Misbeiting á opinberu valdi veikir lýðræðið

Pistlar
Share

Undanfarin ár hafa einræðistilburðir valdhafa orðið æ augljósari með hverju árinu.  Kjörinr valdhafar hafa dregið til sín aukið vald og brotið hefðir og reglur sem ætlaðar eru í lýðræðisríkjum til þess að takmarka svigrún valdsækinna forystumanna.

Recep Tayyip Erdoğan forseti Tryklands er einn þeirra. Hann hefur sniðgengið reglur sem takmörkuðu þann tíma sem æðsti valdhafi landsins gat verið við völd og breytti þeim svo sér í hag og í leiðinni jók hann eigin völd með nýrri stjórnarskrá.  Annar þjóðarleiðtogi af sama sauðahúsi er Vladimir Putin sem hefur farið svipaða leið. Hann lét þó af völdum sem forseti eitt kjörtímabil en sett lepp fyrir sig og sneri svo aftur í embættið. Báðir liggja undir miklu ámæli fyrir að notfæra sér vald sitt til þess að tryggja sér „rétt“ úrslit úr almennum kosningum meðal annars með því að banna hættulegum andstæðingum að bjóða sig fram.

Soprano

Sá þriðji í þessum hópi er forseti Bandaríkjanna. Donald Trump er óspar á að beita opinberu  valdi sínu til þess að ná sér niðri á þeim sem andmæla honum eða standa í vegi fyrir áformum hans. Leiðarahöfundur breska blaðsins Guardian gengur svo langt í nýlegum skrifum að líkja Trump við mafíuforingja og leiðtoga glæpagengis. Vísar leiðarahöfundur til þess að Trump noti sömu aðferðir og fyrrnefndir glæpamenn og sýni daglega vald sitt , beiti því óspart til þess að ná sér niðri á andstæðingum, veita þeim ráðningu og brjóta þá á bak aftur.  Minnir þetta, að mati leiðarahöfundar Guardian  einna helst á sjónvarpsþáttinn Sopranos um mafíuforingja í New Jersey, en stjórnun hans einkenndist af tilviljunarkenndum hótunum og þvingunum, ofuráherslu á trúnað við sig og refsingum í garð þeirra sem leyfðu sér að andmæla valdi foringjans.

Trump

Vissulega hefur Donald Trump verið hvað eftir annað eins og ótýndur mafíósi þegar hann hefur hellt úr skálum reiði sinnar yfir hvern þjóðarleiðtogann á Vesturlöndum á fætur öðrum og haft upp stóryrði og svigurmæli um viðskiptaþvinganir og aðrar refsiaðgerðir. Hótunum fylgir að þeim verður framfylgt og Trump hefur komið af stað tolla og viðskiptastríði milli Bandaríkjanna og fjölmargra lýðræðisþjóða á Vesturlöndum.  En á sama tíma hefur hann gert sér dælt við hvern einræðisþjóðarleiðtogann á fætur öðrum og lagt sig fram um að hitta þá á leiðtogafundi.

Skilaboðin eru algerlega ótvíræð, valdsæknir og einræðissinnaðir  stjórnmálamenn eru honum sérstaklega að skapi. Það eiga þessir leiðtogar sammerkt að þeir líta á valdið sem persónulegt tæki til þess að berja á „óvinum“ sínum , brjóta á bak aftur þá sem standa í vegi fyrir „réttmætum“  áformum og veita þeim svo „maklega“ ráðningu  að aðrir hugsa sig rækilega um áður en þeir leggi út á sömu braut.  Það er þetta sem gerir það að verkum að Trump er líkt við mafíósa. Bent er á að með hverri nýrri valdsækinni ákvörðum sem gengur lengra en áður hefur verið gert er verið að færa út mörk valdsins í höndum mafíósans. Það er á kostnað annarra valdþátta ríkisvaldsins og veldur ójafnvægi milli þeirra þannig að smám saman verður forsetinn, með yfirgnæfandi vald í sínum höndum.

 

Valdajafnvæginu raskað

Bandaríkin hafa í nærri 250 ár verið framvörður lýðræðisins í heiminum. Helsti styrkur stjórnkerfis þeirra og í raun lýðræðisins er jafnræði milli forseta, þings og dómstóla.  Þetta jafnræði er grunnurinn að lýðræðinu og styrk þess. Stjórnarskrár annarra lýðræðisríkja fylgja í megindráttum eftir bandarisku fyrirmyndinni. Trump hefur á aðeins 18 mánuðum vanvirt mörk forsetaembættisins á flestum sviðum og gengið yfir aðra með afleiðingum sem minnir á svipaða þróun á fyrri hluta síðustu aldar.  Uppgangur fasískra stjórnmálafla og einræðisherra byggðist á því að þeir voru kjörnir til embætta í lýðræðislegum kosningum en fengu svo að komast upp með að taka sér aukið vald smátt og smátt  og það endaði í einræðisvaldi með afnámi lýðræðisins.

Trump hefur ítrekað framið lögbrot og verið svo stöðvaður af dómstólum.  Engu að síður heldur hann áfram og það er fullkomið vafamál hvort aðrar stofnanir ríksins muni eða geti til lengdar haldið honum í skefjum. Ítrekað hefur hann gengið á bak samningsbundinna skuldbindinga bandaríska ríksins, svo sem varðandi kjarnorkuafvopnunarsamninginn við Íran,  og þingið hefur liðið honum það. Nú síðast beitir hann forsetavaldi sínum til þess að svipta fyrrverandi forstjóra leyniþjónustunnar aðgangi að upplýsingum. Sá hefur gagnrýnt Trump fyrir samstarf við Rússa í aðdraganda síðustu forsetakosninga.  Annar fyrrverandi forstjóri sömu stofnunar hefur látið hafa eftir sér að þessi aðgerð Trumps sé líkari því sem gerist í bananalýðveldum en í Bandaríkjunum. Hingað til hefur forseti Bandaríkjanna beitt heimild sinni samkvæmt almennum mælikvörðum um hæfi en Trump brýtur reglurnar og notar vald sitt til þess að ná sér niðri á pólitískum gagnrýnanda.

Aðgengi að upplýsingum – Reykhólahreppur

Aðgengi að upplýsingum er grundvallaratriði í lýðræðisríkjum. Trump vill loka leiðum að upplýsingum sem eru honum ekki þóknanlegar. Af öllum stöðum í heiminum  skýtur þessi valdsækna einræðisþróun upp kollinum í Reykhólahreppi.  Þar er verið að leika enn einn tafaleikinn til þess að koma í veg fyrir áform um veg samkvæmt Þ-H leið. Nýkjörinn oddviti og starfandi sveitarstjóri setur upp á sitt eindæmi reglur sem lokar leiðum fjölmiðla að upplýsingum. Það er í senn verið að leyna andstöðu íbúa við nýjustu áformin í tafaleiknum og refsa fjölmiðlum  í anda Trumps Soprano.

Kristinn H. Gunnarsson

 

Athugasemdir