Vísa vikunnar ( 134): Viltu mig á Vigur Breið

Molar
Share

13. júlí 2009.

Tvær vísur eftir Hjört Kristmundsson hafa nýlega orðið á vegi mínum. En Hjörtur var bróðir Steins Steinars og því Djúpmaður. Hann var um tíma skólastjóri í Reykjavík.

Sú fyrri birtist nýlega í vísnadálki séra Hjálmars Jónssonar í Bændablaðinu og er svona:

Árin tifa, öldin rennur,
ellin rifar seglin hljóð;
fennir yfir orðasennur,
eftir lifir minning góð.

Kannski verður nútíminn svona í minningunni eftir nokkra áratugi.

Síðari vísan eftir Hjört lýsir nokkurri heimþrá. Hún var ort um jólin fyrir hálfri öld til Bjarna Sigurðssonar í Vigur:En þar er enn báturinn Vigur Breiður.

Hugurinn leitar heim á leið
heilla Djúpsins regin.
Viltu mig á Vigur Breið
vista hinum megin?.

Athugasemdir