Veruleiki Vestfirðinga

Pistlar
Share

Veruleiki Vestfirðinga er sá að byggð stendur og fellur með sjávarútvegi. Veruleik Vestfirðinga er sá að gjöfulustu fiskimið landsins eru skammt undan fjörðunum. Veruleiki Vestfirðinga er sá að undanfarin 20 ár hefur almennt atvinnufrelsi í útgerð verið afnumið. Fámennum útvöldum hópi var fengið það vald í hendur, svo lengi sem þeir sjálfir kysu, að ráða því hvar væri gert út, hver gerði það, hvernig og hvenær. Þessum hópi voru settar fátæklegar reglur og þeim hefur liðist að fara frjálslega eftir þeim. Veruleiki Vestfirðinga er sá að þeir ná sér ekki aftur á strik, landi og þjóð til gagns, nema að atvinnufrelsið verði endurvakið og ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins þarum virt.

Þess vegna er frelsið kjarninn í stefnu okkar sjö sem höfum nýlega sent frá okkur tillögur til stjórnvalda um breytingar á lagaumgjörð um sjávarútveginn. Við trúum því að fyrir alla sé það best , nema þá fáu stóru sem nú halda um kvótann, að aðgangsreglur séu almennar, að allir sem það vilja geti sem oftast keppt um aflaheimildarnar og spreytt sig á útgerð í samkeppni við þá sem fyrir hafa verið á hverjum tíma. Við trúum því líka að nauðsynlegt sé að allir búi við jafnræði og sömu lagaskilyrði bæði útgerð og vinnslu. Samkeppni í útgerð er ógerleg ef sum fyrirtæki ráða því hvort önnur megi starfa og geti að auki gert þeim að greiða sér fyrir starfsleyfið.

Það fyrirkomulag sem viðgengst í sjávarútvegi er ekkert annað en einkavædd einokun og fjárplógsstarfsemi. Gamlir sósíalistar gætu með góðum rökum talað um framsalið og leigukvótann sem ríkisdrifna einkavædda fjárkúgun. Við trúum því að jafnræði eigi að ríkja, þess vegna viljum við afnema líka sérreglur varðandi kvótanýtingu fyrir vinnsluskip og útfluttan óunninn fisk. Samkeppni í vinnslu er ógerleg ef sum þeirra fá fiskinn á lágu verði en önnur verða að kaupa á fiskmarkaði og greiða markaðsverð.

Við viljum koma á frelsi og jafnræði í sjávarútvegi. Það mun gagnast Vestfirðingum best, vegna þess að þar er fiskurinn , vegna þess að þar eru bestu sjómennirnir, vegna þess að þar eru flestu athafnamennirnir sem í dag fá ekki tækifæri og vegna þess að þar er fiskvinnslu- og landsverkafólk í fremstu röð.

Á Vestfjarðamiðum og í Breiðafirði veiddust 57 þúsund tonn af þorski árið 2009. Það var þriðjungur alls þorskafla landsmanna. Svo hefur verið að meðaltali síðan 1991. En aðeins um 18 þúsund tonnum af þorski var landað á Vestfjörðum það ár. Ef bætt er við Snæfellsnesi, vegna þess að þessar tölur ná einnig til veiði í Breiðafirði þá er samt svipaður veruleiki. Þar var um 15 þúsund tonnum af þorski landað árið 2009. Samtals var landað á svæðinu, sem aflatölurnar ná til, um 33 þúsund tonnum en aflinn var 57 þúsund tonn eins og fyrr segir. Það var 24 þúsund tonnum meira veitt af þorski á svæðinu en landað var þar.

Þegar litið er til þess hvað af lönduðum afla fór til vinnslu verður munurinn enn meiri. Aðeins um 11.500 tonn af þorski voru unnin á Vestfjörðum og á Snæfellsnesi tæplega 9000 tonnum. Samtals liðlega 20 þúsund tonn voru unnin í byggðunum sem eru við þessi fiskimið, en 37 þúsund tonn voru unnin annars staðar. Kostnaður við bæði veiðar og vinnslu var augljóslega meiri en þurfti að vera.

