Vísa vikunnar ( 147): Djúpmanna dug og elju

Molar
Share

31. janúar 2010.

Vísa vikunnar er að þessu sinni reyndar heilt ljóð. Dag nokkurn fyrir um það bil tveimur árum, varð ljóðið til, á leið vestur akandi á misjöfnum vegum sem oftar. Þá voru sem oftar uppi þær hugmyndir hjá ráðamönnum landsins að skera niður fé til vegamála, annað hvort vegna góðæris og þenslu eða vegna samdráttar í efnahagslífinu í kjölfar niðurskurðar á þorskafla. Ekki er gott að muna hvort heldur er, en það kemur út á eitt fyrir Vestfirðinga og vondu vegina þar.

Það er betri helmingurinn, Elsa B. Friðfinnsdóttir, sem raðaði ljóðinu saman í bílnum og hvetur Vestfirðinga til dáða þrátt fyrir misvitra ráðamenn:

Bíta í skjaldarrendur
berjast með orðsins sverði
bugast eigi.

Fjallið mitt fagra yfir
fara viljum við allir
feykjast eigi.

Ráð undir rifi hverju
ráðamenn vilja hafa
reynast eigi.

Vegagerð alla í vestri
vilja niður skera
varast eigi.

Djúpmanna dug og elju
draumar um leiðir greiðar
daprast eigi.

Athugasemdir