Vandinn liggur í úthlutuninni

Pistlar
Share

Það er alveg rétt hjá formanni Samfylkingarinnar að grundvallarvandi kvótakerfisins í fiskveiðum liggur í úthlutuninni sjálfri. Það var líka niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir skömmu. Þess vegna er upphaf og endir allra hugmynda um viðbrögð við áliti mannréttindanefndarinnar tengt breytingum á úthlutunarkerfinu. Að því leyti er Samfylkingin á réttri leið og það er fagnaðarefni að annar stjórnarflokkurinn tekur málið fyrir með formlegum hætti og setur fram fyrstu hugmyndir sínar að lagfæringum á kvótakerfinu.

Formaður Framsóknarflokksins hefur líka lýst því yfir að virða skuli álit mannréttindanefndarinnar og að breyta þurfi lögum til þess. Það er vert að benda skýrt á það að staða málsins á þessari stundu er þannig að yfirgnæfandi meirihluti Alþingis vill breyta lögunum um stjórn fiskveiða á þann hátt að uppfyllt verði það sanngirnissjónarmið sem felst í jafnræðissákvæði alþjóðasamningsins um borgaraleg og félagsleg réttindi og mannréttindanefndin telur að vanti í íslensku lögin.

Viðvarandi óánægja

Það hefur verið langvarandi og viðvarandi óánægja almennings með kvótakerfið. Í mælingum Gallup allt frá 1998 hefur komið fram að miklu fleiri eru óánægðir með kvótakerfið en þeir sem eru ánægðir. Í síðustu könnun, sem er frá 2007, segjast 72% aðspurðra óánægðir , aðeins 15% ánægðir og 13% hvorki né. Þetta er nánast sama útkoma og fyrir tíu árum, 1998. Fyrir hvern einn sem er ánægður eru nærri fimm óánægðir.

Það er ekki um það spurt hvað það er nákvæmlega sem veldur óánægjunni, en ég tel að það sé ljóst, annars vegar salan á kvótanum og að seljandinn fái andvirðið í eigin vasa og hins vegar hroðaleg áhrif framsalsins á atvinnulíf einstakra byggðarlaga, sem verða fyrir því að kvótinn er seldur burt. Í raun eru það þessir sömu þættir sem mannréttindanefndin er að setja út á.

Framkvæmd byggðakvótans síðustu ár hefur verið með þeim endemum að úlfúð og ólga hefur einkennt hana, þótt vissulega séu undantekningar þar á. Það kallar á að úthlutun byggðakvóta verði breytt. Þegar bæjarstjórn Vesturbyggðar glímdi við það fyrir mörgum árum að vinna úthlutunarreglur fyrir byggðakvóta komst hún að þeirri niðurstöðu, samhljóða hygg ég, að eina færa leiðin væri að bjóða veiðiheimildirnar upp ,ráðstafa þeim til hæstbjóðanda, láta andvirðið renna í bæjarsjóð og nota það til þess að styrkja byggðina.

Samfylkingin hefur greinilega komist að sömu niðurstöðu nú og bæjarstjórn Vesturbyggðar fyrir um það bil áratug. Annað hvort er að gera þetta svona og ef til vill með skilyrðum um löndun og sölu á fiskinum í byggðarlaginu eða þá að setja byggðakvótann út til línubáta án endurgjalds sem viðbótar línuívilnum, með þá sambærilegum skilyrðum.

Leið en ekki lausn

Uppboðshugmyndin er leið að niðurstöðu, en ekki lausn á þeim vanda sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna er að draga fram. Byggðakvótinn er aðeins um 12.000 þorskígildi af um 400.000 sem eru úthlutað árlega í öllum kvótabundnu tegundum eða um það bil 3%. Byggðakvótinn er einmitt til þess að lina þjáningarnar af kvótakerfinu sjálfu og gera hagsmunaaðilum kleift að halda því óbreyttu. Hann er eins og ópíum fyrir fólkið.

Auðvitað fer því fjarri því að það dugi að koma á sanngirni að breyta aðeins ráðstöfun byggðakvótans. Það getur ekki mætt framkomnum athugasemdum. Það verður að ráðasta að rót vandans, sem er úthlutun 97% veiðiheimildanna. Ég skil varfærna nálgun Samfylkingarinnar nú þannig að verið sé að kanna hvernig Sjálfstæðisflokkurinn bregst við tillögunum áður en lengra er haldið. Kannski er það skiljanlegt að Samfylkingin vilji ekki tefla stjórnarsamstarfinu í hættu á þessu stigi , en að því mun koma að umræðan verður um grundvöll málsins. Þá fer lausnin að nálgast.

Grein í 24 stundum í dag.

Athugasemdir