Breska þingnefndin stóðst prófið – Morgunbl. 23. des. 2006

Greinar
Share

Fyrir nokkru var birtur opinberlega vitnisburður Carne Ross , eins af aðalsamningamönnum bresku ríkisstjórnarinnar við Sameinuðu þjóðirnar í aðdraganda Íraksstríðsins, sem hann gaf sumarið 2004 fyrir rannsóknarnefnd Butlers lávarðar. Fram höfðu komið ásakanir þess efnis að ríkisstjórnin hefði gert of mikið úr fyrirliggjandi upplýsingum í aðdraganda stríðsins í þeim tilgangi að réttlæta innrásina og þátttöku Breta í henni. Butler nefndin var sett á fót til þess að rannsaka þær ásakanir.

Ross var fyrsti ritari sendinefndar Breta hjá Sameinuðu þjóðunum og fór sérstaklega með málefni Íraks. Í skriflegum vitnisburði hans til Butler nefndarinnar upplýsti hann að fyrir innrásina hefði það legið fyrir að engar upplýsingar væru til um gereyðingavopnaeign Íraka fyrir innrásina og ennfremur að engin áform hefðu verið af hálfu Íraka um að ráðast á nágrannaríki sín eða Bretland og Bandaríkin. Ross sagði skýrt og skorinort að Blair hlyti að hafa vitað af þessu og benti m.a. á að breska ríkisstjórnin hefði aldrei haldið því fram fyrir Sameinuðu þjóðunum, meðan Ross var þar, að vopnaeign Íraka ógnaði Bretlandi eða hagsmunum þess.

Þetta gengur í berhögg við málflutning forsætisráðherrans á þeim tíma, en hann hélt því fram innrásin í Írak væri lögmæt vegna þess að Saddam ætti gereyðingarvopn sem hægt væri að gera klár á 45 mínútum eða skemmri tíma það og það ógnaði breskum hagsmunum. Breska blaðið Independent gengur svo langt í frétt um málið þann 15. desember sl. að fullyrða að vitnisburður Ross sýni fram á að Tony Blair hafi logið til um vopnaeign Saddams Hussein og er varla hægt að mótmæla þeirri staðhæfingu.

Þessu til viðbótar kemur fram í vitnisburði Ross að breskir embættismenn hafi fyrir innrásina ítrekað varað bandaríska diplómata við því að stjórnleysi og óöld myndi fylgja því að hrekja Saddam Hussein frá völdum, eins og komið hefur á daginn.
Með öðrum orðum, þeir sem best þekktu til innan breska stjórnkerfisins vissu að engin gereyðingarvopn voru til í Írak og gerður sér grein fyrir afleiðingum þess að ráðast inn í landið og steypa ríkisstjórninni. Þessari vitneskju var komið til ráðamanna bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Samt var innrásin gerð og hún studd rökum sem vitað var að væru ósönn.

Ross hefur til þessa ekki greint opinberlega frá þessu vegna hótana breska utanríkisráðuneytisins um að hann yrði annars kærður fyrir brot á lögum um ríkisleyndarmál . Ross var hins vegar tilbúinn að láta vitnisburð sinn af hendi við utanríksmálanefnd breska þingsins, að því tilskyldu að hann yrði ekki ákærður með skírskotun til friðhelgi þingsins.

Þingnefndin var í þeirri stöðu að velja á milli þess að verja forsætisráðherrann og koma í veg fyrir að almenningur fengi að vita af ósannindunum eða að gæta almannahagsmuna og sjá til þess að almenningur fengi réttar upplýsingar. Það má kannski orða svo að þingmennirnir í nefndinni urðu að gera það upp við sig hvort þeir ætluðu að verja sinn mann eða þjóna almenningi. Ganga í takt og tala einum rómi. Spila í liðinu með Blair og taka þátt í því að spila með breskan almenning. Eða að opinbera upplýsingarnar þótt óþægilegar væru.

Meirihluti þingnefndarinnar er að sjálfsögðu úr stjórnarflokknum, Verkamannaflokknum og formaður nefndarinnar, sem Independent kallar „government loyalist“ vildi íhuga málið vel og vandlega en annar þingmaður nefndarinnar úr sama flokki var ósammála og beitti sér fyrir því að nefndin fengi vitnisburðinn og að hann yrði svo gerður opinber. Eftir lokaðan fund í nefndinni, þar sem mikið mun hafa gengið á að sögn breska blaðsins, varð niðurstaða nefndarinnar að afla sér vitnisburðar Ross og birta hann á netinu.

Þingnefndin stóðst prófið, þingmennirnir gættu almannahagsmuna, en ekki hagsmuna forystumanna stjórnarflokksins sem voru búnir að koma sér í vandræði. Af þessu fordæmi Breta geta ýmsir lært þarfa lexíu.

Athugasemdir