Kosningaloforð í ráðherranafni – 8 milljarðar króna

Pistlar
Share

Í síðustu viku var undirritaður samningur milli menntamálaráðherra og Háskóla Íslands um sérstakar fjárveitingar til skólans úr ríkissjóði næstu fimm árin, til kennslu og rannsókna. Í fjárlögum þessa árs var bætt við 300 milljónum króna og samkvæmt samningnum á að hækka fjárveitingarnar næstu fjögur ár þannig að á hverju ári verði þær um 640 mkr. hærri en árið á undan. Í lok samningstímans árið 2011 verða fjárveitingarnar þannig nærri 2900 milljónum króna hærri en árið 2006. En kostnaður ríkisins verður samtals nálægt 8 milljörðum króna á þessum fimm árum, verðbætt, en það er samanlögð fjárhæð viðbótarframlaganna.

Nú ætla ég ekki að fjalla um samningsefnið, það bíður betri tíma og þess að ráðherrann kynni málið fyrir Alþingi, að öðru leyti en því, að það er vel að fjárveitingar til Háskólans eru teknar til endurskoðunar og horft til þess að styrkja kennslu og rannsóknir og fyllsta ástæða er til þess að taka málið fyrir á Alþingi. En það er samningurinn sjálfur og kynningin á honum sem mér finnst ástæða til að taka fyrir í þessum pistli.

Í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir "framlög skólans voru hækkuð um 300 milljónir króna á fjárlögum 2007 í tengslum við samninginn. Rannsóknarframlög til skólans munu hækka um 640 milljónir króna árlega á tímabilinu 2008-2011 og hafa þá hækkað um tæpa þrjá milljarða í lok samningstímabilsins, árið 2011". Á þennan veg hafa fréttir fjölmiðla af samningnum verið, að málið sé klappað og klárt, ákvörðun og undirskrift ráðherra liggi fyrir.

En ekki er allt sem sýnist. Samningurinn hefur ekki verið kynntur á Alþingi og þar liggur fjárveitingarvaldið. Einhverra hluta vegna varð viðbótarframlagið í fjálögunum fyrir 2007 aðeins 300 milljónir króna en ekki 640 milljónir króna. Hvers vegna var það? Einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því. Þá er það spurningin hvernig efndir verði með þær 7600 milljónir sem lofaðar eru í samningnum næstu fjögur árin einmitt í ljósi afgreiðslu fjárlaga 2007.

Þegar samningurinn er skoðaður kemur nefnilega í ljós, það sem gleymdist alveg að segja frá í fréttatilkynningu og umfjöllum fjölmiðla, að hann er undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis um fjárveitingar á ári hverju. Það er lóðið. Ráðherra getur ekki samið fjárlög íslenska ríkisins næstu fjögur árin með einni undirskrift, fjárveitingarvaldið liggur hjá Alþingi. Samningurinn er þegar allt kemur til alls aðeins viljayfirlýsing. Pólitísk yfirlýsing ráðherrans og eftir atvikum ríkisstjórnarinnar um aðgerðir eftir að umboði þeirra lýkur.

Slíkar yfirlýsingar eiga frekar heima í kosningastefnuskrá flokkanna og mér finnst það gagnrýnivert þegar ráðherrar leika þennan leik og blanda saman stöðu sinni sem ráðherrar og frambjóðendur. Umræddur samningur hefur hvorki verið kynntur né samþykktur í stjórnarflokkunum, svo mér sé kunnugt um. Vilji ráðherrann hrinda ákvæðum samningsins í framkvæmd á hann að snúa sér til Alþingis og leggja fram frumvarp. Geri hann það ekki er ekkert fast í hendi. Næsta ríkisstjórn er ekki skuldbundin.

Þær eru margar viljayfirlýsingarnar sem reynast lítils virði þegar á reynir, svo sem dæmin sanna. Jafnvel viljayfirlýsingar Alþingis sjálfs í formi vegaáætlunar voru þunnar í roðinu þegar til efndanna kom og nægir að minna á hina metnaðarfullu vegaáætlun sem samþykkt var fyrir síðustu Alþingiskosningar en var svo skorin sundur og saman eftir kosningarnar eins og minnungir kjósendur muna kannski.

Athugasemdir