Skipulagsstofnun : krefst sóunar á opinberum fjármunum

Pistlar
Share

Sagan endalausa um vegagerð í Gufudalssveit dregst enn á langinn og hefur þó staðið nokkuð samfleytt frá 2002. Þar er Teigsskógur ásteytingarsteinninn. Tekist hefur að gera andstöðu við veg um jaðar Teigsskógs að sérstöku baráttumáli sem er til sannindamerkis um áhrif umhverfisverndarsinna. Þannig hefur málið sjálft horfið í skuggann af valdabaráttu. Stöðvun framkvæmda um Teigsskóg hefur þannig orðið mælikvarði á völd og áhrif. Samtök eins og Landvernd og ríkisstofnunin Skipulagsstofnun hafa tekið Teigsskóg í gíslingu og hafa ótæpilega misbeitt áhrifum sínum og valdi. Meira að segja hefur Skipulagsstofnun svikið nýlegt samkomulag við samgönguráðherra og torveldað vegagerðina.

Löðrungur Vinstri grænna

Skýrasta dæmið til sönnunar því að málefnið sjálft er aukaatriði eru fjölmörg dæmi um tvöfeldni í viðhorfum til umhverfisverndar. Innan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar eru lögin túlkuð á annan hátt en utan þess og reglum beitt eða öllu heldur misbeitt í samræmi við tvöfeldnina. þetta gerir stöðu Vestfirðinga afar erfiða sem ekki batnar við sívaxandi áhrif öfgakenndra skoðana innan stjórnmálaflokkanna. Þar gengur flokkur forsætisráðherra lengst í því að samsama sig öfgunum og fórnar hiklaust hag veikra byggða til þess að afla fylgis á höfuðborgarsvæðinu þar sem stífustu jaðarskoðanir í umhverfismálum eiga hvað mestan hljómgrunn. Skipun tveggja lykilmanna úr Landvernd í æðstu pólitísku stöður í Umhverfisráðuneytinu staðfesta að flokkurinn vill fjárfesta pólitískt í ýtrustu viðhorfum í umhverfismálum. Vestfirðingar hafa ekki áður verið löðrungaðir verr á ögurstundu en einmitt nú.

Engin umhverfisrök

Staðreyndin er sú að hin efnislegu rök gegn vegagerð í jaðri Teigsskógs eru fátækleg og veikburða. Því er helst borið við að það þurfi að vernda birkilendið almennt og sérstaklega í Teigsskógi vegna umfangsmeiri og heilsteyptari gróðurþekju en annars staðar. Þetta fæst ekki staðist þegar opinber gögn eru skoðuð. Fjölmargir birkiflákar á Vestfjörðum eru til og margir þeirra eru stærri en Teigsskógur. Bara í Þorskafirðinum einum er birkilendið liðlega 2000 hektarar, þar af er Teigsskógur um 670 hektarar (ha). Á Vestfjörðum eru samtals um 30.900 ha. Teigsskógur er bara lítið brot af skóglendinu eða um 2%. Talið er að aðeins 18,9 ha spillist tímabundið vegna vegagerðarinnar. Það er svo lítill hlutis birkilendis í Þorskafirðinum að ekki tekur því að tala um það, að ekki sé minnst á Vestfirðina í heild.
Þá er birkið í mikilli sókn um allt land vegna hlýnandi veðurfars, en merkilegt nokk, hvað mest á Vestfjörðum. Á 23 ára tímabili frá 1989 til 2012 jókst birkilendi á Vestfjörðum um 4400 ha. Það er eins og gefur að skilja alls konar landssvæði sem hefur bæst við það sem fyrir var. Teigsskógur verður bara eitt af mörgum svæðum sem bæta landið og þykja sérstök. Á hverjum 3 – 4 árum bætist við birkilendi á stærð við Teigsskóg og ný svæði verða til. Þetta mun halda áfram næstu áratugina svo mikið er víst. Náttúrufræðilegu rökin eru einfaldlega ekki frambærileg.

Engin kostnaðarrök

Þá er heldur ekki að finna neitt haldreipi gegn vegagerð um Teigsskóg í kostnaðinum. Þvert á móti þá krefjast allir helstu andstæðingar Teigsskógsleiðarinnar að farin verði önnur leið sem kostar nærri tvöfalt meira. Þetta er krafa Skipulagsstofnunar og Landverndar. Þegar framkvæmdastjóri Landverndar er orðinn umhverfisráðherra fyrir flokk forsætisráðherra er það yfirlýsing þess efnis að forsætisráðherrann og flokkur hans styður kröfuna um milljarða króna óþarfa útgjöld.
Teigsskógsleiðin kostar um 7,3 milljarða króna sem er mikið fé fyrir 20 km veg. En krafa Skipulagsstofnunar og fleiri um jarðgöng í gegnum Hjallaháls þýðir að kostnaðurinn verður um 13,3 milljarðar króna. Viðbótarútgjöldin eru 6 milljarðar króna.
Þessir peningar liggja ekki á lausu hjá ríkinu. Krafa um dýrari leið þýðir að framkvæmdum verður ýtt til hliðar. Fyrir 6 milljarða króna má gera mikið í vegamálum. Sem dæmi þá kosta ný mislæg gatnamót í Hafnarfirði 1,1 milljarða króna og breikkun Vesturlandsvegar í 1+2 veg kostar 3 – 4 milljarða króna. Það væri hægt að borga báðar þessar framkvæmdir fyrir umframútgjöldin sem krafist er. Málið er enn verra þegar litið er til umferðarinnar. Umferðin í Gufudalssveit er um 170 bílar á dag að jafnaði og gæti aukist upp í 300 – 350 bíla. Til samanburðar á fara um 8.100 bílar á dag að jafnaði um Vesturlandsveg og þar er daglega kallað á úrbætur.

Ábyrgðarleysi

Það á að fara vel með opinbert fé. Það lýsir miklu ábyrgðarleysi að ætla að eyða 6 milljörðumm króna meira í eina framkvæmd en nauðsynlegt er. Sérstaklega er það alvarlegt þegar opinber stofnun eins Skipulagsstofnun ríkisins setur fram þessa kröfu. Það er slíkt ábyrgðarleysi af forstöðumanni stofnunarinnar að við það verður ekki unað. Slíkt verður að hafa afleiðingar. Nú líður að því að 5 ára ráðningartími fostöðumanns rennur út. Það á að auglýsa starfið og ráða annan og ábyrgari í það.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir