1000 milljarðar króna undanþegnir skatti

Pistlar
Share

Það er kallað á meira framlag frá ríkinu til óteljandi málaflokka. Þrátt fyrir að ríkissjóður hafi bólgnað út vegna aukinna tekna sem fylgja uppsveiflunni í hagkerfinu þá er víða kvartað sáran undan naglaskap í fjárveitingum til velferðar- og heilbrigðismála. Framlög til menntamála eru skorin við nögl og erlendar athuganir sýna hnignandi kunnáttu barna og unglinga í grunnatriðum menntunar sem verður sífellt naprari vitnisburður í samanburði við erlendar þjóðir. Aldraðir hafa í mörg ár borið sig illa undan ósanngjörnum reglum ríkisins í þeirra garð. Það kveður nýrra við þegar langlundargeð kynslóðar hins lengsta vinnudags er teygt og togað út yfir öll allt velsæmi.

Þá skal minnt á fjárhagslegar þrengingar langveikra sem virðast ekki eiga neinn samjöfnuð í nálægum löndum. Þvert á móti upplýsir hver maðurinn á fætur öðrum um mannúðlegra kerfi erlendis í kostnaðarþátttöku sjúklingra en við eigum að venjast hér í „besta heimi allra heima“ og ósjaldan verður almenn fjársöfnun næsta frétt á eftir greiningu um alvarlegan sjúkdóm. Íslenskt þjóðfélag er alls ekki í lagi, það er mikið að, það er greinilega vitlaust gefið.

Pamama vírusinn

Það sem telja verður alvarlegustu meinsemdina er tilhneigingin til þess að spila frítt í þjóðfélaginu. Fá mikið gefið og vera undanþegin því að leggja fram til samfélagsins. Pamama vírusinn er staðreynd og á sér marga fylgjendur. Þeir landsmenn skiptu hundruðum, kannski meir, sem léku þann leik leynt og ljóst að dylja eignir síðnar á aflandseyjum. Það er ekki skattlagt sem yfirvöld vita ekki um. Það er gömul og ný íþrótt að leika á yfirvöldin grimm og hörð. Þetta mátti skilja meðan yfirvöldin voru útlensk, að ekki sé talað um dönsk, sem fóru illa með almúgann og áttu ekkert gott skilið. En þegar yfirvöldin eru innlend gegnir öðru máli. Þau eru að afla tekna fyrir okkur og þegar menn blekkja yfirvöldin bitnar það á okkur sjálfum, engum öðrum. Menn gera sér undir niðri grein fyrir og þess vegna dyljast Pamama prinsar og prinsessur.

Kvóta vírusinn

Af þessum toga er kvótavírusinn. Það eru nokkur hundruð landsmanna sem finnst að þeir eigi einir verðmætin í nýtingu fiskimiðanna. Þeir eigi lítið sem ekkert að borga fyrir réttinn og fá helst allt andvirðið inn á bankabækur sínar þegar þeim þóknast að selja réttinn. Þeir borga engan virðisaukaskatt af eign sinni. Kvótinn er metinn á 1000 milljarða króna og það er eign sem syndir um bókhaldið hjá þessum fáu tugum sem eiga lungann af milljörðunum og auðvitað fær ríkið svo gott sem ekkert. Út af þessari smán sem veiðigjaldið er geta kvótavesalingarnir vælt endalaust og því meir sem þeir eru ríkari. En það sem ríkið fær ekki verður ekki notað til þess að bæta lífið hjá bágstöddum. Látið er hjá líða að innheimta í ríkissjóð árlega bróðurpartinn af margra tuga milljarða króna framlegð og öðrum útvöldum látið það eftir að eiga féð.

Gjafaeigna vírusinn

Þriðji vírusinn er húsnæðiseignavírusinn. Hann er á sömu lund og hinir tveir. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar fasteiganverð í takt við batnandi efnahag. Frá ársbyrjun 2011 hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 1000 milljarða króna. Það er svipuð upphæð og allur kvóti á Íslandsmiðum er metinn á. Samkvæmt skattalögum á að greiða fullan skatt af söluhagnaði vegna verðhækkunar íbúðarhúsnæðis. En aðeins ef íbúðareignin er meiri en 1200 m³ hjá sambúðarfólki. Sé eignin færri fermetrar þá greiðist enginn skattur og allur hagnaðurinn af verðhækkuninni rennur óskiptur í vasa íbúðareigandans. Opinberir sjóðir fá ekkert. Þetta er hreinræktað gjafafé. En er með þeim annmörkum að aðeins á höfuðborgarsvæðinu hækkar verð á íbúðarhúsnæði umfram almennt verðlag og víðast hvar annars staðar gengur verðþróunin á öfugan veg. Þúsundur og aftur þúsundir fjölskyldna á landsbyggðinni búa við þær aðstæður skapaðar af óréttlátu ríkisvaldi að tapa fé sínu og/eða missa af eignaaukningu sem fylgir hagvexti og auknum verðmætum. Þeir sem tapa fá ekkert nema skaðann en þeir sem græða eru undanþegnir sjálfsögðu og eðlilegu framlagi af hagnaði sínum til samfélagsins.

Af 1000 milljarða króna eignamyndun í íbúðarhúsnæði ætti að greiða um 37% í skatt ef eðlilegar reglur væru í gildi. Tekjur hins opinbera gæti numið um 350 milljörðum króna af efnahagslegum ávinningi síðustu 7 ára. Hin sjö feitu ár eru bara feit fyrir suma en mögur fyrir þá sem treysta á ríkið og skyldur þess.
Sé horft til lengri tíma en síðustu 7 ára sýna hagtölur allt frá 1991 að raunverð íbúðarhúsnæðis hefur að jafnaði hækkað um 3% á ári umfram hækkun verðlags. Það gerir um 100 milljarða króna á hverju ári í verðhækkun eignanna. Eðlilegar tekjur hins opinbera af þeim verðmætum samkvæmt skattalögum liggja á bilinu 35 – 40 milljarða króna. Þessar tekjur vantar í ríkissjóð.

Allir þessir vírusar gera það að verkum að íslenska velferðarkerfið er götótt eins og svissneskur ostur. Þúsundir landsmanna líða fyrir vírusana þrjá. Þessu þarf að breyta. Það verður hver maður að leggja sitt af mörkum – undanbragðalaust.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir