Vísur vikunnar (129): Blær á leiðum bærir strá

Molar
Share

22. desember 2008.

Á Eiríksstöðum í Svartárdal í Húnavatnssýslu býr Guðmundur Valtýsson frá Brattahlíð. Hann hefur um langt árabil haldið úti af miklum myndarbrag vísnaþætti í Feyki, vikublaði sem gefið er út á Sauðárkróki. Verður hér gripið niður í vísanþátt hans frá haustinu 2007 og þar eru gangnavísur viðfangsefnið.

Fyrst eru tvær vísur eftir Kristján í Gilhaga:

Eyðisandur órafirð
ótal myndir geyma.
Gulli brydd í grafarkyrrð
glitra fjöllin heima.

Auðnarfegurð, undraland
íss í veldi sólar.
Upp sig hefja yfir sand
Eyfirðingahólar.

Næst er hringhenda eftir Óskar Sigurfinnsson, Meðalheimi:

Okkar beið hér engin neyð
ýmsar leiðir könnum.
Öll var heiðin auð og greið
undanreiðarmönnum.

Enda svo þessa upprifjun úr vísanþætti Guðmundar Valtýssonar með fallegri vísu eftir Kristján í Gilhaga:

Blær á leiðum bærir strá
blómaskeiðin liðin.
Enn mig seiðir einhver þrá
inn í heiðarfriðinn.

Lesendum er óskað gleðilegra jóla og betra árferðis á næsta ári með von að nú fari senn að linna öfurbölmóðnum sem einkennt hefur undanfarnar vikur. Fátt vinnst með því að sökkva þjóðinni í vonleysi myrkursins.

Athugasemdir