Alcan bíður og hótar

Pistlar
Share

Alcan á Íslandi vill fá að stækka verksmiðju sína í Hafnarfirði verulega og auka framleiðslu fyrirtækisins úr 180 þúsund tonn á ári upp í 460 þúsund tonn. Fyrirtækið hefur náð samningum við orkusölufyrirtæki um raforkuverð. Lýðræðið hefur greinilega sett áform fyrirtækisins í nokkurn vanda. Bæjarstjórnin í Hafnarfirði hefur ákveðið að íbúarnir eigi að hafa úrslitaáhrif á það hvort stækkunin verði samþykkt. Að undanförnu hefur mátt fylgjast með tilraunum fyrirtækisins til þess að hafa áhrif á almenningsálitið í Hafnarfirði, t.d. með því að styrkja tónleikahald og gefa íbúunum geisladisk í jólagjöf.

Þá bárust fréttir af samkomulagi milli fyrirtækisins og bæjarins og ríkisstjórnarinnar um breytingar á samningi um skattgreiðslur fyrirtækisins sem yrðu lagðar fyrir Alþingi á nýju ári og munu færa bænum um 800 milljónum kr. í auknar tekjur árlega. Það fer ekki milli mála að Alcan hefur náð hagstæðum samningum um raforkukaupin fyrst fyrirtækið er tilbúið til þessara útgjalda. Ég velti því fyrir mér hvort þetta hefði gerst ef íbúalýðræðið hefi ekki komið til. Kannski en bara kannski.

Merkilegar fréttir eru í tveimur blöðum í dag sem varða Alcan. Í Fréttablaðinu kemur fram hjá upplýsingafulltrúa fyrirtækisins að svo geti farið að álverinu verði lokað ef stækkunin í Straumsvík verður ekki samþykkt. Þetta verður ekki skilið öðruvísi sen sem létt hótun, ef ekki verði þegið það sem í boði er þá fáist ekkert.

Í Viðskiptablaðinu í dag er önnur frétt um Alcan þar sem fram kemur að óvissa sé um stækkun álbræðslu félagsins í Kitimat í Bresku Kólumbíu í Kanada í kjölfar þess að yfirvöld þar í landi töldu að samningur milli fyrirtækisins og orkufyrirtækis í fylkinu um orkusölu væri ekki í almannaþágu. Viðskiptablaðið greinir frá því að Alcan hafi hótað því að leggja meiri áherslu á álframleiðslu á Íslandi og Suður Afríku næðist ekki viðunandi samkomulag um stækkunina.

Það eru sem sé hótanir báðum megin Atlantshafsins. Það kom ekki fram hjá upplýsingafulltrúanum hvert framleiðslan á Íslandi yrði flutt. Kannski til Bresku Kólumbíu í Kanada?

Athugasemdir