Stjórnarskrárspilið

Pistlar
Share

Fyrir tveimur vikum rýndi ég í stöðu stjórnarflokkanna varðandi efndir á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. En þar er kveðið á um að setja í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindum sjávar. Mér sýndist augljóst mál að hagsmunir kvótaeigendanna yrðu látnir ráða og þess vegna yrði ekkert af efndum. Spáin var svona:

"Mér finnst líklegast að stjórnarflokkarnir ætli sér að koma fram með tillögu að ákvæði í stjórnarskrána sem ekki kveður afdráttarlaust um eignarhald þjóðarinnar að auðlindinni og að auki þrengir möguleika Alþingis frá því sem nú er til þess að breyta kvótakerfinu eða afnema það. Með öðrum orðum nota sjónarspilið til þess að þjóna hagsmunum LÍÚ en undir öðru yfirskyni".

Segja má að þetta hafi komið á daginn. Frumvarp var flutt tveimur dögum síðar og það orðað einmitt eins og ég spáði. Það var opinberað sérstaklega í áliti tveggja lögfræðinga á þessu sviði, sem var lagt skriflega fyrir sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál, en ég sótti fundi nefndarinnar þessa daga fyrir Frjálslynda flokkinn. Það eru þau Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson. Þau hafa bæði fjallað um þetta efni og Eiríkur átti t.d. sæti í auðlindanefnd stjórnmálaflokkanna, sem fulltrúi Framsóknarflokksins, en hún starfaði á árunum 1999 og 2000. Sú ágæta nefnd lagði m.a. að sett yrði í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindunum og kom með nákvæmt og vel ígrundað orðalag á ákvæðinu.

Ríkisstjórnarflokkarnir vildu auðvitað ekki nota þá tillögu heldur komu með aðra útgáfu, sem þegar að var gáð þjónaði því markmiði ráðherranna að gera þjóðareignarákvæðið óskýrt og óljóst en styrkja verulega í sessi réttarstöðu útvegsmanna til eignar á fiskveiðiheimildunum. Þegar þetta lá ljóst fyrir viku síðar eftir yfirferð sérnefndar Alþingis með umsagnaraðilum ákvað stjórnarmeirihlutinn að slá málið af fremur en að breyta frumvarpinu þannig að það yrði í samræmi við yfirlýst markmið ráðherranna.

Það var einmitt lóðið að ætlunin var í reynd að þjóna útvegsmannahagmununum og fyrst ekki tókst að slá ryki í augun á fólki þá var það næstbesti kostur ríkisstjórnarinnar að hætta við málið og láta standa eftir í umræðunni ýmsar yfirlýsingar einstakra ráðherra og í greinargerð með frumvarpinu sem vinna heldur með eignarréttarkröfu kvótaeigendanna.

Björg og Eiríkur benda á að þjóðareignarákvæði frumvarpsins séu það óljós að ekki vinnist með þeim að festa þjóðareignina í sessi í eitt skipti fyrir öll. Þau draga fram þann alvarlega ágalla frumvarpsins að verði það fest í stjórnarskrá þá veiki það gildandi ákvæði laganna um stjórn fiskveiða sem beinlínis var sett til þess að fyrirbyggja að úthlutun veiðiheimilanna myndi leiða til þess að eignarréttur eða óafturkallanlegt forræði útvegsmanna skapaðist með tímanum.

Þá var sjónarspilið orðið öllum ljóst þegar þetta lá fyrir. Það má heita víst að stjórnarflokkarnir hafi fengið álit Eiríks Tómassonar og ef til vill fleiri sérfræðinga á frumvarpinu meðan það var í smíðum og þess vegna vitað hvað þeir voru að gera. Það ættu menn að athuga.

Fyrir lá að stjórnarandstöðuflokkarnir voru tilbúnir að ræða breytingar á frumvarpinu á þann veg að yfirlýstum tilgangi yrði náð og Frjálslyndi flokkurinn lagði strax fram sínar tillögur við 1. umræðu málsin sá Alþingi. Þar var t.d. kveðið skýrt á um að afnotarrétturinn væri tímabundinn og að greiða yrði gjald fyrir hann.

En stjórnarflokkarnir slógu málið af áður en nokkuð var farið að ræða breytingar. Enda stóð það aldrei til, annað hvort færi málið í gegn eins og það var lagt fram eða að ekkert yrði gert.

Athugasemdir