Þjórsárver verði friðuð.

Pistlar
Share

Síðustu daga hefur verndum Þjórsárvera verið til umræðu í fjölmiðlum. Fréttablaðið kannaði í síðustu viku afstöðu nefndarmanna í umhverfisnefnd Alþingis og komst að því að meirihluti þeirra væru hlynntir friðun veranna og andvígir frekari framkvæmdum á svæðinu. Ég er einn nefndarmanna og lýsti þeirri skoðun minni að leggja ætti á hilluna öll áform um Norðlingaölduveitu.

Það varð tilefni til einkennilegs fréttamats blaðamanns á Blaðinu, dagblaðs sem kemur út á höfuðborgarsvæðinu. Skrifaði hann frétt um að ég hefði gengið til liðs við stjórnarandstöðuna og hefði sagt skilið við Framsóknarflokkinn í málinu. Blaðamaðurinn hafði ekki fyrir því að útskýra fyrir lesendum blaðsins hvers vegna hann teldi að stjórnarandstaðan ætti þá skoðun að friða beri Þjórsárver. Honum fannst greinilega að framsóknarmaður gæti ekki haft þessa skoðun nema að ganga þá til liðs við stjórnarandstöðuna.

En staðreyndin er hins vegar sú að innan Framsóknarflokksins eru margir sem vilja láta gott heita í áformum um frekara rask og friða verin. Til marks um það þá var flutt tillaga á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, sem haldin var fyrir tæpu ári, um friðun Þjórsárvera. Auk mín var flutningsmaður Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins.

Tillaga var svohljóðandi:

Flokksþingið samþykkir að stækka friðlandið í Þjórsárverum og friða alla þá landslagsheild sem þeim tilheyrir. Hætt verði við öll áform um frekari virkjanir á því svæði og gildir einu hvort átt er við stíflur, skurði eða veitur.

Með tillögunni fylgdi eftirfarandi greinargerð:

“Fyrirhuguð áform um Norðlingaölduveitu og viðbótaframkvæmdir í samræmi við úrskurð setts Umhverfisráðherra verður að skoða í ljósi þess að stækkun álvers í Hvalfirði var í uppnámi ef ekki fengist sú orka sem með framkvæmdunum fæst. Nú er staðan önnur, framkvæmdir á Hellisheiði hafa leyst vandann. Er því eðlilegt að málið verði athugað að nýju.

Landslagsheild Þjórsárvera nær langt út fyrir núverandi mörk friðlands og hefur verið á það bent að þau eru beinar línur sem hafa verið dregnar með tilviljunarkenndum hætti þvert yfir náttúrulega heildstæð svæði og ná hvorki yfir votlendið í heild né heldur til aðliggjandi eyðisanda og jökla.

Það er mat samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins samkvæmt nýlegri bókun að fyrirliggjandi áform um Norðlingaölduveitu feli í sér umfangsmiklar og óafturkræfar framkvæmdir á hálendi Íslands og það án þess að mat verði gert á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild.

Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á því að Landvernd fékk tvo erlenda sérfræðinga, Jack D. Ives og Roger Croft, til þess að meta alþjóðlegt verndargildi Þjórsárvera. Þeir eru kunnugir íslenskum aðstæðum og veittu m.a. umsögn þegar Þingvellir voru teknir til Heimsminjaskrár. Báðir telja þeir náttúruverndargildi Þjórsárvera afar hátt, jafnt á landsvísu sem alþjóðlega og líta sérstaklega til þess landslags sem umlykur svæðið. Þeir telja að núverandi mörk friðlandsins séu algerlega ófullnægjandi og endurspegli ekki þau verðmæti sem er að finna á svæðinu. Báðir leggja þeir áherslu á mikilvægi Hofsjökuls fyrir svæðið og telja að hann ætti að njóta friðunar sem og gljúfrin með fossunum í Þjórsá að Sultartangalóni. Þá telja þeir að áformuð mannvirki hafi afar neikvæð áhrif á náttúru og landslag. Loks skal nefnt að þeir telja vel hugsanlegt að svæðið geti komið til greina á heimsminjaskrá UNESCO verði því ekki raskað frekar og verndarsvæðið stækkað”.

Tillagan hlaut verulegar undirtektir en varð þó ekki samþykkt að þessu sinni, enda beittu sér gegn tillögunni áhrifamenn á borð við Iðnaðarráðherra og aðstoðarmann forsætisráðherra og núverandi frambjóðanda í 1. sæti á lista framsóknarmanna fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Engu að síður er tillöguflutningurinn til marks um það að umhverfissjónarmiðin eiga stuðning innan flokksins og ég held því fram að hann hafi varið vaxandi þetta tæpa ár, sem liðið er frá flokksþinginu. Ég hugsa að frambjóðendum til borgarstjórnar Reykjavíkur við kosningarnar í vor þyki ekki vænlegt til fylgisöflunar að tala fyrir áframhaldandi áformum um Norðlingaölduveitu.

Það gerir efnistök blaðamanns Blaðsins enn einkennilegri að Samfylkingin hefur til þessa stutt Norðlinagölduveitu, greiddi götu þess að lögfesta úrskurð setts umhverfisráðherra í málinu og var fyrst í dag að kynna nýja stefnu sína á málinu sem er sú sama og ég talaði fyrir á flokksþinginu í fyrra ásamt Steingrími Hermannssyni. Alveg eins má segja að stjórnarandstaðan hafi gengið til liðs við okkur í Framsóknarflokknum. En auðvitað skiptir það ekki máli, aðalatriðið er hver afstaðan er nú og að fylgi við friðun Þjórsárvera fer hraðvaxandi.

Athugasemdir