Vísur vikunnar (135): Þó að tiðum þokuloft

Molar
Share

6. ágúst 2009.

Nýlega er komin út ævisaga séra Sigurðar Stefánssonar, prests og alþingismanns í Vigur í Ísafjarðardjúpi. Ævisagan er reyndar fyrst og fremst stjórnmálaævisaga hans og hafði sr. Sigurður gengið frá henni er hann lést. Hann var fyrst kjörinn á þing 1886 og sat þar nær óslitið til 1923 og hafði enginn setið lengur á þingi er Sigurður dró sig í hlé.

Sigurður var ómyrkur í máli um suma samtíðarmenn sína. Þeir Tryggvi Þórhallsson og Jónas frá Hriflu voru ekki honum beinlínis að skapi. Um Tryggva segir sr. Sigurður, að hann hafði verið talinn"sæmilega viti borinn og drengur góður en lítt þótti bera á því" þegar hann var ritstjóri Tímans. Sigurður afgreiddi Jónas með þessum orðum: "Jónasi þessum var margt vel gefið, er honum var ósjálfrátt".

Sr. Sigurður var Skagfirðungur, fæddur á Ríp í Hegranesi og ólst upp á Heiði í Gönguskörðum. Móðurafi sr. Sigurðar var Sigurður Guðmundsson og hann orti um Heiði:

Þó að tíðum þokuloft,
þar sig yfir breiði,
veðurblíðan er þó oft,
unaðsleg á Heiði.

Þegar ég skil við þennan heim
að þrotnu lífsins skeiði,
blessi guð og bjargi þeim,
sem búa hér á Heiði.

Athugasemdir