standa frekar til þess að verðbólgan vaxi en hið gagnstæða.
Í fyrsta lagi benda hagvísar til þess að einkaneysla hafi farið hratt vaxandi allt til loka síðasta árs. Það leiðir til hækkandi verðlags og þar með verðbólgu. Í öðru lagi hefur gengi krónunnar lækkað að undanförnu og það fer beint út í verðlagið eins og hver maður veit. Minna má á álit alþijóðagjaldeyrissjóðsins frá síðasta ári sem taldi að geng íslensku krónunnar myndi lækka um allt að fjórðung. Spurningin væri ekki hvort heldur hvenær.
Í þriðja lagi leiðir af lækkandi gengi krónunnar að dregur úr framboði erlends lánsfjár. Það verður ekki lengur eins arðvænlegt fyrir útlendu fjárfestana að kaupa íslenska krónu og hagnast vel á háum vöxtum af þeirri ástæðu að gengisáhættan er þeirra og lækkandi gengi gleypir vaxtagróðann. Þessi staðreynd veikir krónuna ennfrekar. Loks nefnir Seðlabankinn í fjórða lagi lækkandi hlutabréfaverð sem eykur fjármagnskostnað heimilanna og fyrirtækja. Ástæður fyri því eru eins og kunnugt er að miklu leyti alþjóðlegar og eiga uppruna sinn í Bandaríkjunum. Þessu fjórum ástæðum til viðbótar þarf að hafa í huga að kjarasamningum er ekki lokið og hæglega geta þeir aukið á verðbólguna, þótt ég sé þeirrar skoðunar að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar muni að lokum gera samninga sem draga eiga úr verðbólgunni.
Á móti öllum þessum efnahagsþáttum, sem allir standa þannig að verðbólgan er vaxandi, kemur að líklegt er að verðlag fasteigna fari lækkandi á næstu mánuðum. Það getur munað um þá lækkun þegar verðbólgudæmið er gert upp. Verðhækkun íbúðarhúsnæðis, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, hefur átt mikinn þátt í verðbólgunni undanfarin ár. Nefna má sem dæmi að verðbólga án húsnæðis síðustu 12 mánuði var aðeins 2,4%, en þegar 15% verðhækkun húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma er tekin með varð verðbólgan 5,9%.
Að öllu samanlögðu er ákvörðun Seðlabankans skiljanleg. Hans hlutverk er að halda verðbólgu innan við 2,5% og eina tækið sem hann hefur til þess er að hækka vexti. Í raun er lýsing Seðlabankans á efnahagsástandinu fyrst og fremst yfirlýsing um langvarandi aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og krafa til hennar um efnahagsstjórn. Skorturinn á efnahagsstjórn er stærsta efnahagsvandamál landsmanna. Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að stjórna efnahagslífinu þannig að það sé í jafnvægi og verðbólga í lágmarki. Hafa þarf hemil á einkaneyslu, framkvæmdum og peningamagni í umferð.
Þessi vandi verður ekki leystur með fix-ídeum eins og þeim að skipta um gjaldmiðil eða hókus pókus trikkinu – göngum í ESB. Niðurstaðan verður alltaf sú sama, vandinn er heimatilbúinn og verður aðeins leystur þar, af okkur sjálfum.
Vaxandi misskipting í þjóðfélaginu er annar vandi sem kallað er á að bæta úr og er verkefni stjórnvalda og verður að taka á samhliða kjarasamningnum. Um það mál gildir það sama og efnahagsmálin, vandinn er heimatilbúinn og er pólitískur vandi.
Athugasemdir