Fljótt leið þetta árið, viðburðarríkt eins og oft áður. Haustið gott en sumarið misjafnt að gæðum. Ég vil þakka samstarfið öllum þeim sem ég átti samskipti við á árinu og senda þeim óskir um gott og gæfuríkt nýtt ár og hugsa gott til samstarfs á nýju ári. Í stjórnmálunum eru alltaf næg verkefni ef áhuginn er fyrir hendi til þess að sinna þeim. Framundan eru alþingiskosningar og þá verður kjörtímabilið gert upp og línur lagðar fyrir næstu 4 ár.
Ég hef lagt mig fram um að vinna í samræmi við þá stefnu sem ég bauð mig fram fyrir og hef starfað samkvæmt samstarfssáttmála stjórnarflokkanna. Ég hygg að engin dæmi megi finna þar sem ég hef vikið frá stuðningi við þau ákvæði, þótt ég hafi ekki verið þeim öllum fyllilega sammála. Engu að síður hefur þetta kjörtímabil verið viðburðarríkt vegna ágreinings sem hefur risið í nokkrum málum og ber þar hæst stuðningur Íslands við innrásina í Írak, fjölmiðlamálið og fyrirhuguð einkavæðing Ríkisútvarpsins.
Þau mál voru ekki hluti af stjórnarsáttmálanum og engar flokkssamþykktir liggja fyrir til stuðnings við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í þessum málum hef ég fylgt því sem ég tel rétt og tel mig hafa fullan rétt til þess. Í stórum málum sem þessum verða flokkarnir að vinna í samræmi við stefnu sína og skuldbindingar við kjósendur og félagsmenn. Fráleitt er að fáir og stundum örfáir taki sér allt vald og gefi út tilkynningar um ákvörðun stjórnvalda og ætli þingmönnum að vera í hlutverki fótgönguliða sem styðji og verji ákvörðunina út yfir gröf og dauða.
Þingmenn sem gangast við slíku hlutverki eru að bregðast kjósendum, gengisfella Alþingi og veikja lýðræðið. Eitt sinn var kjörorð formanns Sjálfstæðisflokksins – gjör rétt, þol ei órétt. Í því felst að menn eiga að þekkja muninn á réttu og röngu og gera það rétta, hvað sem líður vilja einhverra forystumanna og það sem er jafnmikilvægt að þola ekki órétt. Það er einmitt ekki hlutverk alþingismanna að verja sinn mann hvað sem hann gerir, rétt eins og einn þingmaðurinn sagði svo eftirminnilega um daginn í sjónvarpsþætti. Sá þingmaður þoldi og varði órétt árum saman vitandi vits.
Í kjörorðinu felst að trúnaðurinn á að liggja við hugsjón og hugmyndir og vera ofar trúmennsku við duttlungafullar persónur. Segja má að ég hafi í raun unnið eftir þessu kjörorði fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins en verið legið á hálsi fyrir eins og kunnugt er. Á þessu þarf að verða breyting. Alþingismenn eru kjörnir af þjóðinni og hafa umboð hennar ólíkt því sem á við um ráðherra. Þingmenn eiga að tala fyrir kjósendur sína og láta það koma fram við meðferð og afgreiðslu mála á Alþingi. Þar er vettvangurinn. Það þarf að styrkja lýðræðislega stjórnarhætti.
Þessi mál verða gerð upp í komandi kosningum ekki síður en önnur mikilvæg mál svo sem á sviði efnahagsmála, atvinnu- og samgöngumála eða varðandi jöfnuð í þjóðfélaginu svo fátt eitt sé nefnt. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að svo verði og mun ekki leggja árar í bát. Það er engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af pólitískri heilsu minni meðan áhuginn er enn brennandi og þrekið til staðar.
Athugasemdir