WOW – peningar

Pistlar
Share

Í viðskiptaheiminum er það ímyndin sem ræður oft miklu um gæfu og gengi. Góð ímynd í hugum viðskiptavina jafngildir peningum fyrir fyrirtækið. WOW air er flugfélag sem sækir inn á markað fyrir ferðamenn til Íslands sem hingað koma til þess að skoða landið og náttúru þess. Hvað er betra fyrir ímyndarsköpunina en að safna peningum fyrir samtök sem berjast fyrir verndun náttúrunnar? WOW air og eigandinn Skúli Mogensen hefur séð viðskiptatækifærið í því að tengja sig og fyrirtækið við Landvernd. Síðustu ár hefur Skúli Mogensen mætt á fundi hjá Landvernd og látið á sér bera. Það er kallað ímyndarsköpun. WOW air hefur síðan safnað fé hjá farþegum sem rennur til Landverndar, sem eru síðan notaðir til þess að vernda náttúruna, eins og segir á heimasíðu félagsins. Félagið bætir síðan við jafnhárri upphæð við og farþegar hafa lagt til. Starfsemi og markmiðum Landverndar er svo ítarlega lýst svo hinir erlendu ferðamenn megi vera ljóst að þetta flugfélag er vinur náttúrunnar. Í apríl fyrr á þessu ári afhenti WOW air svo Landvernd um 18 milljónir króna. Við þetta tækifæri var starfandi formaður Landverndar himinlifandi og þakkaði stuðninginn við verndun náttúrunnar.

Vestfirðingar kannast við áherslur Landverndar og eru farnir að kynnast baráttuaðferðum samtakanna. Virkjun fallvatna á Vestfjörðum eru samtökunum sérstakur þyrnir í auga og þeim hefur tekist að gera Hvalárvirkjun, sem nær alger samstaða var um, að einu heitasta deilumáli þjóðarinnar, a.m.k. í fjölmiðlum. Landvernd leggst gegn laxeldi í sjó á Vestfjörðum og að ekki sé talað um vegagerð að litlu leyti um Teigsskóg. Öll þessi mál eru ímyndarmál frekar en raunveruleg náttúruverndarmál. Það sem skiptir máli í nútímaauglýsingaþjóðfélagi er ekki hvað er rétt heldur hvað menn halda að sé rétt.  WOW air fórnar staðreyndunum og hagsmunum Vestfirðinga fyrir ímyndunina. Það gefur þeim meiri pening og Landvernd fær meiri pening  – til þess að berja á Vestfirðingum.

 

Athugasemdir