Villugötur Vilhjálms

Pistlar
Share

Þegar ratað er á villugötur verður það að lokum til tjóns, fyrir þann sem götuna fer og oft líka fyrir aðra. Þannig háttar til með Vilhjálms Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness. Af innblásnum anda hins sannfærða er hann í sinni krossferð og hleypur á eggjagrjóti réttlætisins eftir krákustígum samsæriskenninganna og safnar liði gegn hinum vanheilögu heiðingjum. Stóri vandinn við krossferðina er að myndin er öll röng, trúarbrögðunum er misbeitt og vegurinn endar í ófæru.

Við þessar aðstæður verða heittrúaðir krossfarar öllum almenningi varasamir. Þeir eru eins og úlfar í sauðargæru. Það verður að taka varna, leiðrétta rangfærslur, benda á staðreyndir og stuðla að opinberri umræðu um lausnir á rétt skilgreindum vanda. Þess vegna verður stöðug þörf á því að bera til baka staðleysur og afhjúpa blekkingar, sem settar eru fram til þess að eins að afvegaleiða almenning í þágu takmarkaðra hagsmuna og ætlaðar eru til þess að afla fylgis við aðgerðir sem munu skaða annan hóp algerlega að ósekju.

Krossferð Vilhjálms Birgissonar beinist gegn verðtryggingunni, sem hann gerir að Lúsifer í heimsmynd sinni. Það er rangur andstæðingur. Verðbólgan er orsökin fyrir hækkun verðlags og skulda, hvort sem notuð er verðtrygging eða ekki. Afnám verðtryggingar leysir ekki verðbólguna eða hvernig skýrir Vilhjálmur áratuga langa og jafnvel aldalanga sögu verðbólgunnar á Íslandi, ef út er það farið, fyrir daga verðtryggingarinnar? Spyrja má eins og Snorri goði: „Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“

Þegar greiningin á vandanum er röng, verður lausnin bæði röng og ranglát. Afnám verðtryggingar er leið Vilhjálms og fleiri til þess að koma því svo fyrir að skuldir verði lækkaðar fyrir tilverknað verðbólgunnar. Það er hægur vandi, sérstaklega fyrir sannfærða verkalýðsleiðtoga, að sjá til þess að nægur eldsmatur verði fyrir nægilegar hárri verðbólgu, t.d. með óábyrgum kjarasamningum.

Þolendur í herferð Vilhjálms eftir villgötunum, ef hún fer eins og hann ætlar, verður gamla fólkið. Það mun ekki fá þann lífeyri sem það hefur lagt til hliðar fyrir. Afnám verðtryggingar mun lækka mánaðarlegan lífeyri lífeyrissjóðanna, sem í dag er verðtryggður. Sú aðgerð mun færa hundruð milljarða króna úr lífeyrissjóðunum til þess að lækka skuldir. Það verður allt frá lífeyrisþegum tekið.

Það sem kannski er alvarlegast við herferð krossafarans Vilhjálms frá Langasandi felst í endurskilgreiningunni á siðferðilegum gildum sem þjóðfélagið byggist á. Því er haldið fram sem guðlegum sannleika að ekki þurfi að standa við gerða samninga og að annar aðilinn megi breyta gildum og löglegum samningi eftir á eftir eigin höfði og ákvarða nýja skilmála að eigin mati. Þegar búið verður að ryðja þessa braut einu sinni verður hún farin aftur og aftur, það verður enginn endir á nýjum tilefnum fyrir komandi skuldara til þess að kveða upp þann úrskurð í anda hins nýja rétttrúnaðar að leikreglum verði að breyta eftir á.

Það er mikið umhugsunarefni , hvað margir taka undir þessa nýju þjóðfélagsskipan og kannski hvað verst hvað þeir virðast vera gersamlega tilfinningalausir fyrir hag þeirra sem fyrir högginu verða, sem eru þeir sem síst skyldi. En reyndar hefur það líka oftast orðið afleiðingin af krossferðum allra tíma.

Vilhjálmur Birgisson berst með ósannindum og hefur verið afhjúpaður, bæði með greinum mínum og ekki síður þess sem hann kallaði sér til aðstoðar. Hann getur hvorki skýrt né varið fullyrðingar sínar um verðtryggð og óverðtryggð lán, en heldur samt áfram að segja ósatt. Á meðan svo er verður alltaf nauðsynlegt að segja sannleikann um málflutning krossfarans.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir