Að breyta þenslu í verðbólgu

Pistlar
Share

Í febrúar var umfjöllun í Fréttablaðinu um skýrslu Þóru Helgadóttur hjá Kaupþingi. Skýrslan ber heitið að breyta þenslu í hagvöxt. Þóra setur fram þá skoðun sína að sprengingin sem varð í fyrra í fjölda erlendra starfsmanna hafi dregið úr verðbólgu og sparað meðalfjölskyldunni um 123 þúsund krónur af því að verðbólgan varð "aðeins" 7% í stað þess að verða 8,5% sem Þóra telur að annars hefði orðið.

Rökin er einhvern vegin svona: þenslan í hagkerfinu býr til fjölmörg störf, ekki eru til nógu margir hér á landi til þess að vinna þau og því verður til eftirspurn eftir vinnuafli sem þrýstir laununum upp. En með því að fá 11.000 erlenda starfsmenn verður hækkun launa minni en annars hefði orðið og þar með verður verðbólgan minni og útgjöld heimilanna, einkum vextir og verðbætur, verða minni en annars hefði orðið. Þannig fær Þóra sparnað sinn upp á 123 þúsund krónur fyrir meðalfjölskylduna.

Ég get ómögulega verið sammála þessari röksemdarfærslu. Ég sé engan sparnað í því fyrir meðalfjölskylduna að verðbólgan varð 7% í stað 2,5% eins og verðbólgumarkmið stjórnvalda var fyrir það ár. Þvert á móti urðu útgjöldin meiri en átti að vera og ef það er rétt hjá Þóru að 1,5% verðbólga kosti heimilin 123 þúsund krónur, þá kosta 4,5% þrisvar sinnum meira eða um 370 þúsund krónur. Með öðrum orðum þenslan kostaði meðalfjölskynduna um 370 þúsund krónur á síðasta ári.

Þegar litið er til verðbólgunnar á kjörtímabilinu, þá hefur hún verið um 8% hærri en til stóð, einmitt vegna þenslunnar. Það gera um 100 milljarða króna, sem heildarskuldir heimilanna eru hærri nú en hefði orðið ef verðbólgumarkmiðin hefðu staðist. Andvirði einnar Kárahnjúkavirkjun hvílir á heimilunum vegna þenslunnar, sem bankarnir, þar með talinn Kaupþingsbankinn, bera að miklu leyti ábyrgð á.

Það eru eiginlega miklu betri rök, að ef ekki hefði verið aðgengi að erlendi vinnuafli eftir þörfum, þá hefði þenslan aldrei getað orðið í þeim mæli sem varð, vegna skorts á vinnuafli. Framkvæmdum hefði orðið að dreifa á fleiri ár eða fresta og þar af leiðandi hefði verðbólgan ekki náð þeim hæðum sem varð. Skorturinn á vinnuaflinu hefði sett efnahagslífinu skorður sem héldu aftur af verðbólgunni og á því hefðu allir haft ávinning.

Svo gott sem takmarkalaus aðgangur að vinnumarkaði hér á landi fyrir þá sem búa innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur ekki reynst skuldsettum heimilum vel vegna verðbólgunnar. Það er hlutverk stjórnvalda að stjórna efnahagsmálum þannig að stöðugleiki verði. Til þess að það takist verður að hafa stjórn á lykilþáttum með beinum eða óbeinum hætti. Einn þátturinn er framboð á atvinnu.

Að lokum til umhugsunar. Til landsins komu nettó um 8.000 erlendir starfmenn í fyrra, á fyrsta ári opins vinnumarkaðar eftir stækkum Evrópusambandsins. Bretar voru í sömu sporum fyrir tveimur árum. Það varð sprenging hjá þeim, eins og okkur, í nettófjölda erlendra starfsmanna sem komu til Bretlands, þeim fjölgaði úr 14.000 í 73.000.

Þegar tekið er tillit til höfðatölu þá samsvarar 73.000 manns til Bretlands aðeins 365 manns hér á landi, en fjöldinn varð 8.000 eins og fyrr er getið. Fjöldinn varð 22 sinnum meiri á Íslandi en hjá Bretum og þótti þeim þó alveg nóg um.

Athugasemdir