Landmælingar til Akraness

Greinar
Share

Í byrjun mánaðarins kynnti umhverfisráðherra þá ákvörðun sína að Landmælingar Íslands flytji starfsemi sína til Akraness.
Ákvörðun hans er byggð á stefnu ríkisstjórnarinnar um að dreifa opinberri stjórnsýslu, sem er sama stefna og síðasta ríkisstjórn
hafði, og síðasta ríkisstjórn hafði sömu stefnu og sú sem á undan henni var og þannig hefur það verið síðustu áratugi.

Ríkisstjórnirnar og þeir stjórnmálaflokka sem að þeim standa hverju sinni hafa talað fagurlega í eyru okkar landsbyggðarmanna og
heitið því að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og flytja í því skyni til okkar störf, einkum fyrir menntamenn, og þannig auka
fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar og styrkja það. En áratugum saman hafa börn okkar þurft að flytja suður til Reykjavíkur
til þess að afla sér menntunar og síðan að búa þar að námi loknu, því þar eru störfin en ekki annars staðar. Stærsti vinnuveitandi
menntafólksins er einmitt ríkið.

Hlutverk ríkisins?

Ég get ekki fallist á það að það sé hlutverk ríkisins að fjölga fólki í Reykjavík og fækka fólki á landsbyggðinni. Ég get ekki fallist á
það að það sé hlutverk ríkisins að búa til á landsbyggðinni samfélög einhæfra og fábreyttra starfa. Ég get ekki fallist á það að það
sé hlutverk ríkisins að stéttskipta þjóðfélaginu, þannig að í Reykjavík búi menntamennirnir og á landsbyggðinni búi verkamennirnir.

En nákvæmlega þetta hefur verið að gerast síðustu áratugi, einkum síðustu tvo áratugi, fyrst og fremst fyrir atbeina ríkisvaldsins.
Fyrirheit liðinna ríkisstjórna hafa ekki gengið eftir og þrátt fyrir góðan vilja einstakra manna tel ég að fagurgalinn hafi fyrst og
fremst verið blekking.

Ekki tillaga Guðmundar

Tillagan um að flytja Landmælingar út á land er ekki tillaga Guðmundar Bjarnasonar, núverandi umhverfisráðherra. Þetta er tillaga
7 manna nefndar, skipuð fulltrúum allra þingflokka, þar af 5 alþingismönnum. Nefndin var skipuð af forsætisráðherra og skilaði
nefndin af sér fyrir nákvæmlega 3 árum tillögum um að flytja 8 stofnanir út á land. Ein af þessum stofnunum var Landmælingar
Íslands og var lagt til að hún færi til Selfoss.

Allir nefndarmenn stóðu að tillögum nefndarinnar og allir nefndarmenn lögðu það til að flytja Landmælingar Íslands. Ég geri ráð
fyrir því að það breyti engu um afstöðu nefndarmanna þótt Akranes komi í stað Selfoss, enda er rökstuðningur nefndarmanna
þannig. Nefndarmenn kynntu sér málin vandlega, hlutverk stofnunarinnar, kostnað við flutning, hverjir þurfa að leita til
stofnunarinnar og þá þjónustu sem sveitarfélögin veita og hvernig komið verði til móts við þarfir starfsmanna, maka þeirra og börn.
Enn fremur kynnti nefndin sér gögn um flutning stofnana erlendis meðal annars í Svíþjóð og hver reynslan hefði verið. Tillögurnar
eru lagðar fram að vandlega athuguðu máli og tilgangurinn er að stuðla að íbúafjölgun út um land með fjölþættari
atvinnutækifærum.

Flautaþyrilspólitík

Einn nefndarmanna, Kristín Ástgeirsdóttir alþingismaður, lagði fram sérbókun til að skýra frekar sjónarmið sín, engu að síður stóð
hún fyrirvaralaust að umræddri tillögu um Landmælingar Íslands. Í bókuninni segir hún: Flutningur ríkisstofnana frá
höfuðborgasvæðinu út á land er ein þeirra leiða sem fær er til að efla landsbyggðina, enda eiga ýmsar opinberar stofnanir
einfaldlega betur heima þar vegna þeirrar þjónustu sem þær veita. Hér á landi hefur lítt reynt á slíkan flutning og löngu tímabært að
rjúfa þá rótgrónu hefð sem felst í því að nánast hver einasta ríkisstofnun sem sett er á fót er umhugsunarlaust staðsett í Reykjavík."
Þetta er alveg afdráttarlaus stuðningur við flutning ríkisstofnana út á land, og enn fremur segir Kristín: ,Reynslan verður að leiða í
ljós hvernig hefur til tekist."

Ég held að þurfi ekki frekari rök fyrir málinu. Það eina sem skyggir á er að þegar á reynir núna snýst Kristín gegn eigin tillögu og
finnur henni allt til foráttu. Það er einmitt svona flautaþyrilspólitík sem gerir það að verkum að okkur landsbyggðarmenn grunar að
stundum standi menn að svona tillögum til að friða okkur, en alls ekki til þess að efna tillögurnar.

Síðustu 5 árin hefur fjölgað um 7000 manns í Reykjavík. Síðustu 5 árin hafa liðlega 6000 manns flutt frá landsbyggðinni til
höfuðborgarsvæðisins nettó. Síðustu 5 ár hefur fækkað um 800 manns á Vestfjörðum. Síðustu 5 ár hefur verið forsætisráðherra
Davíð Oddsson, fyrsti þingmaður Reykvíkinga. Mér finnst að hinir miklu jafnaðarmenn R-listans í Reykjavík eigi frekar að senda
Davíð Oddssyni þakkir fyrir frábær störf í þágu Reykjavíkur í stað þess að fýlupokast út í Guðmund Bjarnason umhverfisráðherra
og steyta hvefann út í landsbyggðarmenn.

Ég vil hins vegar þakka Guðmundi fyrir kjark hans og hvetja hann til þess að hvika hvergi í málinu. Ég sé ekki að aðrar leiðir séu í
boði sem skila árangri.

Athugasemdir