Íslendingar eru komnir í þrældóm hinnar nýju greifastéttar, fjármálagreifanna. Þeir eru afsprengi einkavæðingar bankanna, hafa fullt og ótakmarkað frelsi til þess að verðleggja peningalánin á lokuðum markaði, þar sem samkeppnin um viðskipti einstaklinganna er meira grín en veruleiki. Aðeins í húsnæðislánum er einhver samkeppni fyrir tilstuðlan Íbúðalánasjóðs sem veitir viðskiptabönkunum aðhald. Enda beinast sameinaðir kraftar fjármálagreifanna að því að koma sjóðnum fyrir kattarnef. Samkeppni er glæpur gæti Orvell hafa sagt í anda bókarinnar frægu1984.
Útrásarvíkingarnir okkar, fjármálasnillingarnir, hafa lagt undir sig hvert landið á öðru og keypt, rekið og selt fyrirtæki með miklum ágóða. Þeir hafa slegið við hinum erlenda fjármálaheimi og sýnt yfirburði í kunnáttu og færni. En þeir geta ekki boðið íslenskum almenningi peninga að láni fyrir sambærilegt verð og þeir bjóða almenningi erlendis. Þar sem er samkeppni standa íslensku peningamennirnir sig best, en heima fyrir vilja þeir ekki samkeppni og eru mestu okrarnir sem skýrslur segja frá.
Neytendasamtökin létu gera skýrslu á síðasta ári um fjármagnskostnað í 10 Evrópulöndum. Þar var Ísland langdýrast, raunvextir voru 2 – 5% hærri en í hinum löndunum níu. Þarna liggja miklir peningar, séstaklega þar sem Íslendingar eru skuldugri en aðrar þjóðir. Heildarskuldir heimilanna hafa vaxið um 43% á þremur árum frá 2002 til ársloka 2005. Aukningin ein og sér nemur 324 milljörðum króna. Í heildina skulda heimilin 1.083 milljarða króna. Sú fjárhæð er sem svarar öllum ráðstöfunartekjum heimilanna í rúmlega 3 ár.
Í nýjum upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er að finna athyglisverðar tölur. Í febrúarlok voru meðalvextir 16,2% á óverðtryggðum skuldabréfum banka og sparisjóða. Verðbólgan síðastliðna 12 mánuði var 4,5%. Raunávöxtun á almennum skuldabréfalánum bankanna var á síðasta ári 10,7% á óverðtryggðum bréfum og 7,2% á verðtryggðum. Í Bandaríkjunum eru óverðtryggðir langtímavextir 4,6%, í Bretlandi 4,3% og aðeins 3,3% í Evrulöndunum 12. Á Norðurlöndunum eru þessir vextir 3,2-3,4%. Hverjir eru að borga útrásina? Er það kannski íslenskur almenningur með þessum okurvöxtum?
Miðað við 2% mun á raunvöxtum eru heimilin hér á landi að borga um 22 milljarða króna á hverju ári af skuldum sínum, umfram það sem væri erlendis, en um 54 milljarðar króna ef miðað er við 5% mun. Þetta er aukakostnaður almennings, skatturinn til fjármálagreifanna íslensku, sem þarf að greiða á hverju ári af þessum skuldum vegna samtryggingar fjármálafyrirtækjanna. Almenningur er í vaxtaþrældóm fjármálagreifanna. Miðað við að um 75% þjóðarinnar greiði skuldirnar þá gerir þetta frá 100 þús. kr. upp í 240 þús. krónur á ári í viðbótargreiðslu fyrir hvern greiðandi einstakling. Til þess að standa undir vaxtaskattinum þarf að hafa 160 – 400 þúsund krónur í viðbótarlaun. Átti ekki einkavæðing bankanna að bæta lífskjör almennings?
Athugasemdir