Vísa vikunnar ( 149): Lúið hef ég bakið beygt

Molar
Share

27. mars 2010.

Í dag var húslestur í Safnahúsinu á Ísafirði. Vestfirskur húslestur er samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Bókasafnsins og hófst í janúar 2007. Fyrst var fjallað um þjóðskáldið Matthías Jochumsson, en í dag voru kynntar systurnar Herdís og Ólína Andrésdætur. Elfar Logi Hannesson las ljóð þeirra og Jóna Símonía Bjarnadóttir fjallaði um ævi þeirra og kvæðagerð.

Húslesturinn var hin besta skemmtan og til gamans má geta þess að meðal gesta var barnabarnabarn Herdísar. Birti hér tvær vísur Herdísar sem Jóna Símonía fór með:

Lúið hef ég bakið beygt,
bundið stundum heyið,
malað kornið, kjötið steikt,
keflað lín og þvegið.

Þó gæfist mér ei gull í mund
og grátt mig léki þörfin,
eg hef marga yndisstund
átt við hversdagsstörfin.

Athugasemdir