Í venjulegu starfsumhverfi sér samkeppnin um það að færa starfsemina til fyrirtækja sem standa sig betur og færa starfsemi þangað sem hagkvæmast er, en í sjávarútvegi er komið í veg fyrir það. Skortur á athafnafrelsi stöðvar samkeppnina og framsalið gerir hagkvæmu útgerðinni að greiða hinni óhagkvæmu. Hin óhagkvæma útgerð getur þannig lengi flotið í skjóli skattlagningar og safnað nýjum skuldum. Framsalið er ekkert annað en árleg tekjulind, sem ríkið afhendir nær endurgjaldslaust. Þetta fyrirkomulag er gamall draugur úr fortíðinni sem haldið var að búið væri að kveða niður, en er nú að lifna við í kvótakerfinu íslenska og geta af sér héraðshöfðingja, sem sumir hverjir eru farnir að deila og drottna í ríki sínu og eins og Sturlungar forðum.

Gróðinn af framsalinu

Veruleikinn í framsalsheiminum er lýgilegri en hrekklaus og sómakær Íslendingur getur látið sér til hugar koma. Á aðeins 11 árum jukust í krafti framsalsins skuldir sjávarútvegsins um nærri 400 milljarða króna. Skuldirnar voru 90% af útflutningstekjum ársins 1997 en voru orðnar 292% af útflutningstekjum 2008. Um 60% af skuldaaukningunni fór til kaupa á veiðiheimildum, um 30% í fjárfestingar í ótengdum rekstri og um 10% töpuðust í gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum. Ekkert fór til fjárfestinga í fastafjármunum, svo sem skipum og búnaði. Þeir voru fáir Íslendingarnir sem fengu þessa milljarða í sinn vasa.

Kerfið sem ekki má breyta, bætti ekki atvinnugreinina, ekki atvinnutækin og engin framleiðniaukning hefur orðið í útgerð síðan 1991. Kerfið gerir mönnum hins vegar kleift að taka út úr greininni 35 – 40 milljarða króna á hverju ári. Það sem kemur kannski flestum mest á óvart er hvað útgerðarmenn veiða lítið af heimildum sínum. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá maí 2010 var leigt aflamark fiskveiðiárið 2008/9 um 25% af heildarúthlutun ársins og í smábátakerfinu var hlutfallið enn hærra eða um 40%. Leiguframsalið hefur farið vaxandi undanfarin ár og lögin eru ákaflega rúm hvað þetta varðar. Kvótalausar útgerðir voru langstærsti aðilinn með nærri 40% af allri leigu í þorskinum. Aðeins þarf að veiða helming veiðiheimildanna. Kerfið er meira fyrir þá sem vilja fénýta veiðiheimildirnar en veiða þær.

Þetta fiskveiðiár var meðalverðið 194 kr fyrir leyfið til þess að veiða 1 kg af þorski í aflamarkskerfinu og 191 kr í smábátakerfinu. Veiðigjaldið sem handhafinn og sá sem leigði frá sér kvótann greiddi til ríkisins það ár var aðeins 0,71 kr eða 0,0004% af kvótaleigunni. Ríkið afhendir því árlega 166 handhöfum kvóta í aflamarkskerfinu og 196 aðilum í smábátakerfinu, þeir eru ekki fleiri, og leyfir þeim að leigja frá sér helminginn og hafa 99,9996% í hagnað. Nú er leigan á bilinu 250-300 kr/kg en gjaldið til ríkisins heilar 6,44 kr. Hagnaður kvótaeigandans af leigunni hefur því vaxið úr 193 kr í 244 – 294 kr/kg.

Hvernig sem kerfið verður mun útgerðin geta greitt verulegt fé fyrir heimildina til þess að veiða.Það á ekki bara við um kvótalausu útgerðina heldur hinar líka. Við sem að tillögunum stöndum teljum það réttlátt að helmingur af tekjunum fyrir veiðileyfið renni til sjávarbyggðanna og teljum það réttlátara en að kvótahandhafi þorpsins fái einn allan ávinninginn og taki hann með sér þegar hann flytur suður.

Þetta er veruleiki Vestfirðinga. Þess vegna eru róttækar breytingar óhjákvæmilegar, landi og þjóð til heilla, en fyrst og fremst Vestfirðingum til framdráttar. Þeir þurfa ekki að óttast frelsið.

Athugasemdir