Hvað varð um bræðralagið?

Greinar
Share

Síðastliðinn laugardag sótti ég hátíð í Háskólabíó, sem haldið var af því tilefni að Alþýðusamband Íslands er 80 ára um þessar mundir. Hátíðin var hin besta, sambland af gamni og alvöru, fjölbreytt atriði sem Flosi Ólafsson kynnti á einstaklega græskulausan hátt og alvöruþrungið ávarp hins nýkjörna forseta sambandsins, Grétars Þorsteinssonar, sem kom vel til skila þeim þunga sem nú er í kröfum launafólks um réttlátari skiptingu á afrakstri vinnunar. Fyllsta ástæða er til þess að minnast stórafmælis Alþýðusambandsins. Sér í lagi að rija upp til hvers það er og hvað áunnist hefur í krafti þess. Alþýðusambandið er samband félaga sem félögin stofnuðu til þess að styrkja sig hvert og eitt með því að sækja styrk til annarra félaga. Í þessu sambandi varð til sameiginlegur vettvangur þar sem barist var fyrir kröfum og menn sáu að augljóslega gekk betur þannig heldur en meið hinni aðferðinni að hvert og eitt félag sótti fram og þá með kröfur fyrir sína félagsmenn einvörðungu. Stærstu og öflugustu félögin þurftu kannski síst á samfylkingunni að halda en fámennu félögin orkuðu lítt af eigin rammleik. Hinn stóri og sterki lagði mikinn styrk inn í samfylkinguna og hinn smái hafði lítið afl fram að leggja. En báðir nutu afrakstursins og til jafns. Bandalagshugmyndin sem Alþýðusambandið hvílir á er einmitt grundvölluð á bræðralaginu. Hinn sterki gefur af sér til hins veikari án skilyrða um að ávinningur sambandsins skiptist eftir afli. Bræðralagið er aðferðin sem best hefur dugað til þess að ná fram hinum pólitísku markmiðum sem felast í jöfnuði lífsgæðanna.

Einmitt nú á afmælisári Alþýðusambandsins er tilefni til þess að minna á árangur af starfi þess. Fullyrða má að grundvöllur nútímavelferðarkerfis hafi verið lagður með því að verkalýðsfélögin hafa beitt sér sameiginlega á vettvangi Alþýðusambandsins fyrir ýmsum réttindamálum og samið um þau við atvinnurekendur og ríkisvald. Margt má nefna svo sem almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og húsnæðismál. Er þá margt ónefnt en verkalýðshreyfingin hefur haft mikil áhrif á mótun heilbrigðisþjónustu og þróun menntamála svo getið sé um fátt eitt til viðbótar. Á sama hátt og sameiginlegur vettvangur hefur reynst best til framfara og uppbyggingar á velferðarþjóðfélagi er sá sami vettvangur heilladrýgstur þegar verja þarf það sem áunnist hefur. Á þeim umbrotatímum sem framundan eru og einkennast af glímu við atvinnuleysi, skuldum heimila og opinberra aðila og endurmati á opinberri þjónustu og hlutverki ríkisins er það óvéfengjanlegt að hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar er best gætt með því að styrkja sameiginlega vettvanginn, Alþýðusamband Íslands.

Því er ekki að leyna að mér hefur fundist að undanfarin misseri hafi nokkuð skort að foringjar helstu verkalýðsfélaga væru sammála um þetta markmið og að í of ríkum mæli hefur verið unnið að því að veikja Alþýðusambandið með því að vinna að sérhagsmunum á þrengri vettvangi. Það sem helst vakti athygli mína af fréttum sem bárust af þingi Alþýðusambandsins í síðustu viku styrkti frekar þessa skoðun mína en það var frétt um að ekki náði fram að ganga tillaga um að gjald það sem sérhvert félag greiðir ASÍ yrði miðað við tekjur félagsins af félagsmanninum en ekki föst upphæð pr. félagsmann eins og nú er. Það þýðir að þau félög sem hafa tekjuháa félagsmenn innan sinna vébanda greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til ASÍ en þau stéttarfélög sem eru fyrir láglaunamanninn. Afl stéttarfélaga láglaunafólksins til að vinna fyrir sína félagsmenn verður þar af leiðandi minna en stéttarfélög hálaunamannanna. Þau stéttarfélög þurfa því að reiða sig meira á Alþýðusambandið.

Þarna þykir mér skjóta skökku við, þeir sem stjórna tekjuháu stéttarfélögunum eru ekki reiðubúnir til þess að dreifa greiðslum stéttarfélaganna til ASÍ eftir efnahag þeirra, heldur vilj hlífa sér og leggja þyngri byrðar á tekjulægri stéttarfélögin. Ef við alþingismenn létum sama viðhorf ráða við skattlagningu þegnanna, til dæmis tekjuskatt, þá væri ekki farið eftir efnahag og tekjum greiðandans heldur væri skatturinn sama krónutala á hvern greiðanda. Hræddur er ég um að það þætti þjóðinni vond aðferð við að jafna út sköttum. Á sama hátt er krónutöluskattlagningin til ASÍ vond aðferð og óréttlát, sérstaklega þar sem sambandið er grundvallað á hinni hugsuninni sem felst í bræðralaginu. Er því von að spurt sé hvað varð um bræðralagið?

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins.

Alþýðublaðið 31. maí 1996

Athugasemdir