Jafnaðarstefnan gildir í báðar áttir

Greinar
Share

Aftur skal stungið niður penna til þess að ræða það umdeilda mál, flutning Landmælinga Íslands til Akraness. Tilefnið er tvær
kjallaragreinar í DV þar sem greinahöfundar, Krístín Ástgeirsdóttir alþm. og Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi, kveða
ójafnaðarrímu sína og senda mér tóninn í leiðinni.

Kjarni málsins er þessi: Davíð Oddsson forsætisráðherra skipar nefnd til þess að gera tillögu um flutning stofnana frá
höfuðborgarsvæði til landsbyggðar. Nefndin leggur til að Landmælingar Íslands verði fluttar. Að tillögunni standa fulltrúar
Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samtaka um kvennalista. Tillögunni er beint til
ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem hrindir henni í framkvæmd.

Stefnan er að stuðla að íbúafjölgun úti um land með fjölþættari atvinnutækifærum og styrkja uppbyggingu einstakra byggðarlaga.
Ef ríkið ætti að vera hlutlaust þyrfti að flytja um 2700 störf frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðar. – Um stefnuna er pólitísk
samstaða og um tillöguna eining fulltrúa allra flokka.

Vegna greinar Árna Þórs er rétt að minna á að fulltrúi Alþýðubandalagsins var Margrét Frímannsdóttir alþm. sem nú er formaður
flokksins. Því finnst mér líklegt að Alþýðubandalagið standi heils hugar að baki ákvörðun umhverfisráðherra, sem byggð er á
tillögu Margrétar, enda er mér ekki kunnugt um andmæli við tillöguna á vettvangi flokksins.

Hafnar eigin tillögu

Nú þegar á reynir talar einn tillögumanna, Kristín Ástgeirsdóttir alþm., gegn eigin tillögu. Það er mjög athyglisvert, einkum fyrir
konur á landsbyggðinni sem horfa til þess að eiga kost á öðrum störfum en við fiskvinnslu.

Í grein sinni 31. júlí sl. nefnir Kristín þrennt til sem mæli gegn málinu. Í fyrsta lagi mikinn kostnað við flutning stofnunarinnar. Fram
hefur komið að kostnaðurinn er áætlaður um 17 mkr. Það er mat nefndarinnar, þar með talið mat Kristínar, að ávinningurinn af
flutningum sé meiri en tilkostnaðurinn. þess vegna gerir nefndin sína tillögu. Kristín hefur sjálf hafnað þeim rökum sem hún beitir nú.

Í öðru lagi nefnir Kristín að atvinnuástand hér á landi hafi versnað allverulega síðan tillagan kom fram í júlí 1993 og það réttlæti
breytta afstöðu. Staðreyndin er að atvinnuástand hefur batnað á þessum tíma. Atvinnuleysið var 3,7% fyrir 3 árum en nú er það
3,6%.

Og loks kallar hún tillöguna nú nauðungarflutninga. Fyrir 3 árum taldi hún rétt að flytja stofnunina ,þótt flutningur ríkisstofnana hafi í
för með sér fækkun starfa á höfuðborgarsvæðinu og setji einstaklinga í vanda, tel ég rétt að láta á það reyna" svo vitnað sé til
hennar eigin bókunar. Þetta hefði einhvern tíma verið kallað að tala tungum tveim.

Jafnaðarmenn á villigötum

Í fyrri grein minni fólst gagnrýni á framgöngu jafnaðarmanna í Reykjavík. Tímabil ríkisstjórna Davíðs Oddssonar hafa ekki beinlínis
verið uppgangstímar á landsbyggðinni, þvert á móti hallað undan fæti sem aldrei fyrr. Því finnst mér það skjóta skökku við að
jafnaðarmenn í Reykjavík mótmæli aðgerð sem ætluð er til þess að ójöfnuðurinn í íbúaþróun vaxi minna árið 1999 en annars yrði.
Mér finnst að jafnaðarmenn eigi að berjast fyrir því að ójöfnuðurinn verði minni en ekki öfugt. Ég kann ekki við það að
jafnaðarmenn í Reykjavík kalli það hagkvæmt og eðlilegt að þúsundir starfa ríkisins séu bara í boði í Reykjavík. Mér finnst það
skrýtin jafnaðarstefna sem er bara í aðra áttina.

En þá fyrst kastar tólfunum þegar einn jafnaðarmaðurinn ítrekað hótar því, í nafni hinna jafnaðarmannanna, að grípa til
hefndaraðgerða gagnvart íbúum á landsbyggðinni ef ríkisstjórnin hætti ekki við flutning Landmælinga frá Reykjavík. Mér er ekki
kunnugt um að íbúar á landsbyggðinni séu aðilar að deilu borgaryfirvalda við ríkið en samt á að beita yfirburðastyrk borgarinnar til
þess að kaupa upp atvinnufyrirtæki úti á landi, ekki bara á Akranesi heldur bara einhvers staðar, til þess að hefna sín.

Ég sé ekki jafnaðarstefnuna í þessari hótun nema ef vera skyldi að það sé jafnaðarstefna að jafna við jörðu atvinnulíf í einhverju
sjávarplássinu. Svona háttalag á meira skylt við efnahagslega hryðjuverkastarfsemi heldur en jafnaðarstefnu. Ég skora á félaga
mína í Reykjavík að láta af hótunum sínum og muna það að þeim er ætlað að stjórna höfuðborg en ekki borgríki.

Athugasemdir