Vísur vikunnar ( 130): Því kom ekkert vinstra vor

Molar
Share

26. desember 2008.

Í Fréttablaðinu var þann 15. október síðastliðinn birt vísa sem Davíð Oddsson kastaði fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2003 í aðdraganda alþingiskosninga. Segist Fréttablaðinu svo frá að vísan hafi vakið mikla lukku fundargesta. Vísan er svona:

Ríkisstjórn með þrótt og þor
á þjóðráðunum lumar.
Ef við kjósum vinstra vor
verður ekkert sumar.

Í blaðinu segir svo: Ekkert varð heldur úr vinstra vorinu sem Davíð
óttaðist. En gaman væri að heyra jafn skáldlegar skýringar á vetrinum, sem nú er
skollinn á af fullum þunga.

Ekki stóð á svörunum. Frá Akureyri símaði Ari Friðfinnsson frá Baugaseli strax daginn eftir sínar skáldlegu skýringar eins og óskað var eftir:

Bældi niður þjóðar þor
þulinn nornagaldur,
því kom ekkert vinstra vor
en vetur íhaldskaldur.

Brá nú svo við á Fréttablaðinu, undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, að vísan hefur ekki enn birst í blaðinu. Engin skýring hefur verið gefin fyrir fálætinu. Er nú spurt hvað veldur? Týndist vísan? Vildi Þorsteinn ekki birta vísuna? eða Jón Ásgeir?
Eða Davíð sjálfur?
En hver sem skýringin er þá eru vísurnar báðar góðar og sú seinni sínu beinskeyttari.

Athugasemdir