Framboð gegn stjórnarandstöðunni

Pistlar
Share

Eftir langa mæðu og margar yfirlýsingar sem ekki stóðust var loks haldinn blaðamannafundur til þess að kynna nýtt stjórnmálaframboð Ómars og Margrétar. Þar kom fram að flokkurinn er ekki til, stefnuskráin liggur ekki fyrir, framboðslistar verða kannski kynntir fyrir páska, en forsprakkarnir hafa skipað sig í embætti formanns og varaformanns bráðabirgðastjórnar. Það voru einu nýju fréttirnar.

Og þó, aðspurð um mögulega stjórnarmyndun kom fram skv. ruv.is að "Ómar og Margrét vilja hvorki segja af né á um stjórnarmynstur eftir kosningar. Enginn flokkur virðist útilokaður nema þá helst Frjálslyndi flokkurinn".

Nú er staðan þannig að kjósendur virðast vera komnir á þá skoðun að rétt sé að ríkisstjórnin sem setið hefur í 12 ár fái hvíldina og að stjórnarandstaðan taki við. Nánast í öllum skoðanakönnunum eru stjórnarandstöðuflokknarnir með öruggan meirihluta atkvæða.

Þá telja Ómar og Margrét óhjákvæmilegt að bregðast við með nýjum flokki til þess að koma í veg fyrir að stjórnarandstaðan komist til valda. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem flokkur er stofnaður beinlínis gegn stjórnarandstöðunni með þeim rökstuðningi að koma þurfi í veg fyrir að stjórnarflokkarnir komi fram aðalstefnumáli sínu.

Hvernig á koma einhverju viti í þessa röksemdafærslu?

Miðað við fréttina í Ríkisútvarpinu sem vitnað er í að ofan þá kemur til greina að nýi flokkurinn starfi með ríkisstjórnarflokkunum. Þá hlýtur að vera spurt: við hvaða aðstæður vilja ríkisstjórnarflokkarnir frekar vinna með nýja flokknum í þriggja flokka stjórn en t.d. Sjálfstæðisflokkurinn með Samfylkingu eða Vinstri grænum í tveggja flokka stjórn?

Svarið er einfalt: þegar Íslandshreyfingin gefur meira eftir í stóriðjumálunum en stjórnarandstöðuflokkarnir. Sá möguleiki er greinilega ekki útilokaður af hálfu forystumanna flokksins væntanlega.

En sérstaka athygli vekur að í frétt Ríkisútvarpsins segir að það sé helst Frjálslyndi flokkurinn sem sé útilokaður frá samstarfi við Íslandshreyfinguna. Þá verður enn spurt: af hverju? Svarið við þeirri spurningu er líka ofureinfalt: Margrét Sverrisdóttir tapaði varaformannskosningu í Frjálslynda flokknum.

Líklega mun framboðið minnst áhrif hafa á gengi Frjálslynda flokksins úr því sem komið er, en trúlega hreyfir það frekar við fylgi félaga okkar frjálslyndra í stjórnarandstöðunni. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur löngum reynst fast og seinlegt að slíta það af flokknum og mig grunar að svo muni reynast að þessu sinni.

Niðurstaða mín er því sú að framboðið nýja beinist einkum gegn stjórnarandstöðunni. Er nema von að Morgunblaðið gleðjist. Það sér að enn er von fyrir áframhaldandi stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, þegar öll sund virtust lokuð.

Eitt get ég ekki stillt mig um að nefna að lokum. Margrét nefndi í einu viðtalinu að hún vonaðist til þess að eftirspurn yrði eftir fersku framboði með nýju fólki og gagnrýndi litla endurnýjun á framboðlistum annarra flokka. Margrét getur tæpast talist ný og fersk í stjórnmálum, enda hefur hún verið í framboði í öllum kosningum sem sögur fara af síðasta áratuginn – án árangurs. Hið sama má segja um Jakob Frímann, Stuðmann með meiru.

Í blálokin – af hverju varð Margrét Sverrisdóttir ekki formaður?

Athugasemdir