Hjónavíglsuskilyrðin eiga að vera í hjúskaparlögum.

Pistlar
Share

Aðeins eru 12 ár síðan núverandi hjúskaparlög voru sett. Til marks um þá miklu breytingu sem orðið hefur á viðhorfum til samkynhneigðra síðan þá má nefna að þá var ekki minnst einu orði á þá í frumvarpinu sem lagt var fyrir Alþingi, engin tillaga kom fram um að útvíkka hjúskaparlögin þannig að þau tækju til samkynhneigðra og aðeins einn alþingismaður minntist á stöðu þeirra en hvorki lýsti skoðun sinni til þess né lagði neitt til.

Nú er boðuð tillaga á Alþingi við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á ýmsum lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra. Á breytingartillagan að afnema það skilyrði fyrir hjónavígslu að um karl og kona sé að ræða. Rökstuðningurinn er eitthvað á þá leið að lögin eigi ekki að binda hendur trúfélaga, heldur eigi þau hvert og eitt að ráða því hvort þau heimili hjónaband samkynhneigðra.

Vitað er að þjóðkirkjan er ekki fylgjandi því að heimila hjónavígslu samkynhneigðra, þótt vissulega séu þar innan einstaklingar sem því eru fylgjandi. Verði boðuð tillaga samþykkt mun enginn vandi verða leystur, heldur þvert á móti. Deilurnar innan þjóðkirkjunnar munu vaxa og harðna og frekar mun verða erfiðara að finna lausn. Ég tel það ekki heppilegt hvorki fyrir þjóðkirkjuna né þjóðfélagið að steypa mönnum í slík illindi. Þá er betra að fara hægar en hraðar og gefa sér tíma til þess ræða málið út frá öllum hliðum áður en lengra er haldið.

Raunar er það undrunarefni þegar ríkisstjórnin flytur frumvarp um aukin réttindi til handa samkynhneigðum er varða ættleiðingar, tæknifrjóvgun og sambúð með tilheyrandi réttarbótum á sviði almannatrygginga,félagsþjónustu, lífeyrissjóða, skattlagningu, barnalaga, erfðafjárlaga og fæðingarorlofs að þá skuli opinber umræða snúast eingöngu um það að hjúskaparlögunum sé ekki breytt.

Er þó gengið svo langt að kona í staðfestri samvist eða óvígri sambúð með annarri konu öðlast meiri rétt en kona í hjúskap hvað varðar rétt til tæknisæðingar með gjafasæði. Konan í hjúskap fær því aðeins að gangast í gegnum umrædda meðferð að frjósemi karlsins sé skert, hann sé haldinn alvarlegum erfðasjúkdóm eða að aðrar læknisfræðilegra ástæður mæla með notkun gjafasæðis. Í tilviki samkynhneigða parsins eru engin sambærileg skilyrði.

Þá finnst mér umhugsunarefni, svo ekki sé meira sagt, að barn sem getið er þeð þessum hætti eigi engan föður og geti aldrei átt föður, þar sem ekki verður heimilt að gefa upp nafn sæðisgjafa og að auki verður sæðisgjafa óheimilt að höfða barnsfaðernismál fyrir dómstól, ef hann vill síðar fá staðfestingu á faðerni.

Þá vil ég minna á sambúðarform sem í gegnum tiðina hefur verið algengara en sambúð samkynhneigðra og það er sambúð án ástarsambands, svo sem systkin, feðgin eða mæðgin eða jafnvel óskyldir aðilar sem kjósa að eyða ævinni saman a.m.k. að hluta. Spyrja má um hvort ekki eigi að viðurkenna það sambúðarform og heimila t.d. ættleiðingar, sameiginlega skattlagningu o.s.frv.

En það eru fleiri hjónavígsluskilyrði í hjúskaparlögunum en það sem kveður á um að karl og konaa megi stofna til hjúskapar og ef talið er rétt að afnema eitt þeirra, þá vaknar spurningin hvort ekki eigi að fjarlögja önnur skilyrði laganna fyrir hjúskap og láta trúfélögum hvert fyrir sig eftir að ákveða sín eigin skilyrði fyrir hjúskap.

Í lögunum eru 6 skilyrði, fyrir utan skilyrðið um karl og konu þá má nefna ákvæði um 18 ára lágmarksaldur, lögræði og skyldleika hjónaefnanna. Ég er ekki viss um að friður yrði um mismunandi framkvæmd trúfélaga á þessum ákvæðum. Sums staðar er heimilt að gefa saman kornungt fólk, jafnvel á barnsaldri. Og það þykir mér líklegt að mörgum þætti náið skyldleika gifting svo sem systkina eða kjörforeldri og kjörbarn giftist vera meira en þeir gætu samþykkt.

Eitt skilyrðið í hjúskaparlögunum er bann við því að vígja mann sem er í hjúskap og á það bann auðvitað við um bæði kynin. Nú eru til trúfélög sem heimila fjölkvæmi. Má þar nefna til mormónatrú og islam. Þau trúfélög myndu væntanlega vilja afnema bannákvæðið í hjúskaparlögunum. Eigum við þá að nota kemur mér ekki við röksemdafærluna og segja sem svo: þetta er málefni trúfélagsins?

Þessi atriði sem nefnd hafa verið sannfæra menn vonandi um það að þjóðfélagið varðar um hjónavígluskilyrðin, þau eru ekki einkamál hvers trúfélags og því verða skilyrðin að vera áfram í lögum. Hver þau eiga að vera nákvæmlega á hverjum tíma ræðst af almennum siðferðislegum gildum þjóðarinnar. Þess vegna þarf almenna umræðu í þjóðfélaginu til þess að leiða þau fram.

Athugasemdir